15.10.2016 10:33
70. Gullfoss ll. TFGA.
Ísland
fagnaði Gullfossi í fegursta veðri
Stærsta
farþegaskip Íslendinga kom til Reykjavíkur í gærdag
Þegar Gullfoss sigldi fánum skreyttur inn Faxaflóa í
gærmorgun var veður hið fegursta, logn, glaða sólskin og varla skýhnoðri á
lofti. Á glæsilegri móttökur var varla kosið af hálfu Fjallkonunnar. Klukkan
12,30 var skipið komið rjett inn fyrir Garðskaga. Þar mætti frjettamaður og
ljósmyndari Morgunblaðsins því og tók af því fyrstu myndirnar, sem teknar voru
af því á Íslandi. Voru þær teknar úr flugvjel.
Þegar flugvjelin sveimaði yfir skipinu og í kring um það fór það með hægri
ferð. Gullfoss ætlaði sjer ekki að vera kominn að Gróttu fyrr en kl. 13 og lá
því ekkert á. Sáust farþegar á gangi á þilförum skipsins í góða veðrinu. Um
klukkan 11 f. h. höfðu fjögur skip Eimskipafjelagsins, Goðafoss, Brúarfoss,
Fjallfoss og Selfoss, sem lágu í Reykjavíkurhöfn leyst landfestar og haldið út
Faxaflóa til móts við Gullfoss. Mættu þau honum úti í flóanum og sneru síðan
við með honum til lands. Var það hin fegursta sýn er þessir 5 "Fossar"
beindu stefnum að landi.
Morgunblaðið fór í prentun kl. 4 í gær og getur því ekki að þessu sinni sagt
frá hinum hátiðlegu móttökum, sem undirbúnar höfðu verið. En ráðgert var að
Gullfoss legðist við bryggju í Reykjavíkurhöfn kl. 5 síðdegis. Þar átti
siglingamála ráðherra Ólafur Thors m. a. að halda ræðu. Voru skip öll í
höfninni fánum skreytt. Frjettaritstjóri Mbl. ívar Guðmundsson, sem eins og
kunnugt er, var farþegi með skipinu, átti tal við blaðið er Gullfoss var kominn
að Gróttu og sagðist honum þannig frá: Áhrifamesta stundin fyrir farþega og
áhöfn Gullfoss í fyrstu ferð hans var, er fjögur Eimskipafjelagsskip sigldu á
móti honum í Faxaflóa um hádegisbil í dag. í stafalogni og sólskini sigldi
Gullfoss inn flóann. Farþegar höfðu setst að snæðingi, en þá var tilkynnt
gegnum hátalara skipsins, að von væri fjögurra skipa til þess að taka á móti
Gullfossi. Allir stóðu upp frá borðum og þustu upp á þiljur til þess að sjá
hina tignarlegu sjón, er skipin sigldu út skreytt hátíðarflöggum, hvert á eftir
öðru fyrst Goðafoss, þá Brúarfoss og
síðan Fjallfoss, en Selfoss rak lestina.
Um leið og hvert skip fór fram hjá Gullfossi, þeytti það flautu sína og
heilsaði með fánanum að sjómannasið, en svarað var á sama hátt frá Gullfossi.
Fyrsta kveðjan, sem Gullfoss fjekk í morgun, var er Gullfaxi,
millilandaflugvjel Flugfjelags Íslands, flaug á móti skipinu út af Reykjanesi
um níu leytið. Fór flugvjelin hring í kringum skipið, en flaug síðan á móti því
og fram hjá í jafnhæð skipsins, svo greinilega mátti sjá áhöfn og farþega um
borð í vjelinni. Skömmu síðar barst heillaóskaskeyti frá flugstjóranum, Sigurði
Ólafssyni, til skipstjóra og skipshafnar á Gullfossi. Gullfoss kom upp að
landinu um þrjú leytið aðfaranótt laugardags. Var þá auðsjeð, að ef skipið
sigldi með sama hraða, mundi það verða langt á undan aætlun til Reykjavíkur.
Var því tekið það ráð að hægja ferðina og komið á ytri höfnina í Reykjavík um
kl. 1, eins og áætlun stóð til.
Morgunblaðið 21 maí 1950.
Heimildir: Skipstjórar og skip ll.
Eimskipafélag Íslands í 100 ár.