15.11.2016 11:45

97. Baldur EA 770. TFNH.

Baldur EA 770 var smíðaður hjá East Anglian í Oulton Broad í Lowestoft í Englandi árið 1943 sem tundurduflaslæðari fyrir breska sjóherinn og bar fyrst nafnið MMS 1006. Eik og fura. 366 brl. 500 ha. Superior díesel vél. Skipið var selt árið 1947, Oswald Aamodt í Ósló í Noregi, hét Trippesta. Selt í júní árið 1947, Stjörnum h/f á Dalvík, hét Pólstjarnan EA 770. Breytt í fiskiskip sama ár og stundaði síldveiðar með góðum árangri. Selt árið 1953, Baldri h/f á Dalvík, hét Baldur EA 770. Skipið var selt árið 1957, Jóni Franklín sem breytti skipinu í flutningaskip. Baldur var í ýmsum flutningum, m.a. sementsflutningum frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi til hafna úti á landi. Var einnig í vikurflutningum frá Snæfellsnesi til Reykjavíkur fyrir Jón Loftsson h/f. Var í tunnuflutningum milli hafna innanlands og tunnuflutningum frá Noregi til hafna úti á landi. Selt árið 1963, Kristjáni Eiríkssyni í Reykjavík, hét Hildur RE 380. Selt 24 apríl 1967, Guðmundi Antoni Guðmundssyni í Kópavogi og Svavari Guðmundssyni í Reykjavík. Skipið sökk út af Gerpi 21 mars 1968 þegar það var á leið erlendis með 1.800 tunnur af saltsíld. Áhöfnin, 7 mönnum var bjargað um borð í varðskipið Þór.

Baldur EA 770 í tunnuflutningum.                                                             Ljósmyndari óþekktur.

Síldveiðiskipið Baldur EA 770.                                                                  Ljósmyndari óþekktur. 


Hildur RE 380 að sökkva. Áhöfnin komin í björgunarbátinn.                           (C) Morgunblaðið.


Skipið að hverfa í djúpið.                            (C) Morgunblaðið.

          Vs. Hildur sökk - mannbjörg

Vélskipið Hildur RE 380 sökk í gærmorgun 25.8 sjómílur réttvisandi 287 gráður frá Gerpi. Skipverjar höfðu um nóttina kallað til nálægs varðskips og beðið um að haft yrði auga með sér, þar eð leki væri kominn að skipinu. Var varðskip á staðnum er skipið sökk og hafði þá bjargað áhöfninni, 7 manns. Flutti varðskipið mennina til Seyðisfjarðar og munu þeir hafa gist á Egilsstöðum i nótt. Hildur var smíðuð árið 1943 og léleg orðin. Hildur var á leið utan með 1800 tunnur af saltsíld. Um kl. 01 í fyrrinótt kallaði áhöfnin út og sagði að leki væri kominn að skipinu. Varðskipið Þór heyrði kallið og fór þegar af stað á vettvang. Gaf skipshöfn Hildar þá upp staðarákvörðunina 42 til 45 sjómílur suðaustur  af Dalatanga og um kl. 05 sáu varðskipsmenn ljósin um borð í Hildi. Á leið sinni til Hildar hafði varðskipið miðað Hildi út nokkrum sinnum og um kl. 05.10 var það komið á vettvang. Hildur sigldi með hægri ferð upp í vind og sjó, en 5 til 6 stiga vindur var af norðnorðaustan. Sjólag var NNA og 5 til 6 metra öldulhæð. Þegar Þór kom að skipinu var það 26 sjómílur austsuðaustur af Gerpi og voru vélarnar í gangi. Þremur stundarfjórðungurn síðar bað áhöfn Hildar varðskipið um fylgd til lands og skömmu síðar var dæla frá varðskipinu sett um borð. Var Hildur þá orðin mjög sigin og lá meira fram en eðlilegt gat talizt. Dæla varðskipsins vann ekki með fullum afköstum, þar eð mikil óhreinindi settust í síurnar og um fimmtán mínútum yfir átta var önnur dæla sett um borð. Dælurnar virtust ekki hafa undan lekanum, sem kominn var að skipinu. Klukkan 08.45 komu 3 skipverja af Hildi um borð í Þór, samkvæmt eigin ósk. Fluttu varðskipsmenn þá á báti sínum milli skipanna og 15 mínútum síðar tilkynnti skipstjórinn Magnús Einarsson, að hann yrði að yfirgefa skipið. Um kl. 09:15 var öll skipshöfn Hildar komin í varðskipið. Var hún flutt á bátum varðskipsmanna. Þegar þannig var komið ákvað skipherra varðskipsins, Þröstur Sigtryggsson, að bíða átekta og athuga með björgun Hildar, sykki hún ekki fljótlega. Sú bið reyndist árangurslaus, þvi að kl. 10.27 sökk Hildur og hvarf sjónum þeirra, sem voru um borð í Þór. Staðarákvörðun var þá gerð og reyndst hún réttvísandi 287 gráður í fjarlægð 25.8 frá Gerpi. Þegar Hildur sökk, flaut upp talsvert af lausu braki og tilkynnti varðskipið strandstöðvum það. Er skipið hvarf í djúpið sáu varðskipsmenn gúmbát blásast upp yfir staðnum og innbyrtu þeir hann ásamt gúmbát, er skipbrotsmenn höfðu áður blásið upp. Um 11-leytið hélt varðskipið áleiðis til Seyðisfjarðar, þangað kom það um þrjú- leytið. Skipibrotsmenn héldu með snjóbíl yfir Fjarðarheiði og gistu á Egilsstöðum í nótt. Vélskipið Hildur RE 380  var smíðað í Lowestoft árið 1943 og upprunalega sem korvetta, 366 vergar lestir. Eigandi var Guðmundur A. Guðmundsson og fleiri í Kópavogi. Guðmundur var 1. vélstjóri á skipinu. Fyrir ekki alllöngu strandaði Hildur við Ingólfshöfða. Komst hún á flot sjálfkrafa, en Landhelgisgæzlan leitaði hennar og fann hana inni á Eskifirði. Morgunblaðið reyndi í gær að ná tali af skipstjóranum á Hildi, en hann kvaðst ekkert segja, fyrr en að loknum sjóprófum.

Morgunblaðið. 22 mars 1968.

Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 434
Gestir í gær: 58
Samtals flettingar: 1074942
Samtals gestir: 77554
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 05:51:11