01.11.2016 11:59

B. v. Júní GK 345. TFPD.

Júní GK 345 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir útgerðarfélagið Hauk h/f í Reykjavík. Smíðanúmer 736. 327 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét Ingólfur Arnarson RE 1. Skipið var selt árið 1922, A/S Tjaldi í Vogi á Suðurey í Færeyjum, hét Royndin TG 634. Skipið var selt 9 desember árið 1930, Boston Deep Sea Fishing & Ice Co Ltd í Fleetwood. Skipið var skráð í Grimsby 8 maí 1931 sem Daily Telegraph GY 367. Skipið var selt í september 1933, Soc. Anon des Pécheries Saint Pierre í Boulogne í Frakklandi, hét þar La Vierge aux Roses B 1624. Skipið var selt Fred Parks í Blackpool í Englandi í ársbyrjun 1934. Selt í mars 1934, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h/f í Hafnarfirði, fær nafnið Júní GK 345. Togarinn strandaði við Sauðanes í Önundarfirði, 1 desember árið 1948. 25 mönnum var bjargað um borð í togarann Ingólf Arnarson RE 201, en 2 mönnum var bjargað á land af björgunarsveit frá Suðureyri. Togarinn eyðilagðist á strandstað.

Júní GK 345.                                                              Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu. 


Áhöfnin á Júní GK 345.                                                                Ljósm: Guðbjartur Ásgeirsson.


Ingólfur Arnarson RE 1.                                                                               Ljósmyndari óþekktur.


Royndin TG 634.                                                                                                www.wagaskip.dk


Daily Telegraph GY 367.                                           (C) The Mark Stopper Collection.

Togarinn Júní GK strandar við Sauðanes

Öll áhöfnin af togaranum Júní frá Hafnarfirði, sem strandaði skammt sunnan við Sauðanes, milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar í fyrrakvöld, bjargaðist heil á húfi, og er nú komin til Flateyrar. Tókst björgunarbáti frá Ingólfi Arnansyni að selflytja 23 menn úr Júní, en einn þeirra tók út af flekanum, og bjargaði mótorbáturinn Garðar honum. Voru þá aðeins tveir menn eftir í hinu strandaða skipi, skipstjórinn, Júlíus Sigurðsson, og fyrsti stýrimaður, Guðmundur Þorleifsson. Tókst björgunarsveit frá Suðureyri að bjarga þeim úr landi. Júní strandaði í norðaustan ofsaveðri og hríð, sem enn hélzt yfir Vestfjörðum í gærkvöldi, þá með 10-11 vindstigum. Tókst Ingólfi Arnarsyni að finna skipið með radartækjum sínum í fyrrinótt, og björgunin fór fram í gærmorgun. Þykir hún hin vasklegasta, og lögðu björgunarmenn sig í mikla hættu. Júní strandaði á sjöunda tímanum í fyrrakvöld við Sauðanes milli Önundarfjarðar og  Súgandafjarðar. Heyrðu nokkrir togarar neyðarkall hans og fóru þegar á vettvang. Var kafaldshríð og norðaustanofsarok, er Ingólfur Arnarson, Júlí úr Hafnarfirði og Skúli Magnússon hófu leitina að Júní. Björgun virtist illmöguleg þá, og var kallað á mótorbáta til aðstoðar. Komu Garðar og Hardy á vettvang seint um kvöldið, en þá var ákveðið að reyna ekki björgun fyrr en með birtu. Hafði Slysavarnafélagið þá beðið björgunarsveit frá Suðureyri að fara á  vettvang, og kom hún á strandstaðinn i gærmorgun eftir erfiða ferð. Um níuleytið í gærmorgun virtist Júní um 100 metra frá landi, og er stórgrýtt nokkuð á þessu svæði. Var brim allmikið og sást ekkert nema hvalbakurinn á skipiriu. Mun sennilega hafa komið gat á skipið og sjór gengið inn í vélarrúmið. Áhöfnin hafði búið um sig á hvalbaknum og beið björgunar. Skyggni var enn slæmt í morgun og veður ofsi mikill. Björgunin fór fram með þeim hætti, að settur var á flot bátur frá Ingólfi, og fór hann eins langt í áttina að Júní og unnt var, en lína var höfð á milli bátsins og Ingólfs. Úr þessum björgunarbáti var svo skotið línu um borð í Júní og tókst síðan að selflytja 23 menn úr Júní yfir í björgunarbátinn á  fleka. Einn mann tók þó út af flekanum, en mótorbáturinn Garðar bjargaði honum. Björgunarstarf þetta var mjög hættulegt, og lögðu sjómennirnir af Ingólfi sig í allmikla hættu. Þegar þeir höfðu bjargað 24 mönnum voru tveir menn eftir í skipinu. Reyndi nú björgunarsveitin frá Súgandafirði að bjarga þeim, og tókst það rétt um hádegið í gær, svo að skipshöfnin af hinu strandaða skipi var þá öll heil á húfi. Togarinn Júní er 28 ára gamalt skip, sem var upphaflega smíðað fyrir íslendinga. Héðan var það selt til Færeyja, þaðan til Englands og Þaðan var það keypt aftur hingað til lands, er Bæjarútgerð Hafnarfjarðar eignaðist það. í gærkvöldi barst Árgeir Stefánssyni, framkvæmdastjóra Bæj arútgerðarinnar, skeyti frá skipstjóranum, sent frá Flateyri, þar sem hann segir, að skipshöfninni líði nú vel, en hún er í landi þar í þorpinu. Togararnir Júlí og Ingólfur Arnarson voru, þegar síðast fréttist til, einnig á Flateyri.

Alþýðublaðið 3 desember 1948.

Flettingar í dag: 787
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194562
Samtals gestir: 83786
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:32:45