05.12.2016 23:04
252. Jón Kjartansson SU 111. TFKK.
Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Kaarbös Mekanik Verksted A/S í Harstad í Noregi árið 1963. 278 brl. 600 ha. Wichmann díesel vél. Eigendur voru Jón Kjartansson h/f á Eskifirði og Þorsteinn Gíslason í Reykjavík. 30 júní árið 1971 var nafni skipsins breytt, hét þá Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. 8 júlí árið 1971 var skráður eigandi Sæberg h/f á Eskifirði, skipið hét Sæberg SU 9. Skipið var endurmælt í júní 1972, mældist þá 226 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt árið 1978, mældist þá 275 brl. Ný vél (1980) 1.350 ha. Wichmann díesel vél. Selt 7 júlí 1986, Eskfirðingi h/f á Eskifirði, hét Eskfirðingur SU 9. Skipið sökk út af Héraðsflóa 14 júlí árið 1988. Áhöfnin, 6 manns var bjargað um borð í Hólmaborg SU 11.
Jón Kjartansson SU 111
Ægir. 15 janúar 1964.
Eskfirðingur SU 9 sökk á Héraðsflóa
Það var kominn mikill bakborðshalli á Eskfirðing þegar við komum að honum. Þetta leit alls ekki vel út. Við vorum að draga um 7 sjómílur fyrir norðan bátinn þegar við fréttum af lekanum. Þá var ekki talin hætta á ferðum. Við ákváðum samt að fara strax á staðinn þar sem við vorum með dælu um borð og gætum ef til vill hjálpað eitthvað. Þegar við komum að bátnum var eiginlega ekki annað að gera fyrir skipverjana en að stökkva frá borði, sagði Jóhann Kristjánsson, skipstjóri á Hólmaborg frá Eskifirði, við DV í morgun. Eskfirðingur SU 9 sökk út af Héraðsflóadýpi um klukkan átta í morgun. Sex manns voru um borð og björguðust þeir allir um borð í Hólmaborg frá Eskifirði sem var á veiðum rétt hjá. Eskfirðingur, sem er 275 lesta stálbátur, fór á rækjuveiðar í gærkvöldi. Klukkan hálfátta í morgun fékk Slysavarnafélagið tikynningu um að leki væri kominn að bátnum. Voru send út boð til slysavarnasveitanna á Borgarfirði eystra og Vopnafirði um að koma að Eskfirðingi með dælur. En lekinn var mikill og ljóst að slysavarnasveitirnar næðu ekki á staðinn í tæka tíð. Sökk Eskfirðingur um klukkan átta eða á hálfttíma.
Að sögn heimildarmanns DV gerðist þetta eins og hendi væri veifað. Hólmaborg, áður Eldborg frá Hafnarfirði, var þá komin á staðinn eins og áður sagði og bjargaði áhöfn Eskfirðings um borð. Að sögn skipstjóra Hólmaborgar var líðan mannanna góð eftir atvikum, Ágætis veður var á þessum slóðum þegar þetta gerðist.
DV. 14 júlí 1988.