13.11.2016 10:40

M. s. Eldborg MB 3. TFBM.

Eldborg MB 3 var smíðuð hjá Moss værft A/S í Moss í Noregi árið 1932. Stál. 280 brl. 400 ha. Bolinder vél. Eigandi var Sameignarfélagið Grímur í Borgarnesi frá 6 september 1934. 16 júní árið 1950 er Eldborg h/f í Borgarnesi eigandi skipsins. Á árunum 1952 til 1956 var Eldborg í póstferðum milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness og flutti þá póst, vörur og farþega. Selt til Noregs í desember árið 1956.


Eldborg MB 3 að leggjast við bryggju í Djúpavík.                                 Ljósmundari óþekktur, G.Á ?

             Aflahæsta síldveiðiskipið

Aflahæsta skip síldveiðiflotans á þessu sumri varð Eldborg Mb. 3, skipstjóri Ólafur Magnússon Borgarnesi. Hann varð einnig aflakóngur síldveiðanna í fyrra, aflaði þá 30.300 mál, en í sumar varð aflinn 26.624 mál. Slíkum afla er ekki náð með hangandi hendi, enda er Ólafur afbragðs dugnaðar formaður, og hefir ávalt haft úrvals skipshöfn, enda þekktur meðal allra sjómanna fyrir aflasæld og góða formennsku. En ólafur hugsar um fleira, jafnhliða aflaafköstunum, hann berst af alhug og einbeitni fyrir velferð sjávarútvegsins, og fylgist af lífi og sál með félagsmálum sjómannastéttarinnar, enda er hann 100% sjómaður sjálfur, í orðsins beztu merkingu. Megi velferð og gifta fylgja starfi hans.

Víkingur 10 tbl. 1944.

   Eldborgin laskaði skrúfuna í ísreki við          Borgarnes í gær  

Þegar flóabáturinn Eldborg var að leggja frá bryggju í Borgarnesi í gærdag síðdegís lenti hún í ísreki og laskaði skrúfuna svo, að ekki þótti fært að halda suður, og var henni lagt við akkeri þar efra. í henni er mikil mjólk. Ekki mun skrúfan vera brotin, en vélin gengur svo þungt að ekki er talið hættulaust að sigli henni suður. Þó mun skipstjórinn hafa í hyggju að fara á mjög hægri ferð beint til Reykjavíkur í dag, ef veður hægir. Áætlunarbílar Norðurleiðar tepptust í Hvalfirði og voru með 30 farþega. Sneru þeir til Akraness og átti að senda fólkið með Eldborginni þaðan til Reykjavíkur, en þar sem ekkert varð af för hennar, er fólk þetta teppt á Akranesi. Ekki er vitað, til hvaða ráða verður gripið með ferðir yfir flóann í dag.

Tíminn. 22 janúar 1955.

Flettingar í dag: 126
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 434
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 1074938
Samtals gestir: 77554
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 05:27:13