07.10.2016 12:40

343. Björn NK 33.

Björn NK 33 var smíðaður á Fáskrúðsfirði árið 1929. Eik og fura 17 brl. 30 ha. Union vél. Eigandi var Gísli Kristjánsson í Neskaupstað frá 18 mars 1929. Ný vél (1940) 66 ha. Kelvin díesel vél. Seldur 7 október 1937, Ársæli Júlíussyni og Þorsteini Júlíussyni í Neskaupstað. Seldur 25 mars 1955, Helga Símonarssyni og Einari Jónssyni í Neskaupstað. Seldur 21 apríl 1957, Þorvaldi Einarssyni í Neskaupstað. Ný vél (1962) 86 ha. Perkins díesel vél. Seldur 17 september 1963, Halldóri Einarssyni og Björgvin Halldórssyni í Neskaupstað, báturinn hét Stígandi NK 33. Báturinn fórst um 20 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni, 12 desember 1971. 2 menn fórust, bræður, en einn maður bjargaðist um borð í togarann Barða NK 120 eftir 13 klukkustunda hrakninga í gúmmíbjörgunarbát.


Björn NK 33 á Norðfirði.                                                                                   (C) Björn Björnsson.


Stígandi NK 33 með Norðfjarðarhorn í baksýn.                                    Málverk eftir Pétur Óskarsson.

         Bátur frá Norðfirði ferst
                   

                   Tveir bræður drukknuðu

Mánudaginn 12. des. fórst v/b Stígandi NK 33, 15-20 sjómílur suðaustur úr Horni. Voru skipverjar að enda við að draga línuna þegar slysið varð. Samband var haft við bátinn um klukkan 13 en hálftíma síðar fórst hann mjög skyndilega. Kom hnútur á bátinn og mun honum hafa hvolft. Á bátnum voru þrír menn og fórust tveir þeirra, bræðurnir Björgvin og Einar Halldórssynir. Þeir voru synir hjónanna Kristínar Einarsdóttur, sem látin er fyrir mörgum árum, og Halldórs V. Einarssonar, útgerðarmanns. Björgvin var 30 ára gamall fæddur hér í bæ 30. ágúst 1941. Hann var ókvæntur, en bjó með föður sínum. Einar var 36 ára fæddur í Mjóafirði 5. okt. 1935. Hann lætur eftir sig konu, Rósu Skarphéðinsdóttur, og 4 börn á aldrinum 6 til 11 ára. Þeir bræður áttu Stíganda, ásamt föður sínum, og voru fengsælir og dugandi sjómenn. Þau hjón, Kristín og Halldór, eignuðust fimm syni. Fjórir þeirra eru nú látnir, allir af slysförum. Austurland vottar ástvinum hinna látnu bræðra dýpstu samúð. Þriðji maðurinn á bátnum var Eiríkur Trausti Stefánsson, Melagötu 18, frá Karlsskála í Helgustaðahreppi. Honum tókst að komast í gúmmíbát. Þegar Stígandi kom ekki að landi á eðlilegum tíma, var hafin leit og um nóttina fann Barði gúmmíbátinn og var þá ljóst hvernig komið var. Hafði Eiríkur Trausti þá verið 13 tíma í bátnum. Stígandi var 16 lesta bátur, smíðaður á Fáskrúðsfirði 1929 fyrir Gísla Kristjánsson. Hét hann þá og lengi síðan Björn, en Stígandanafnið hlaut hann þegar Halldór og synir hans keyptu hann.

Austurland. 31 desember 1971.


Flettingar í dag: 433
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2965
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 1197173
Samtals gestir: 83836
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 02:47:25