21.11.2016 09:34
Óttar Guðmundsson módelsmiður.
Ég fór og heimsótti Óttar Guðmundsson módelsmið með meiru á heimili hans í Grafarvoginum í gær. Tilefnið var að sjá og mynda hina nýju listasmíð, E.s Suðurland sem hann lauk við fyrir stuttu síðan. Það er vel þess virði að fylgjast með því góða og þarfa verki hans að færa okkur sögu liðins tíma á þennan líka snilldarháttinn sem módelsmíðin er. Það fer ekkert á milli mála að þarna er mikill fagmaður á ferð, veit upp á hár hvað hann er að gera og gerir það vel. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heimsæki Óttar, það var í mars s.l. að við mæltum okkur mót á heimili hans. Þá var hann með 7 módel heima, hvert öðru glæsilegra, sem ég myndaði öll í bak og fyrir og þær myndir mun ég birta hér á síðunni á næstu vikum. Óttar er fæddur á Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarsveit 28 febrúar 1947 og ólst þar upp. Lærði vélvirkjun hjá Þorgeiri & Ellert á Akranesi og vann við sína iðn þar. Vann við tankasmíði hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli árið 1966. Stundaði nám við Vélskóla Íslands frá 1969 til 1972 og vann í Hvalstöðinni í Hvalfirði á sumrin. Var vélstjóri á Dettifossi árið 1973 og svo síðar á flutningaskipunum Eldvík og Hvalvík sem Víkur h/f gerði út. Vann sem verktaki við hitaveitulögnina frá Nesjavöllum til Reykjavíkur og víðar. Óttar starfar nú sem viðgerðarmaður hjá heilsuræktinni Hreyfingu hér í Reykjavík, ásamt því að sinna áhugamáli sínu, módelsmíðinni í bílskúrnum. Myndirnar hér að neðan af Suðurlandinu tók ég í gær, þær tala sínu máli um handverkið enda sannkölluð listasmíð þarna á ferð.
Óttar Guðmundsson módelsmiður með nýjasta módel sitt, e.s. Suðurland.
E.s. Suðurland.
E.s. Suðurland.
E.s. Suðurland.
Hekkhúsið á Suðurlandinu. Þarna var inngangur niður í farþegarýmið ásamt því að vera skjól fyrir skipverja.
Miðskipið, björgunarbátarnir, reykháfurinn og opinn stjórnpallurinn.
Framskipið.
E.s. Suðurland. Sannkölluð listasmíð.
Stefni skipsins. Takið eftir lúgunni á síðunni undir stjórnpallinum. Hún var notuð til að ferma og afferma skipið þegar það var í ferju og vöruflutningum milli Kaupmannahafnar og Borgundarhólms. Hentaði vel við gripaflutninga, því að á þessu svæði gætir sjávarfalla lítið. Þessar lúgur voru teknar af eftir að skipið kom hingað til lands og plötur soðnar á í staðinn. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 20 nóvember 2016.
Flak skipsins í Djúpavík. Skipið var dregið þangað á sínum tíma og notað sem verbúð starfsmanna sem unnu í síldarverksmiðjunni. En það voru fleiri sem bjuggu í skipinu, sagt var að rottan hafi komið í Djúpavík með skipinu. (C) Jón Bragi Sigurðsson.
Suðurland sem M Davidsen en það nafn bar skipið áður. Skipið var smíðað hjá Helsingör Jernskibs & Maskinbyggeri í Helsingör í Danmörku árið 1891. 217 brl. 350 ha. 2 þennslu gufuvél. Eimskipafélag Suðurlands kaupir skipið haustið 1919 og var í eigu þess til ársins 1932. Var svo í eigu h/f Skallagríms í Borgarnesi til 1935, þar til að h/f Djúpavík kaupir skipið og notaði það til íbúðar starfsfólki sínu til handa, en vistin þar mun ekki hafa verið neitt sældarlíf. (C) Handels & Söfartsmuseet.dk
Skrifað af Þórhalli S Gjöveraa.
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074576
Samtals gestir: 77502
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 15:33:08