27.11.2016 10:42

1738. Hafnarey SF 36. TFSI.

Hafnarey SF 36 var smíðuð hjá Marstal Staalsskibs Værft A/S í Marstal í Danmörku árið 1983. 101 brl. 811 ha. Grenaa díesel vél, 596 Kw. Skipið var innflutt árið 1986, hét áður Santos af Öckerö. Eigandi var Krossey h/f á Höfn í Hornafirði frá 4 júlí 1986. Skipið var endurbyggt og lengt á Spáni árið 1999, mældist þá 138 brl. Skipið var selt til Murmansk í Rússlandi 10 nóvember árið 2006.


Hafnarey SF 36.                                                                                           (C) Snorri Snorrason.


Hafnarey SF 36 eftir breytingarnar á Spáni árið 1999.                                      (C) sverriralla.blog.is

               Hafnarey SF gjörbreytt

Nýverið kom Hafnarey SF 36 til heimahafnar á Höfn í Hornafirði eftir verulegar breytingar sem fóru fram í skipasmíðastöðinni Astilleros Pasajes í San Sebastian á Spáni. Skipið var lengt og mikil endurnýjun fór fram á vindubúnaði og togkraftur var aukinn. Verkfræðistofan Fengur hannaði breytingarnar en umboðsaðili spænsku stöðvarinnar hér á landi er Atlas hf. Nýtt vindukerfi skipsins er frá Vélaverkstæði Sigurðar og ný fiskimóttaka með blóðgunarkari, þvottakörum og færiböndum er frá Klaka hf.
Hafnarey var lengd um 5,5 metra og kemur lengingin einkum fram í helmings aukningu lestarrýmis. Þá var byggt yfir skipið að aftan og þannig fékkst aukið rými á millidekki. Yfirbyggingin gerði líka að verkum að hægt var að stækka stakkageymslu og bæta við einum klefa. Ný fiskimóttaka var sett í skipið, sem og blóðgunarkör og þvottakör. Allt var vindukerfið endurnýjað og samanstendur nú af þremur 14 tonna togspilum með auto-búnaði, tveimur grandaraspilum, tveimur gilsaspilum, pokaspili, útdráttarspili og bakstroffuspilum. Sett var á skipið nýtt perustefni, brú var hækkuð og loks var skipið heitgalvanhúðað og málað með skipamálningu frá Málingu hf.
Kostnaður við breytingarnar á Hafnarey SF nemur um 80 milljónum króna og væntir Jón Hafdal Héðinsson, skipstjóri og annar eigenda, þess að útgerðarform skipsins verði með líkum hætti og áður, þ.e. að sótt verði á humarmiðin, í skrápflúru og skötusel, auk þorsks. "Auk lengingarinnar er veigamesta breytingin sú að fá yfirbyggingina að aftan og pokagálgann," segir Jón Hafdal í samtali við Ægi en eftir breytinguna getur Hafnarey tekið 60-70 tonn af fiski í körum í lest.
Skipið er nánast eins og nýtt. Við fórum að huga að því fyrir tveimur árum að gera breytingar. Við völdum þennan kostinn frekar en kaupa annað skip, enda þarf þá oftast að gera einhverjar breytingar. Með því að fara þá leið sem við fórum þá fæst skip eins og við viljum hafa það," segir Jón Hafdal Vegna veiðireynslu Hafnareyjar fékk skipið ágætan kvóta í skrápflúru, nú þegar kvóti var settur á þá tegund. Jón Hafdal segir öllu meiri óvissu hafa verið skapaða varðandi skötuselsveiðar skipsins því á meðan á breytingunum stóð var gerð breyting á reglugerð þannig að óheimilt verður að veiða á fótreipistrolli nema með skilju og það segir Jón nánast útiloka skötuselsveiðar skipsins. "Við höfum fengið um 120 tonn af skötusel á ári og töluvert af meðafla en hann fæst ekki með þegar skiljan er notuð. Þessi reglugerðarbreyting setur því strik í reikninginn hjá okkur varðandi útgerð skipsins," segir Jón. Meðeigandi Jóns Hafdal í Hafnareynni er Gísli Páll Björnsson, sem jafnframt er yfirvélstjóri.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1999.

           Hafnarey seld til Rússlands

Viðskiptahúsið hefur undirritað sölusamning á Hafnarey SF 36 til Rússlands. Skipið verður gert út frá Murmansk.Hafnarey SF 36 er í eigu Krosseyjar ehf. en það fyrirtæki var fyrr á þessu ári selt til Ingimundar hf. Í Reykjavík og hafði Viðskiptahúsið einnig milligöngu um þau viðskipti.Togarinn Hafnarey SF liggur nú í Reykjavíkurhöfn og er fyrirhugað að hann leggi af stað í dag, fimmtudag, áleiðis til Noregs og þaðan til Rússlands. Togarinn mun stunda togveiðar í Barentshafinu.
Eftirspurn er eftir góðum togbátum til Murmansk og ein ástæða þess að Rússarnir leita hingað er sú að hér eru yfirleitt bátar og skip í góðu ástandi og uppfylla flest þau skilyrði sem farið er fram á af hálfu kaupenda. Við erum að vinna núna í samningum um 2 önnur skip til Rússlands sem vonandi klárast innan skamms tíma en það tekur oft langan tíma og mikla vinnu að ljúka samningum við rússneska kaupendur," segir Þórir Matthíasson, framkvæmdastjóri Viðskiptahússins.

Mbl.is 28 september 2006.


Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30