09.01.2017 08:02

585. Hrönn SH 149. TFSV.

Hrönn SH 149 var smíðuð hjá Skipasmíðastöð KEA h/f á Akureyri árið 1956. Eik. 41 brl. 240 ha. G.M. díesel vél. Eigandi var Dvergur h/f í Ólafsvík frá 17 febrúar sama ár. Ný vél (1973) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Báturinn var seldur árið 1978, Haföldunni h/f á Eskifirði, sama nafn og númer. Hrönn fórst við Vattarnes í mynni Reyðarfjarðar 30 apríl árið 1979 með allri áhöfn, 6 mönnum.


Hrönn SH 149.                                                                              (C) Gunnlaugur P Kristinsson.


                      Magnús komdu strax

           Það var það síðasta sem heyrðist frá Hrönn 

"Magnús komdu strax" var neyðarkallið, sem skipverjar á Magnúsi NK 72 heyrðu frá vélbátnum Hrönn frá Eskifirði, sem fórst á Reyðarfirði, skammt innan við Vattarnes, síðastliðið mánudagskvöld, en síðan rofnaði sambandið. Fimm skipverja á Hrönn er saknað, en lík þess sjötta, Stefáns V. Guðmundssonar, fannst um hádegisbil á þriðjudag.
Það var klukkan 22,55 á mánudagskvöld, sem neyðarkallið frá Hrönn SH 149 heyrðist og hafði Guðmundur Stefánsson skipstjóri á Magnúsi þegar samband við Nesradíó og kallaði út aðstoð. Klukkan 23.15 var Magnús kominn á staðinn, þar sem talið er að Hrönn hafi farist, en þar fundust aðeins 3 netabelgir bundnir saman, 2 bjarghringir og knippi af netaflotum. Skipstjórinn á Magnúsi hafði séð til Hrannar í ratsjánni skömmu áður en neyðarkallið var sent út. Er hann leit aftur í ratsjána sá hann ekki til skipsins og telur að 2 til 4 mínútur hafi liðið á mill. Ábúendur á Vattarnesi sáu er Hrönn sigldi fyrir Vattarnesið, en er Nesradíó tilkynnti þeim um skip í nauð klukkan 23.04 sáu þeir ekki til skipsins. Hvasst var og stóð vindurinn út fjörðinn, en bjart yfir og ekki sjórok. Leitarmenn sem komnir voru á staðinn um miðnætti þurftu að leita við erfiðar aðstæður. Leit stendur enn yfir bæði af sjó og landi og hefur mikill fjöldi tekið þátt í leitinni. Stefán V. Guðmundsson, stýrimaður, var fæddur 9. 6. 1927. Hann var til heimilis að Bakkastíg 9a á Eskifirði. Stefán lætur eftir sig aldraða móður.
ÞEIRRA ER SAKNAÐ:
 Jóhannes Steinsson, skipstjóri, fæddur 16. 9. 1935, Túngötu 6, Eskifirði. Kvæntur og á 2 börn. Eiríkur Sævar Bjarnason, véstjóri, fæddur 28. 2. 1942, Bakkastíg 5, Eskifirði. Kvæntur og á 2 börn. Gunnar Hafdal Ingvarsson, fæddur 18. 3.1929. Er frá Dölum í Hjaltastaðaþinghá, en hefur unnið á Eskifirði undanfarin ár. Ókvæntur. Kjartan Grétar Ólafsson, fæddur 5.12.1947, Túngötu 5, Eskifirði, ókvæntur, en býr hjá foreldrum. Sveinn Guðni Eiríksson, fæddur 6. 8. 1942, Fossgötu 3, Eskifirði, Ókvæntur, býr í foreldrahúsum.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.


  Hrönn hvarf af ratsjánni á 2-4 mínútum 

  Rætt við Guðmund Stefánsson skipstjóra á Magnúsi NK 72 

Orðin komu mjög slitrótt, það var mikið brak í tækinu og setningarnar voru höggnar í sundur, en við vorum þrír í brúnni og allir sammála um að skipstjórinn á Hrönn hefði sagt; Magnús komdu strax, sagði Guðmundur Stefánsson skipstjóri á Magnúsi NK 72 m.a. í samtali við Morgunblaðið í gær. Magnús NK heyrði neyðarkall frá Eskifjarðarbátnum Hrönn SH 149 klukkan 22.55 á mánudagskvöld. Var þá aðeins um 20 mínútna sigling á milli bátanna en er Magnús kom á staðinn, þar sem talið er að Hrönn hafi verið er neyðarkallið var sent út, fundust aðeins lóðabelgir, bjarghringir og netaflot.
Við vorum að koma af miðunum við Hrollaugseyjar, en Hrönn frá Breiðdalsvík, sagði Guðmundur Stefánsson. Við höfðum samflot þar til komið var í mynni Reyðarfjarðar, en þá skildu leiðir. Það var mjög hvasst, en við fórum grunnt og það var ekki mikill sjór. Þegar við á Magnúsi vorum komnir um 4 mílur norður fyrir Vattarnestangann kíkti ég niður í ratsjána og sá hvar Hrönn var. Mér fannst henni miða eðlilega inn fjörðinn. Skömmu síðar heyrði ég kallað á bylgju 6 á örbylgjutækinu, en þá bylgju nota bátarnir mikið. Eftir að við höfðum heyrt kallað "Magnús komdu strax", slitnaði sambandið. Ég þekkti rödd Jóhannesar skipstjóra og vissi ekki um annað skip þarna nærri okkur, þannig að þetta gat ekki verið annað en Hrönn.
Við snerum um leið við og ég leit aftur í ratsjána. Þá hafa verið liðnar 2-4 mínútur frá því að ég kíkti í hana í fyrra skiptið. Í þetta skiptið sá ég ekkert, þar sem báturinn átti að vera, um 3 mílur innan við Vattarnestangann. Ég ákvað þá strax að kalla út í gegnum Nesradíó. Við fórum eins nálægt tanganum og við þorðum, en vindur var sterkur út Reyðarfjörð. Ég þóttist vita nákvæmlega hvar Hrönn átti að vera, en við höfðum ekki farið nema innan við mílu þegar við komum að fyrsta rekinu úr bátnum, bjarghringjum og lóðabelgjum og síðan fundum við netaflot. Ég er viss um að ef gúmbátur hefði verið ofansjávar þá hefðum við fundið hann, en við keyrðum beint á rekstefnuna út fjörðinn. Ég og Jóhannes skipstjóri á Hrönn höfðum rabbað saman alla leiðina frá Kambanesi. Hann hafði sagt áður en leiðir skildu að það yrði baks hjá sér inn fjörðinn. Ég sagði honum að ég myndi hafa samband við hann þegar hann kæmi inn á fjörðinn til að sjá hvernig honum gengi á móti. Það var það síðasta, sem við töluðum saman. Síðan heyrðum við neyðarkallið. Viðbrögð voru undur fljót hjá bátum á Eskifirði og Reyðarfirði og við skipulögðum þegar leit. Varðskipið Týr, bátar og skip af fjörðunum komu síðar á vettvang. Svæðið var spannað frá Brökum, skerjum úti af Vattarnestanganum, á reklínu suður af Skrúðnum, sagði Guðmundur Stefánsson skipstjóri á Magnúsi NK, en þess má geta að hann er frá Karlsskála, sem er norðanvert við Reyðarfjörðinn.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.

            Eskfirðingar harmi slegnir

Á Ellefta tímanum mánudagskvöldið 30. apríl sendi vélbáturinn Hrönn SH 149 frá Eskifirði frá sér neyðarkall og hjálparbeiðni og var þá staddur um 2 sjómílur innan við Vattarnes, sem er yzt í Reyðarfirði að sunnanverðu. Veður var mjög vont, norðanstormur og sex stiga frost. Það var vélskipið Magnús frá Neskaupstað, sem heyrði neyðarkallið, en Magnús og Hrönn höfðu verið samskipa norður með Austfjörðum, en leiðir skildu er Hrönnin hélt inn Reyðarfjörðinn. Skipverjar á Magnúsi héldu þegar á staðinn, sem Hrönn var á, en það var um 15-20 mínútna sigling. Jafnframt var tilkynnt um atburði til Loftskeytastöðvarinnar í Neskaupstað. Er að var komið sáu þeir einungis lausa hluti á floti, netabelgi og ýmislegt netadót. Björgunarsveitir SVFÍ frá Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði héldu þegar út í Vattarnes. Þær voru komnar þangað um miðnætti og hófu þegar leit, en Vattarnesbændur hófu leit um leið og þeim barst tilkynningin um slysið.
Þá héldu öll skip Eskfirðinga, sem heima voru, þegar til leitar ásamt skipum Reyðfirðinga, Gunnari og Snæfugli, varðskipinu Tý, Arnarborg frá Dalvík, Ólafi Magnússyni EA, Gullver frá Seyðisfirði og fleiri skipum auk Magnúsar NK. Munu níu skip hafa leitað um nóttina og allan 1. maí og skipin verið 14 talsins þegar þau voru flest. Þá hóf flugvél landhelgisgæzlunnar, TF SYN, leit strax með birtingu þá um morguninn. Ýmislegt brak rak yzt á Vattarnestangann og inn í krikann norðan við nesið. Leitað hefur verið stanzlaust síðan, bæði úr landi og á sjó og hafa björgunarsveitir Slysavarnafélagsins á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík einnig tekið þátt í leitinni. Á Hrönn voru sex menn og var skipið að koma frá Breiðdalsvík, en þar hafði afli verið lagður upp að undanförnu. Sjöundi skipverjinn, sem var úr Reykjavík, fór í land á Breiðdalsvík þar eð hann var með bíl þar og ætlaði að aka suður til Reykjavíkur. Hann heitir Ólafur Halldórsson.
Lík eins skipverjans, Stefáns V. Guðmundssonar, fannst um hádegisbilið á þriðjudag um hálfa mílu suðvestan við Skrúð. Það var skipstjórinn á Votabergi SU 14, Friðrik Rósmundsson, og hans menn sem fundu líkið. Yfirstjórn björgunaraðgerða, hafði Skúli Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar á Eskifirði með höndum og var stjórnstöðin í íþróttahúsinu á Eskifirði. Hér eru menn harmi slegnir vegna þess hörmulega atburðar, að skip skuli farast svona inni á firðinum. Verður sjálfsagt erfitt að geta sér til um hvað komið hafi fyrir. Eigendur Hrannar voru þeir Jóhannes Steinsson skipstjóri, Eiríkur Bjarnason vélstjóri og Stefán Guðmundsson stýrimaður. Hrönn var keypt til Eskifjarðar frá Ólafsvík fyrir réttu ári. Baturinn var úr eik, smíðaður á Akureyri 1956, og var 41 tonn að stærð.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.

     Held ég hafi einfaldlega ekki verið feigur 

   segir Ólafur Halldórsson, sem fór í land á Breiðdalsvík er                Hrönn lagði af stað áleiðis til heimahafnar  

Mér varð eðlilega mjög hverft við að heyra þessar hörmulegu fréttir, en þegar ég hugsa um það, þá held ég að ég hafi einfaldlega ekki verið feigur, sagði Ólafur Halldórsson, tvítugur Garðbæingur, sem fór af vélbátnum Hrönn frá Eskifirði á Breiðdalsvík, áður en báturinn lagði af stað áleiðis til heimahafnar síðdegis á mánudag. ólafur hafði verið á Hrönn í um þrjá mánuði, fyrst við beitningu er báturinn var á línu, en síðan á netunum. Ég var lengi vel að hugsa um að vera á bátnum í hálfan mánuð í viðbót, var svona á báðum áttum, segir Ólafur. Svo skyndilega ákvað ég að fara af á Breiðdalsvík og aka suður, en ég hafði keypt mér bíl á Breiðdalsvík. Ég þurfti reyndar nauðsynlega að fara til Eskifjarðar og fá ökuskírteini hjá sýslumanninum, en hætti við það og keyrði skírteinislaus suður. Ég stoppaði á Kirkjubæjarklaustri á suðurleiðinni vegna ófærðar á Söndunum og hringdi þá í kærustuna. Hún sagði mér hvað hafði gerzt. Síðan fékk ég nákvæmar fréttir um slysið og ég þarf víst ekki að segja hversu mjög mér brá. Vertíðin hafði gengið ágætlega og á netunum vorum við á útilegu. Það var sama hvar við vorum, við vorum alltaf minnsti bátur og lentum oft í vondum veðrum, en allt gekk mjög vel. Þeir voru að tala um að fara strax á netaveiðar við Langanes á Hrönninni og ég var að hugsa um að fara með þeim, en hætti við á síðustu stundu. Ég veit ekki hvað ég geri á næstunni, en ætli ég fari ekki á sjóinn fljótlega aftur sagði Ólafur Halldórsson að lokum.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.

Flettingar í dag: 309
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074687
Samtals gestir: 77518
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 21:46:59