24.11.2016 11:38

428. Víðir ll GK 275. TFXE.

Víðir ll GK 275 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1954 fyrir Guðmund Jónsson útgerðarmann á Rafnkelsstöðum í Garði. Eik. 56 brl. 180 ha. Lister díesel vél. Ný vél (1957) 300 ha. Lister díesel vél. Frá 12 október árið 1960 hét báturinn Freyja GK 110, sami eigandi. Ný vél (1969) 330 ha. Lister díesel vél. Seldur 31 desember 1973, Finnboga Bjarnasyni á Hellissandi, hét Njörður SH 168. Frá 4 janúar 1980 heitir báturinn Njörður GK 168 og gerður út frá Garði í Gullbringusýslu. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 4 desember árið 1980. Víðir ll var mikið afla og happaskip og var lengi aflahæsta síldveiðiskip flotans undir stjórn Eggerts Gíslasonar skipstjóra frá Kothúsum í Garði.


428. Víðir ll GK 275 á leið til Siglufjarðar með fullfermi.                         (C) Snorri Snorrason.


Víðir ll GK 275 nýsmíðaður árið 1956.                                                            Ljósmyndari óþekktur.


Víðir ll við bryggju í Hafnarfirði, nýkominn að norðan eftir síldarvertíðina 1957. Síldarkóngurinn það ár, Eggert Gíslason stendur á bryggjunni til vinstri. Maðurinn til hægri gæti verið Guðmundur Jónsson útgerðarmaður og eigandi bátsins. Skipverjar vinna við að taka hringnótina í land.
                                                                                                  (C) Gunnar R Ólafsson.


428. Víðir ll GK 275. Líkan Gríms Karlssonar.                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


                  Víðir II GK 275

Hjá skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði var hleypt af stokkum nýjum báti 18. júlí síðastl. Bátur þessi, sem er 56 rúml. að stærð, heitir Víðir II. og hefur einkennisstafina GK 275. Eigandi hans er Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður að Rafnkelsstöðum í Garði. Víðir II. er smíðaður úr eik, en yfirbygging hans er úr stáli. Vélin er 180 ha. Lister dieselvél. Í bátnum er vökva þilfars og línuvinda og dýptarmælir með asdic útfærslu. Reynsluför fór báturinn 23. júlí, og reyndist ganghraði hans þá 9 mílur. Teikningu af Víði II. gerði Egill Þorfinnsson, Keflavík. Yfirsmiður var Sigurjón Einarsson skipasmiðameistari í Hafnarfirði. Vélsmiðja Hafnarfjarðar annaðist niðursetningu á vél og alla járnsmíði. Rafvirkjameistararnir Jón Guðmundsson og Þorvaldur Sigurðsson lögðu raflögn, en málun annaðist Sigurjón Vilhjálmsson málarameistari. Sören Valentinusson gerði reiða og segl. Friðrik A. Jónsson útvarpsvirkjameistari setti niður dýptarmæli. Vélsmiðjan Héðinn smíðaði dekk og línuvindu. Á smíði skipsins var byrjað 5. október 1953. Jafnskjótt og báturinn var ferðbúinn fór hann norður til síldveiða. Skipstjóri á Víði II  er Eggert Gíslason í Garði. Þetta er sjöundi báturinn, sem smíðaður er í Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar.

Ægir. 9 tölublað 1954.

Flettingar í dag: 176
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074554
Samtals gestir: 77498
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 14:36:33