12.01.2017 11:16
601. Dröfn RE 135. TFKH.
Nýtt og vandað
skip til Keflavíkur
Ingiber
Ólafsson GK 35
Þann 8. júlí í sumar kom til Keflavíkur nýtt og glæsilegt
fiskiskip, smíðað í skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði og mun
það vera 36. skipið, sem hans ágæta og þarfa fyrirtæki sendir frá sér. Þetta
nýja skip, sem ber nafnið Ingiber Ólafsson GK 35, er 83 smálestir að stærð, með
500 hestafla Caterpillar dieselvél og gengur 11 mílur. Báturinn er einnig með
Caterpillar ljósavél og búinn öllum beztu og fullkomnustu öryggis og
fiskileitartækjum, sem völ er á, s.s. radar, dýptarmælum, ljós-miðunarstöð,
talstöð, fisksjá, færanlegum stjórntækjum vélar, vökvastýri og fleiri tækjum
til þæginda og öryggis. Eigendur bátsins eru þeir bræðurnir Jón og Óskar
Ingiberssynir og heitir báturinn eftir föður þeirra, sem um langt skeið var hér
í fremstu röð sjósóknara og mikill afla og happamaður. Skipstjóri á þessum nýja
farkosti, Óskar, hefir erft dugnaðinn og sjómannshæfileikann frá föður sínum,
enda þekktur aflakóngur í Keflavík. M.b. Ingiber Ólafsson er traustbyggt og
vandað skip, enda er skipasmíðastöð Marsclíusar löngu landskunn fyrir vandaða
vinnu. Báturinn fór strax norður á síldveiðar og þó hann kæmi þangað í seinna
lagi, veiddi hann tæp 9 þúsund mál og tunnur og spáir sú byrjun góðu um framtíð
skips og útgerðar.
Faxi. 8 tbl. Október 1961.
Sjöstjarnan
VE 92 ferst
5 björguðust
en eins er saknað
Fimm skipverjar björguðust, en eins er saknað, eftir að
Sjöstjarnan VE 92 fórst skammt austur af Heimaey um kl. 10 í gærmorgun.
Skipverjarnir fimm hröktust í 3 klukkustundir í gúmmíbjörgunarbátnum í
aftakaveðri áður en þeim var bjargað um borð í hafnsögubátinn Lóðsinn VE. Hann
fann þá fyrir vestan Eyjar um kl. 13 í gær eftir að merkjasendingar höfðu
borist um gervihnetti frá björgunarbátnum, en það var Cargoluxflugvél í 18
þúsund feta hæð eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli sem heyrði fyrst
neyðarmerkin og lét Flugstjórn í Reykjavík vita. Einnig komu boð frá
öryggisstöðvum í Frakklandi og Noregi.
Við vorum þrír niðri í lúkarnum frammí þegar báturinn fékk á sig brotsjó sem
lagði hann skyndilega á hliðina," sagði Þráinn Sigurðsson stýrimaður á
Sjöstjörnunni í samtali við Morgunblaðið. "Við fórum úr höfn rétt fyrir klukkan
7 í morgun, en ég hafði mig ekki í koju, það var eitthvað sem kom í veg fyrir
það. Júgóslavneskur skipverji, Sambo Bach, var einnig á fótum, en matsveinninn,
sem er saknað, var í koju. Ég hef lent í því áður að vera á bát sem fór á
hliðina undan brotsjó, en pabbi náði að keyra hann upp. Haraldur skipstjóri
reyndi það sama um leið og báturinn lagðist, en þegar ég heyrði að hann var að
keyra vélina upp, reið annar brotsjór yfir og báturinn lagðist dauður. Þá
hrópaði ég, drífum okkur upp, drífum okkur upp. Við óðum að stiganum, sjórinn
var farinn að fossa niður, en ég sá matsveininn ekki fara úr kojunni. Við Sambo
náðum að krækja saman höndum og leiðast, en áður en við ruddumst upp á móti
fossandi sjónum náðum við að draga að okkur loft. Það var einhver ótrúlegur
kraftur sem kom í okkur og það var hreinlega eins og við værum dregnir upp. Við
vorum svo lánsamir að lúkarsdyrnar voru opnar, því líklega hefði orðið erfitt
að opna dyrnar á móti þrýstingnum. Við náðum að krafla okkur í gegn um sjóinn,
líklega þriggja metra dýpi, og þegar við komum úr kafinu náðum við taki á
lunningunni sem maraði þá í kafi. Þá sá ég að Haraldur Traustason var kominn út
úr stýrishúsinu og var byrjaður að losa gúmmíbjörgunarbátinn. Við vorum ekki
byrjaðir að draga þegar slysið varð," sagði Þráinn, "en að undanförnu
höfum við verið átta á bátnum. Einn var í fríi en var á leið til Eyja með
Herjólfi þegar verið var að bjarga okkur og annar, sem hefur verið með Haraldi
skipstjóra í þrjú ár, hætti í gærkvöldi og réð sig á togara. Þegar við Sambo
vorum komnir úr kafinu náðum við að fikra okkur eftir lunningunni og aftur á
þar sem Haraldur skipstjóri var ásamt Haraldi syni sínum og Sverri
Guðmundssyni. Haraldur skipstjóri náði að losa björgunarbátinn og opna hann handvirkt,
en þar sem við stóðum fimm utan á stýrishúsinu var hvalbakurinn kominn í kaf,
en við sáum aldrei til matsveinsins og það var hrikalegt að geta ekkert gert,
báturinn að sökkva, brjálað veður og í miklu hasti urðum við að skera uppblásna
björgunarbátinn lausan, því afturmastrið var að lenda ofan á honum. Skömmu
seinna skaut hinum björgunarbátnum upp, en við náðum honum aldrei til okkar.
Þegar frammastrið var alveg komið í sjó sagði Haraldur skipstjóri okkur að
drífa okkur um borð í gúmmíbjörgunarbátinn og hann fór síðastur okkar aftur á
frá borði. Skömmu eftir að við vorum komnir í björgunarbátinn gangsettum við
neyðarsendinn, það tók okkur dálitla stund því við kunnum ekki á hann, en það
er stórkostlegt að hafa þessi tæki og að stöðvar víða um heim skuli vera á
vaktinni. Við urðum þó að setja rekakkeri út áður til þess að stilla bátinn.
Okkur var nokkuð kalt í bátnum og þurftum mikið að ausa en eftir þriggja tíma
hrakninga bjargaði Lóðsinn okkur."
Maðurinn sem fórst hét Sigurvin Brynjólfsson og var matsveinn á bátnum.
Morgunblaðið. 21 mars 1990.