18.11.2016 09:47

918. Gullfaxi NK 6. TFVN.

Gullfaxi NK 6 var smíðaður hjá Mortensen Skibsbyggeri A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1955. Eik. 66 brl. 225 ha. Völund díesel vél. Eigandi var Gullfaxi h/f í Neskaupstað (Þorleifur Jónasson skipstjóri og Ármann Eiríksson) frá 8 ágúst 1955. Skipið var selt 25 október 1960, Sandfelli h/f á Þingeyri, hét Þorgrímur ÍS 175. Ný vél (1960) 330 ha. Völund díesel vél. Selt 8 mars 1969, Jóni Sæmundssyni í Keflavík, hét Þorgrímur KE 81. Skipið var endurbyggt í Keflavík árið 1973. Ný vél (1973) 479 ha. G.M díesel vél, 353 Kw. Selt 10 mars 1975, Auðunni Benediktssyni á Kópaskeri, skipið hét Þingey ÞH 102. Selt 9 maí 1978, Sævari h/f á Grenivík, hét Sigrún ÞH 169. Selt 10 september 1979, Sigurði Valdimarssyni í Ólafsvík, hét Sigurvík SH 117. Selt 10 nóvember 1988, Sigurði Inga Ingólfssyni í Vestmannaeyjum, hét Sigurvík VE 555. Frá 26 júlí 1990 er Eyjavík h/f í Vestmannaeyjum eigandi skipsins, hét þá Vík VE 555. Selt 3 júlí 1991, Kleifum h/f í Vestmannaeyjum, hét Skuld VE 263. Selt 7 júlí 1993, Sigurbáru h/f, Co Óskar Kristinsson í Vestmannaeyjum, hét Sigurbára VE 249. Frá 19 janúar 1996 er Ólgusjór ehf í Vestmannaeyjum eigandi skipsins, hét þá Hrauney VE 41. Talið ónýtt og tekið af skrá 28 apríl 2005 og rifið skömmu síðar.

Gullfaxi NK 6 á leið inn Norðfjörð með síldarfarm. Nótabáturinn í eftirdragi.     (C) Björn Björnsson. 


Varðskipsmenn á Ægi á síldveiðum sumarið 1956. Gullfaxi NK 6 siglir hjá.                      (C) LHG.


Sigurvík SH 117.                                                                    (C) Brimbarinn. Vigfús Markússon.

                      NÝR BÁTUR

                   Gullfaxi NK 6

Síðastliðinn laugardag kom hingað til bæjarins nýsmíðaður fiskibátur. Heitir hann Gallfaxi og eru einkennisstafir hans N.K 6. Gullfaxi er smíðaður hjá Mortensens Skibsbyggeri í Fredrikshavn í Danmörku. Báturinn átti samkvæmt samningum að afhendast um síðustu áramót og kemur þannig 7 mánuðum á eftir áætlun. Þessi dráttur hefur að sjálfsögðu verið eigendunum bagalegur, því þeir hafa bæði misst af vetrarvertíð og síldarvertíð. Gullfaxi er byggður úr eik, 66 smálestir brúttó með 210-225 hestafla Völund-dieselvél, auk ljósamótors. Ganghraði í reynsluferð var 10.2 sjómílur, en á heimleiðinni var ganghraðinn 9 sjómílur. Gullfaxi er búinn öllum þeim siglinga og öryggistækjum, sem nú tíðkast í bátum af þessari stærð, þar á meðal asdictæki. Er það fiskileitartæki og er Gullfaxi fyrsti norðfirzki báturinn sem fær það. Í brúnni er m. a. klefi skipstjóra, í káetu rúm fyrir 4 menn og í lúkar fyrir 8 menn. Þar er einnig olíukynnt eldavél og frá henni liggur miðstöð um mannaíbúðir. Íbúðir skipverjanna eru rúmgóðar og í alla staði hinar vistlegustu. Þær eru klæddar innan með plastik-plötum og er það nýung. Er það áferðarfallegt og auðvelt að halda íbúðunum hreinum. Gullfaxi er hinn myndarlegasti bátur, sterkbyggður að sjá og burðarmikill. Eigendur hans eru þeir Ármann Eiríksson og Þorleifur Jónasson. Blaðið óskar þeim hér með til hamingju með þennan bát. Þó báturinn sé síðbúinn til síldveiða, hefur hann nú hafið þátttöku í þeim með hringnót. Skipstjóri Gullfaxa er Þorleifur Jónasson, einn aflasælasti og heppnasti skipstjóri bæjarins. Þrír aðrir bátar af svipaðri stærð og Gullfaxi eru nú í smíðum í Danmörku fyrir Norðfirðinga og eiga tveir þeirra að afhendast í desember og er talið að þeir muni tilbúnir á tilsettum tíma.

Austurland. 12 ágúst 1955.

Flettingar í dag: 187
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074565
Samtals gestir: 77501
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 15:10:20