06.01.2017 12:16

2266. Helga Björg HU 7. TFLA / TFNX.

Helga Björg HU 7 var smíðuð hjá Langsten Slip & Baatbyggeri A/S í Tomrefjord í Noregi árið 1976. 490 brl. 1.797 ha. Alpha díesel vél, 1.321 Kw (1986). Smíðanúmer 74. Árið 1986 var ný vél sett í skipið og það lengt, mældist þá 935 brl. Eigandi var Skagstrendingur h/f á Skagaströnd frá 9 nóvember 1995. Skipið var keypt frá Grænlandi og hét þar Betty Belinda. Hét upphaflega Mitaq Trawler og var skráður í Kaupmannahöfn. Hét fyrst Bettý HU 31 hjá Skagstrending, þar til 18 desember 1995 að skipið fær nafnið Helga Björg HU 7. Skipið var selt í byrjun árs 1999, Laka Ltd, félags í eigu Skagstrendings h/f og fleiri aðila í Eistlandi. Skipið hét þá Tahkuna og var gert út á veiðar á Flæmingjagrunni við Nýfundnaland, þar til það var selt árið 2000. Skipið var endurskráð í október 2008 á Íslenska skipaskrá sem rannsóknarskip, Neptune og er í eigu Neptune ehf á Akureyri í dag.

Helga Björg HU 7.                                                                                    (C) Snorri Snorrason. 


Helga Björg HU 7.                                                                                    (C) Snorri Snorrason.


Neptune á Eyjafirði 15 nóvember 2016.                           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


                   Helga Björg HU 7 

Í haust festi Skagstrendingur h/f  kaup á grænlenskum 500 tonna rækjufrystitogara, sem fer á veiðar í næstu viku sem Helga Björg HU 7. Í staðinn tókst félaginu loks að selja gamla Arnar til Samherja hf. á Akureyri, en Arnar þessi hefur verið á söluskrá frá því að nýi Arnar kom til sögunnar. Á meðan ekkert gekk í sölumálunum, var hann m.a. hafður í ýmsum úthafsveiðitilraunum með litlum árangri. Að einhverju leyti kemur Helga Björg til með að sjá rækjuvinnslu Hólaness fyrir hráefni til vinnslu. Auk rússneska frystitogarans og grænlenska rækjufrystitogarans, mun Skagstrendingur eftir sem áður gera út frystitogarann Örvar. Skagstrendingur er með um sex þúsund tonna þorskígildiskvóta og Hólanes er með 450 tonn, sem rækjutogarinn fái að nýta.

Morgunblaðið. 14 janúar 1996.


      Rannsóknarskipið Neptune EA 41

Næg verkefni eru framundan fyrir rannsóknarskip fyrirtækisins Neptune ehf. á Akureyri. Það fyrsta hefur verið í Eystrasalti síðan í haust, breytingar á öðru, togaranum Harðbak, eru að hefjast í Slippnum á Akureyri og framkvæmdastjóri Neptune útilokar ekki að fleiri skip bætist í flota fyrirtækisins. Rannsóknarskipið Neptune EA 41, er komið til heimahafnar eftir fyrstu útiveruna en það hefur síðan í haust unnið að verkefninu Nordstream, fyrir samnefnt fyrirtæki, sem er í meirihlutaeigu rússneska orkurisans Gazprom. Hlé hefur verið gert á því nú vegna þess að Eystrasaltið er ísilagt eins og er en Neptune heldur aftur utan undir vor. Nordstream undirbýr lagningu einhverrar stærstu gasleiðslu sem um getur, frá rússnesku borginni Vyborg, sem er rétt norðan St. Pétursborgar innst í Kirjálabotni, til Greifswald í Þýskalandi.
Langmest af því gasi sem Gazprom selur til landa í vesturhluta Evrópu er flutt um leiðslu í gegnum Úkraínu en ýmis vandkvæði hafa verið á þeim flutningum eins og fram hefur komið í fréttum síðustu mánuði. Skipverjar á Neptune hafa unnið við skoðun sjávarbotnsins; vitað er að þar eru mörg skipsflök og gamlar sprengjur og komast þarf að því hvernig best er að losna við þá aðskotahluti áður en leiðslan verður lögð. Breytingum á Harðbak verður lokið í byrjun maí í vor og fer skipið þá strax frá Akureyri til starfa erlendis. Ágúst Guðmundsson, framkvæmdastjóri Neptune, segist ekki geta greint frá því strax hvar fyrsta verkefnið verður.

Morgunblaðið. 27 febrúar 2009.

Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074734
Samtals gestir: 77525
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:08:49