19.12.2016 00:26
B. v. Eiríkur rauði RE 23. LBND.
Eiríkur
rauði strandar við Kúðaós.
Seint í fyrra kvöld fjekk Geir Thorsteinsson, útgerðarmaður,
loftskeyti frá skipstjóranum á togaranum Eiríki rauða, þar sem skipstjórinn
skýrði frá því, að skipið væri strandað, en vissi ekki glöggt hvar, sennilega á
Mýratanga, vestan við Kúðaós. Varðskipið Óðinn, sem var staddur við
Vestmannaeyjar, náði einnig loftskeytum frá Eiríki rauða og fór strax austur á
strandstaðinn. Óðinn kom á strandstaðinn kl. 3 í fyrrinótt. Hann var í stöðugu
skeytasambandi við togarann. Þegar birti í gærmorgun sáu skipverjar á Óðni menn
í fjörunni, og þeir sáu einnig menn um borð í togaranum. Vegna brims gat Óðinn
ekkert samband haft við togarann, nema gegn um loftskeytin meðan þau voru í
lagi. Þegar leið fram á morgun (gærmorgun) sápu skipsmenn á Óðni menn á
togaranum hópast fram á hvalbakinn og um sama leyti voru dregin upp flögg á
togaranum, sem gáfu til kynna að nú yfirgæfu mennirnir skipið. Nokkru síðar sáu
skipverjar á Óðni marga menn uppi í fjöru, einnig hesta, og mennirnir dreifðu
sjer um fjöruna.
Þetta eru einu fregnirnar er borist höfðu af strandinu í gærkvöldi.
Eins og
sjest á fregnunum, höfðu skipsmenn á Óðni ekki getað náð tali af skipsmönnum á
togaranum og þeir höfðu ekkert samband við menn úr landi. Skipsmenn á Óðni
vissu því ekki hvernig skipverjar úr togaranum björguðust á land og ekki hvort
allir hefðu bjargast, eða hvort nokkurt slys hefði orðið. Nánari fregnir af
þessu öllu geta fyrst komið hingað í dag.
Í skeytinu frá skipstjóranum á Eiríki rauða, segir, að hann haldi að þeir hafi strandað
á Mýratanga, vestan við Kúðaós. En eftir þeim upplýsingum, sem Mbl. fjekk í gær
frá Vík í Mýrdal, er sennilegra að strandið sje austan við Kúðaós. Maður hafði
komið til Víkur í gær, austan úr Álftaveri, og sagði hann frá því, að þeir
Álftveringar hefðu sjeð merki þess í fyrrakvöld, að eitthvað var að hjá skipi við
sandana, en þeir álitu það vera fyrir austan
Kúðaós, á Meðallandsfjörum.
Enda er þetta sennilegra, þar eð í gærkvöldi hafði
enginn sendimaður komið til Víkur til þess að tilkynna sýslumanni strandið.
Hafi strandið orðið fyrir vestan Kúðaós, þá hefði sendimaður átt að vera kominn
til Víkur seinnipartinn í gær, en sje strandið fyrir austan ósinn, þá var ekki
hægt að búast við sendimanni fyrri en seint í gærkvöldi eða fyrripartinn í dag.
Eiríkur rauði var nýtt skip, smíðaður
1925 í Selby í Englandi. Hann var með stærstu togurum hjer, 144.84 fet á lengd
og var 412 smál. brúttó, 174 smál. nettó. Skipið var vátryggt hjá Samtryggingu
íslenskra botnvörpuskipa. Skipstjóri var Guðmundur Sveinsson. Skipið var að
koma frá Englandi, fullfermt af kolum.
Morgunblaðið. 4 mars 1927.