23.10.2016 10:08

212. Sæþór ÓF 5. TFDZ.

Sæþór ÓF 5 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1960 fyrir Hraðfrystihús Ólafsfjarðar h/f á Ólafsfirði. Stál. 155 brl. 460 ha. Deutz díesel vél. Skipið var selt 25 janúar 1973, Haferninum h/f á Akranesi, hét Sæfari AK 171. Var endurmælt 23 ágúst 1973, mældist þá 127 brl. Ný vél (1977) 490 ha. Deutz díesek vél. Selt 29 september 1977, Erlingi h/f í Vestmannaeyjum, hét Erlingur Arnar VE 124. Selt 7 ágúst 1980, Hafnfirðingi h/f í Hafnarfirði, hét Hringur GK 18. Endurmælt árið 1980, mældist þá 132 brl. Selt 17 mars 1981, Hilmari Magnússyni og Oddi Sæmundssyni í Keflavík, hét Vatnsnes KE 30. Selt árið 1985, Guðmundi Axelssyni og Helga Hermannssyni í Keflavík, hét Axel Eyjólfsson KE 70. Skipið var lengt árið 1986. 2 apríl 1987 er Guðmundur Axelsson í Keflavík skráður eigandi. Fær nafnið Skagaröst KE 70 árið 1988. Skipið var yfirbyggt sama ár og ný vél (1988) 866 ha. Caterpillar vél. Skipið var endurmælt í september 1988, mældist þá 187 brl. Selt 23 mars 1990, Ingimundi h/f í Reykjavík, hét Ögmundur RE 94. Selt til Grænlands og tekið af skrá 22 desember 1994.


Sæþór ÓF 5.                                                                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

      Nýtt stálskip til Ólafsfjarðar í gær

 Í morgun kl. 10.30 sigldi hér inn höfnina nýtt vélskip, fánum skrýtt. Skip þetta heitir Sæþór ÓF 5 og er eign Hraðfrystihúss Ólafsfjarðar h.f. Það er smíðað í Risör í Suður-Noregi og er úr stáli, 155 smálestir að stærð og með 460 hestafla Deutsch-dieselvél. Ganghraði skipsins reyndist 10,7 sjómílur á leiðinni upp, en 11,8 sjómílur í reynsluför. Skipið er búið öllum nýjustu og beztu siglingatækjum og frágangur allur mun vera hinn vandaðasti jafnt ofan þilja sem neðan. Bærinn var allur fánum skrýddur í tilefni komu skipsins og var því fagnað með ræðuhöldum og söng. Ræður fluttu Ásgr. Hartmannsson, bæjarstjóri Bauð hann skip og skipshöfn velkomið til landsins og séra Kristján Dúason bað fyrir skipi og skipshöfn, sem verða á því. Karlakór Ólafsfjarðar fagnaði Sæþór með söng. Ásgeir Ásgeirsson, framkvstj. Hraðfrystihúss Olafsfjarðar h.f. þakkaði af skipsfjöl hlýjar og góðar móttökur og lýsti gerð skipsins. Bauð hann öllum viðstöddum að skoða það. Eftir hádegi var skólabörnum barna og unglingaskólans boðið í siglingu um fjörðinn. Skipstjóri á Sæþór er Gísli M. Magnússon, en 1. vélstjóri Kristján Jónsson. Hafa þeir báðir dvalið undanfarið í Noregi og fylgzt með lokasmíði skipsins.

Tíminn 5 janúar 1961.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30