07.01.2017 10:56
Björn Jörundsson EA 626.
mannbjörg
varð
Um klukkan hálf fjögur í gær sökk vélbáturinn Björn
Jörundsson frá Ólafsvík við Öndverðames. Hafði komið að honum mikill og bráður
leki, svo að tvær skipshafnir höfðu ekki undan að ausa, svo að þær yfirgáfu
bátinn, og sökk hann skyndilega skammri stundu síðar.
Á
sunnudaginn var lögðu
Ólafsvíkurbátarnir Björn Jörundsson og Egill lóðir sínar; suður af
Snæfellsnesi. Voru þeir með 32 bjóð hvor. Er þeir ætluðu að fara að draga
línuna, voru lóðirnar horfnar, ásamt öllu tilheyrandi, og mun annaðhvort straumur hafa dregið þær niður
í álinn eða togarar dregið þær burt í gærmorgun. Fóru bátarnir að leita að
lóðunum, en fundu ekkert.
Um klukkan hálf þrjú í gær voru báðir bátarnir á heimleið, og var Björn
Jörundsson þá um eina mílu út af Öndverðarnesi, á hægri ferð. Urðu skipverjar
þess þá skyndilega varir, að sjór fossaði inn í bátinn að framan. Var planki
sprunginn frá stefni undir sjó. Fyrir snarræði vélamanns tókst að keyra bátinn
upp undir nesið í lygnari sjó, en þar stöðvaðist vélin, vegna þess, hve mikill
sjór var kominn í bátinn.
Egill var dálítið á eftir Birni Jörundssyni, og tókst skipverjum strax að ná
sambandi við hann gegnum talstöð bátsins. Kom Egill á vettvang eftir tíu mínútur,
og reyndu nú báðar skipshafnirnar að ausa Björn Jörundsson, en höfðu ekki
undan. Vélbáturinn Víkingur frá Ólafsvík kom einnig á vettvang.
Það var þegar ljóst, að ekki var annars kostur en yfirgefa Björn Jörundsson, og
fóru skipverjar allir yfir í Egil. Ætluðu þeir að freista þess að draga Björn
Jörundsson til hafnar, ef hann kynni að fljóta svo lengi. En eftir örskamma
stund sökk hann skyndlega. Þá var klukkan um hálf-fjögur. Var það sérstakt lán,
að hér skyldi ekki verða stórslys, því að báturinn hefði farizt með allri
áhöfn, ef Egill hefði ekki komið svo skjótt á vettvang sem raun varð, þar sem
landtakan framundan var ekki annað en klettar.
Björn Jörundsson var 27 smálestir, smíðaður á Akureyri 1939. Eigandi bátsins
var Viglundur Jónsson í Ólafsvík, en skipstjóri á bátnum í fjarveru eigandans,
sem ætlaði til Noregs á vegum Fiskifélags íslands á fimmtudaginn kemur, var
Guðlaugur Guðmundsson í Ólafsvík. Skipstjóri á Agli, einnig 27 lesta bát, er
Guðmundur Jensson í Ólafsvík. Hér hefir orðið stórkostlegt tjón, bæði fyrir
eigendur og Ólafsvík í heild, og munu margir menn missa atvinnu af þessum
sökum, en framleiðsla dragast saman, þótt allir þakki hamingjunni, að ekki fór
ver.
Tíminn. 20 febrúar 1951.