17.12.2016 11:47

B. v. Walpole RE 239. LCJM / TFZC.

Walpole RE 239 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1914 fyrir William Letten útgerðarmann og Jón Oddsson skipstjóra í Grimsby. 301 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét fyrst Walpole GY 269. Smíðanúmer 604. Skipið var selt árið 1920, Hlutafélaginu Stefni (Sigurjóni og Einari Péturssonum) í Reykjavík, skipið hét Walpole RE 239. Selt Hlutafélaginu Vífli í Hafnarfirði, hét Walpole GK 239 frá árinu 1931. Togarinn strandaði og sökk við Gerpi 16 september 1934. Áhöfnin bjargaðist í skipsbátana og á þeim í land í Vöðlavík.
Það má geta þess að Jón Oddsson skipstjóri var farsæll útgerðarmaður í Grimsby og síðar í Hull. Hann lét smíða fyrir sig marga togara í Englandi sem hétu íslenskum nöfnum. Þeir hétu Kópanes, Rifsnes, Brimnes og Reykjanes, og auk þess átti hann hlut í Walpole og nokkrum togurum öðrum. Jón var bróðir Gísla Oddssonar sem lengi var skipstjóri á Leifi heppna RE 146 og fórst með honum í Halaveðrinu mikla, 7 eða 8 febrúar 1925.


Walpole RE 239.                                                                                         (C) Magnús Ólafsson.


Walpole RE 239.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Áhöfnin á togaranum Walpole GY 269 / RE 239. Óvíst hvort myndin er tekin áður eða eftir að skipið var selt til Íslands                                         Ljósmyndari óþekktur. Úr safni Önnu Kristjánsdóttur.


Um borð í Walpole GK 239.         Ljósmyndari óþekktur.


  Togarinn Walpole rekst á klett og sekkur

                     Skipshöfnin heil á húfi

Aðfaranótt sunnudags rakst togarinn Walpole frá Hafnarfirði á klett á svonefndum Fitjum yst á Gerpi. Aðdjúpt var þarna svo skipið stóð aldrei. Laskaðist skipið svo mikið, að það fylltist brátt af sjó, og sökk. Skipverjar fóru í björgunarbátunum til Eskifjarðar. Skömmu eftir hádegi á sunnudag barst sú fregn hingað frá Eskifirði, að skipshöfnin af togaranum Walpole væri þangað komin í björgunarbátunum. En togarinn hafi strandað á Fitjum, yst á Gerpi, og sokkið síðan. Frá framkvæmdastjóra fjelagsins Vífill, er Walpole átti, Ásgrími Sigfússyni, hefir blaðið fengið eftirfarandi frásögn um slys þetta. Togarinn var nýkominn til Austfjarða, ætlaði að taka bátafisk frá Eskifirði til Englands. En þar eð nokkur bið yrði á því, að fiskurinn væri til fór Walpole á veiðar. Hafði hann verið á veiðum skamt undan Reyðarfirði. En kl. um 1 aðfaranótt sunnudags var Walpole á siglingu norður með landinu. Margir skipverjar voru þá í svefni, og eins skipstjóri.
Allt í einu rakst skipið á klett, með því afli, að gat kom á, og fossaði sjór inn í lúgarinn, sem fylltist svo ört, að hásetar, sem þar voru, urðu að flýja þaðan samstundis. Gátu þeir lítið eitt tekið með sjer upp úr lúgarnum. Skipið seig strax frá skerinu, því að aðdjúpt var þarna , einir 30 metrar í botn. Var reynt að hefta leka skipsins og dæla það. En jafnframt skyldi reynt að sigla því til hafnar eða grunns. En brátt varð það skipverjum ljóst, að við ekkert varð ráðið, og myndi togarinn skammt eiga eftir ofansjávar. Því var leitað til björgunarbátanna , og fóru skipverjar í þá. Liðu um 20 mínútur frá því áreksturinn varð, og þangað til Walpole sökk. Var togarinn þá kominn út af Vöðlavík.
Er gert ráð fyrir, að sjór hafi komist strax í skipið framan við skilrúm það, sem er framan við lúgarinn, sennilegt að skilrúmið hafi laskast við áreksturinn. Sjór kom og strax í framlest skipsins. Þó skipverjar yrðu að flýja lúgarinn í dauðans ofboði, og hafa sennilega ekki allir getað tekið með sér föt sín þaðan, voru þeir allir alklæddir er í björgunarbátana kom, munu hafa getað fengið föt hjá þeim skipverjum, sem höfðust við aftar í skipinu. Dimmviðri var á, en sjógangur ekki mikill. Reru skipbrotsmenn inn að Karlsskála, en þar fengu þeir trillubáta, er drógu þá inn á Eskifjörð. Walpole var byggður í Englandi 1914, var 301 tonn að stærð. Hingað var hann keyptur árið 1920, en fjelagið sem átti hann, keypti hann árið 1923.  Skipstjóri á Walpole var Ársæll Jóhannesson frá Eyrarbakka.

Morgunblaðið 18 september 1934.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30