11.01.2017 10:50

B. v. Njörður RE 36. LCJD / TFEC.

Njörður RE 36 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920. 341 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 424. Eigandi var Fiskiveiðahlutafélagið Njörður í Reykjavík frá 28 júní árið 1920. Skipið var selt 29 september árið 1932, Samvinnufélaginu Haukanesi í Hafnarfirði, hét Haukanes GK 347. 23 júní 1939 var Útvegsbanki Íslands skráður eigandi. Skipið var selt 5 október 1940, Vífli h/f í Hafnarfirði. Skipið var selt í brotajárn til Belgíu og tekið af skrá 22 febrúar árið 1952. Ekki tókst betur til en svo, að þegar þýskur dráttarbátur var að draga togarann utan að mikill leki kom að honum þegar skipin voru rétt utan við Grindavík að kvöldi 3 mars 1952. Dráttarbáturinn var einnig með togarann Baldur BA 290 frá Bíldudal í togi sem seldur var líka í brotajárn. Talið var að Haukanesið hafi sokkið þá um kvöldið, en svo reyndist ekki vera og tókst þjóðverjunum að dæla sjónum úr Haukanesinu og dró dráttarbáturinn togarana inn til Vestmannaeyja. Mun ferðin hafa gengið að óskum eftir það og togararnir endað í pottinum að lokum.


Njörður RE 36.                                                           Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


Njörður RE 36.                                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


      Tveir togarar seldir sem brotajárn

Tveir hinna gömlu togara, sem legið hafa fyrir festum um langt skeið og grotnað niður, hafa verið keyptir með það fyrir augum að selja þá sem brotajárn til útlanda. Þetta eru togarinn Baldur, sem legið hefur inni á Kleppssundi og Haukanes, sem var suður í Hafnarfirði. Guðmundur Kolka o. fl.
hafa keypt skipin og eru þau nú komin hingað inn á Reykjavíkurhöfn, en þangað voru þau dregin
fyrir skemmstu. Það mun vera í ráði að setja í togarana brotajárn eins og þeir geta borið, en síðan mun dráttarbátur koma hingað og sækja þá en Baldur og Haukanes munu fara til uppbræðslu í Belgíu.

Morgunblaðið. 13 febrúar 1952.


         Haukanes sem höggva átti upp í Belgíu
                       sökk út af Grindavík  

Á sunnudaginn kom leki að togaranum Haukanesi, sem þýzkur dráttarbátur var á leið með til Belgíu, þar sem höggva átti togarann upp. Í gærkvöldi sökk togarinn út af Grindavík. Tveim mönnum, sem á honum voru, var bjargað.
Dráttarbáturinn lagði af stað héðan frá Reykjavík á föstudaginn var. Togarinn Haukanes var bundinn aftan í dráttarbátinn sjálfan, en í skut togarans var bundinn togarinn Baldur, sem einnig átti að höggva upp. Á sunnudaginn milli klukkan 4 og 5 urðu þýzku eftirlitsmennirnir tveir, er voru um borð í Haukanesinu, þess varir, að skipið var farið að leka. Þá var dráttarbáturinn kominn skammt suðvestur  fyrir Vestmannaeyjar. Þar mun þá hafa verið slæmt sjóveður. Skipstjórinn á dráttarbátnum snéri þá við. Mun hann hafa gert sér vonir um að ná til Reykjavikur, þar eð lekinn að skipinu virtist ekki vera mikill. í gærkvöldi um klukkan níu, var Haukanesið að því komið að sökkva. Ekki talið forsvaranlegt að mennirnir tveir sem í voru, væru þar öllu lengur. Þá var dráttarbáturinn aðeins um 5 sjómílur út af Grindavík. Björgunarskipið Sæbjörg og mb. Ársæll Sigurðsson fóru út frá Grindavík, mönnunum tveim á Haukanesi til bjargar. Sú björgun tókst giftusamlega. Mun Sæbjörg hafa lagt svo að hinu sökkvandi skipi, að mennirnir tveir stukku yfir í björgunarskipið.
Nokkru fyrir klukkan 11 í gærkvöldi, er blaðið síðast frétti af skipinu, maraði Haukanes í vatnsskorpunni. Ekki höfðu þá borizt fregnir um hvernig togaranum Baldri hafði reitt af, en talið var víst að höggvið mundi verða á vír þann sem úr stefni hans lá yfir í Haukanesið. Tveir eftirlitsmenn voru um borð í Baldri. Þar sem Haukanes maraði í kafi í gærkvöldi, var mjög lítill vindur. 

Morgunblaðið. 4 mars 1952.

        Haukanes var enn á floti í gærkvöldi

                   Óvíst hvort björgun tekst

Togarinn Haukanes, sem talið var að sökkva myndi þá og þegar í fyrrakvöld, vegna leka, var enn á floti í gærkvöldi. Þá lagði dráttarbáturinn frá landi með togarann í eftirdragi, en í Grindavík var þá verið að undirbúa hjálparleiðangur út í hið sökkvandi skip. Við það varð að hætta.
Í fyrrakvöld er Þjóðverjarnir tveir yfirgáfu skipið eftir fyrirskipun frá skipstjóranum á dráttarbátnum, var mikill sjór kominn í lúkarinn. Var hætta talin á, að hið vatnsþétta skilrúm milli lestar og lúkarsins myndi springa undan vatnsþunganum. Í gærmorgun er Grindvíkingar sáu til skipanna, voru þau skammt undan landi og Haukanesið til að sjá álíka sigið að framan og væri það með fullfermi síldar, það er að segja, að sjór rann yfir þilfarið. í gærdag var hér í Reykjavík skipulagður nokkur viðbúnaður til björgunar skipinu. Send var á vegum Kristjáns Gíslasonar kraftmikil dæla, sem talið er víst að dælt hefði öllum sjónum úr lúkarnum á skömmum tíma. Átti að senda bát frá Grindavík með dæluna.
Þá var dráttarbáturinn aðeins um 2 sjómílur frá landi með Haukanesið og Baldur. En í þann mund og báturinn, sem með dæluna ætlaði, var að leggja af stað, sást úr landi að dráttarbáturinn var lagður af stað með togarann austur með landinu. Var þá ákveðið að hætta við björgunaráformin, enda tilgangslaust að elta dráttarbátinn uppi.
Skömmu fyrir myrkur hvarf dráttarbáturinn mönnum í Grindavík sjónum. Gizkað er á að dráttarbátsskipstjórinn muni ætla sér að fara til Vestrnannaeyja. Þrátt fyrir tilraunir til að hafa talstöðvasamband við skipstjórann, en þær hafa ekki tekizt, er mönnum með öllu ókunnugt um, hvað hinn þýzki skipstjóri dráttarbátsins hyggst gera ,en veðurspá er ekki hagstæð. Haukanes, sem er nokkurs konar "Flying Enterprise" án Carlsens, hefur öll sjóhæfnisvottorð í lagi. Hið sama er að segja um togarann Baldur, hann fékk sjóhæfnisvottorð til þessarar hinztu farar yfir hafið.

Morgunblaðið. 5 mars 1952.

        Dráttarbáturinn kom með togarann í nótt

Um miðnætti í nótt er leið, var von á þýzka dráttarbátnum með togarana Haukanes og Baldur til hafnar í Vestmannaeyjum. Þýzki dráttarbáturinn hefur með eigin dælum dælt sjónum úr lúkarnum. Hér mun eiga að fara fram athugun á leka þeim, er að skipinu kom, hvort um bilun sé að ræða, eða hvort sjórinn hafi komizt í skipið gegnum ankerisfestargatið, "klussið", eins og sjómenn kalla það.

Morgunblaðið. 6 mars 1952.

Flettingar í dag: 1291
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 2965
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 1198031
Samtals gestir: 83842
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:19:06