03.10.2016 10:00

B. v. Bragi RE 275. LBPW / TFGC.

Bragi RE 275 var smíðaður hjá Ferguson Brothers Shipbuilder & Engineers Ltd í Port Glasgow í Skotlandi árið 1918 fyrir breska sjóherinn (Admiralty Royal Navy London), hét William Honnor. Smíðanúmer 240. 321 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Ferguson Brothers. Árið 1923 er skipið skráð hjá Irish Free State Government. Seldur árið 1926, A/S Tvöroyri Fiskeriselskab (R.B. Thomsen) í Trangisvogi í Færeyjum, hét þar Grímur Kamban. Seldur árið 1927, J. McCann í Hull, fær sitt gamla nafn, William Honnor aftur. Seldur sama ár, Yorkshire Steam Fishing Co Ltd í Hull, fær nafnið Sprayflower. Seldur árið 1928, Geir & Th. Thorsteinsson í Reykjavík, fær nafnið Bragi RE 275. Togarinn var sigldur niður út af Fleetwood af breska flutningaskipinu, Duke of York, 30 október árið 1940. 10 menn fórust en 3 mönnum var bjargað um borð í Duke of York.

Bragi RE 275 að veiðum.                                             Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

Togarinn William Honnor.                                                                         Ljósmyndari óþekktur. 

    Togarinn "Bragi" ferst við England

Bragi, annar togari Geirs Thorsteinsson, fórst við Englandsstrendur snemma á miðvikudagsmorgun, af völdum áreksturs. Af 13 manna áhöfn skipsins fórust 10, en 3 björguðust. Þessi harmafregn barst Geir Thorsteinsson í símskeyti, er hann fékk um klukkan 1 aðfaranótt fimtudags. Ekkert var sagt í skeytinu um það, hvar slysið hefði verið eða hvernig það hefði atvikast. Aðeins var sagt, að enskt vöruflutningaskip, "Duke of York" , hefði rekist á Braga, hann farist og aðeins þrír menn af áhöfninni bjargast.
Í skeytinu var getið um mennina sem björguðust þannig, að aðeins föðurnöfnin voru tilgreind : Sigurðsson, Olsen og Einarsson. Um tvo hina fyrstnefndu var ekki um að villast. Það eru þeir Þórður Sigurðsson 2. stýrimaður og Stefán Olsen kyndari. En á skipinu voru tveir menn Einarssynir, þeir Guðmundur Einarsson 1 vjelstjóri, Bergþórugötu 53 og Stefán Einarsson kyndari, Sólvallagötu 21 . Hinn síðarnefndi hafði ekki verið á Braga að undanförnu, fór aðeins þessa ferð út. Þegar Geir Thorsteinsson varð þess var, að hjer gat verið um tvo menn að ræða, sem björguðust, sendi hann skeyti út og spurðist fyrir um, hvor þeirra  hefði komist lífs af. Það skeyti var sent hjeðan klukkan 3 í fyrrinótt. Svarskeyti var ókomið í gærkvöldi. Eins og getið var hjer að framan, var ekkert sagt í skeytinu sem sagði frá slysinu, hvar slysið varð eða með hverjum hætti það bar að. Bragi var á leið með fiskfarm til Englands. Var búist við að hann myndi selja farminn í Fleetwood á miðvikudag eða fimtudag. Hefir togarinn því verið kominn nálægt Fleetwood. Er ekki ósennilegt, að slysið hafi atvikast þannig, að togarinn hafi legið um kyrt og verið að bíða eftir að birti, til þess að geta siglt áfram. Hafi þá "Duke of York" , sem er 3743 br. smál. að stærð, siglt á togarann. Skip, sem komin eru að ströndum Bretlands, mega ekki hafa ljós uppi og er vitanlega meiri hætta á árekstrum fyrir það.
Þeir níu af skipverjum á Braga, sem vitað er um að farist hafa með skipinu, eru : Ingvar Ágúst Bjarnason, skipstjóri, til heimilis á Öldugötu 4, 48 ára að aldri. Hann lætur eftir sig konu og 6 börn, og af þeim eru 4 innan 16 ára aldurs. Sigurmann Eiríksson, 1. stýrimaður, Barónsstíg 43 ; 42 ára . Kona og 2 börn í ómegð. Ingvar Júlíus Guðmundsson, 2. vjelstjóri, Spítalastíg 5 ; 42 ára . Kona og 5 börn; öll í ómegð. Þorbjörn Björnsson, matsveinn, Laugaveg 20 B; 38 ára . Kona og 2 börn í ómegð. Lárus Guðnason, háseti, Kárstíg 11 ; 45 ára . Kona og 2 börn í ómegð. Sveinbjörn Guðmundsson, háseti, Njálsgötu 50 ; 39 ára. Kona og eitt barn í ómegð. Elías Loftsson, háseti, Skólavörðustíg 35 ; 33 ára. Kona og 1 barn í ómegð. Ingimar Kristinsson, háseti, Hafnarfirði; 40 ára. Bjó með öldruðum föður sínum. Ingimar Sölvason, loftskeytamaður, Njálsgötu 84 ; 30 ára . Kona og 1 barn í ómegð. Vitað er um eftirtalda tvo menn, sem björguðust: Þórður Sigurðsson, 2. stýrimaður, Tjarnargötu 2. Stefán Olsen, kyndari, Kárastíg 13. En eins og áður segir var ekki seint í gærkvöldi fengin vitneskja um afdrif tveggja mannanna , þeirra Guðmundar Einarssonar 1. vjelstjóra og Stefáns Einarssonar kyndara . Annar hvor þeirra hefir drukknað.

 Togarinn Bragi var bygður 1918 í Port Glasgow. Hann var bygður úr stáli, 321 br. smál að stærð. Hann var um skeið eign Færeyinga og hjet þá Grímur Kamban. Árið 1928 keypti Geir Thorsteinsson togarann, sem þá var aftur kominn í eign bresks fjelags. Geir Thorsteinsson hefir átt Braga síðan. skipið hafði einkennisstafina RE 275.

Morgunblaðið 1 nóvember 1940.

Flettingar í dag: 1022
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193642
Samtals gestir: 83753
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 22:01:38