13.01.2017 10:37

13. Happasæll KE 94. TFMZ.

Happasæll KE 94 var smíðaður í Brandenburg Havel í Brandenburg í A-Þýskalandi árið 1961. 101 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Hét fyrst Árni Þorkelsson KE 46 og var í eigu Eyjólfs Árnasonar, Helga G Eyjólfssonar og Ketils Eyjólfssonar í Keflavík frá 8 mars árið 1961. Skipið var selt 28 febrúar 1964, Agnari Áskelssyni, Katli Eyjólfssyni og Önnu Árnadóttur í Keflavík, hét Andvari KE 93. Selt 30 ágúst 1969, Blátindi h/f í Vestmannaeyjum, skipið hét Blátindur VE 30. Selt 29 nóvember 1972, Borgarey h/f í Þorlákshöfn, hét Snætindur ÁR 88. Skipið var endurmælt árið 1970, mældist þá 88 brl. Ný vél (1981) 500 ha. Grenaa díesel vél. Skipið var lengt árið 1995, mældist þá 102 brl. Selt árið 2003, Hrafntinnu ehf í Þorlákshöfn, hét Gulltoppur ÁR 321. Selt árið 2006, Hvönn ehf í Þorlákshöfn, hét Litlaberg ÁR 155. Selt árið 2009, Pikkfast ehf í Keflavík, hét Búddi KE 9. Selt sama ár, Happa h/f í Reykjanesbæ, heitir Happasæll KE 94. Selt árið 2015, Loðnuvinnslunni h/f á Fáskrúðsfirði, sama nafn og númer og eftir því sem ég best veit, gert út frá Keflavík í dag.


Happasæll KE 94.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 okt 2013.


Blátindur VE 30 í innsiglingunni til Vestmannaeyja.                               (C) Sigurgeir Jónasson.


Fyrirkomulagsteikning af skipagerð HRB-46C. Eitt þeirra 15 skipa sem smíðuð voru í Brandenburg í A-Þýskalandi og afhent á árunum 1959-61.                                                               (C) H.R.B.


      V.b. Árni Þorkelsson hætt kominn

Um kl. hálf sex síðdegis, miðvikudaginn 18. des. 1963, hélt v.b. Árni Þorkelsson KE 46 úr Keflavíkurhöfn, til síldveiða með hringnót. Siglt var í NV af V frá Garðskaga, u.þ.b. tuttugu sjómílur til hafs. Vegna veðurs var látið reka um kvöldið og nóttina. En um kl. sex að morgni fimmtudagsins 19. des., var kastað. Fengust 1500 til 2000 tunnur. Þegar nokkrum sinnum hafði verið háfað úr nótinni, sprakk gúmslanga í kraftblökkinni. Varð af því hálftíma töf vegna lagfæringa. Þar sem búið var að herpa nótina saman, var ekki hægt að hleypa síldinni niður úr nótinni. Festu skipverjar nótina síðan út á stjórnborða og tóku að háfa inn stjórnborðsmegin.
Er inn voru komnar um 400 til 450 tunnur, tók báturinn að hallast mjög. Meðan á viðgerð stóð, drapst mikið af síldinni í nótinni, og lagðist hún nú í nótina af fullum þunga. Dró hún því bátinn með sér. Gaf nú skipstjóri, Sævald Pálsson, fyrirmæli um að skera á síðubönd nótarinnar. Var það gert. Sjálfur reyndi skipstjóri, að skera nótina frá kraftblökkinni. Var einn skipverja honum til aðstoðar. Lagðist skipverjinn fram á blökkina, en féll í sjóinn, vegna hins mikla halla á bátnum. Náðist hann strax. Var hallinn orðinn svo mikill á bátnum, að sjór flaut í lestina. Lúkarnum var þá lokað, svo sjór rynni þar ekki inn. Einnig var öllu lokað aftur. Skipstjóri gerði nú tilraun til að rétta bátinn, með því að bakka honum upp, sem kallað er. Um leið kallaði hann á aðstoð annarra skipa sem ekki voru mjög langt undan. Ekki báru tilraunir skipstjóra árangur. Halli bátsins var þá orðinn 60-70 gráður. Skömmu síðar fór áhöfnin í gúmbát. Dreif nú að báta, sem heyrðu kallið frá Árna Þorkelssyni. Fyrstur kom Mummi II. Fór áhöfn Árna Þorkelssonar yfir í hann. Um svipað leyti bar að Hafstein Jóhannsson, froskmann á Eldingunni.
Var kl. Þá um niu að morgni og enn aldimmt. Með Hafsteini var unglingspiltur um borð í Eldingunni. Lónuðu þeir fyrst umhverfis hinn sökkvandi bát og héldu síðan að Mumma II. Spurði Hafsteinn hvort hann ætti að bjarga bátnum. Að nokkrum tíma liðnum kom jáyrði við því. Hélt Hafsteinn síðan að Árna Þorkelssyni, og var halli bátsins þá orðinn enn meiri, en er Eldinguna bar fyrst að. Var lunningin í kafi og sjór kominn í lúkar. Lestarkarmurinn á kafi og lestin full af sjó. Hafsteinn klæddist nú froskmannabúningi sínum og stakk sér til sunds. Nærstaddir bátar lýstu upp svæðið umhverfis bátinn og vél Árna Þorkelssonar var í gangi. Hóf Hafsteinn að skera nótina frá bátnum með stórri sveðju. Byrjaði hann á að skera nótina frá að innanverðu við kraftblökkina. Varð þó frá að hverfa, þar eð kraftblökkin lagðist í sjó í kvikum, en um leið gat Hafsteinn flækst í nótinni. Skar Hafsteinn síðan nótina í sundur að utanverðu við blökkina. Stðast synti hann fram með bátnum og skar í sundur nótarteininn frá pokabómunni. Um leið losnaði nótin frá bátnum og hann réttist við.
Því næst fór Hafsteinn um borð í Árna Þorkelsson og lokaði hurðinni að hvalbaknum frammi á bátnum. Skömmu síðar renndi Mummi II upp að Árna Þorkelssyni, og Sævald Pálsson, skipstjóri, stökk um borð. Lest bátsins var þá full af síld og sjó. Nokkur sjór var undir gólfi í vélarhúsi. Komst sjórinn í rafmagnstöflu og rafmótor er hallinn varð mestur á bátnum. Aðalvélin var þó alltaf í gangi. Sjórinn hafði runnið úr lest um leiðslur inn í vélarrúm. Sjór komst einnig í káetu og stýrishús. Mummi II, var alveg við hliðina á Árna Þorkelssyni. Var nú línu kastað úr Mumma yfir í Árna og náði Hafsteinn henni. Dró hann síðan stýrimann og vélstjóra í gúmbátnum yfir í Árna Þorkelsson. Tógi var nú komið á milli bátanna og togaði Mummi í það. Við það réttist Árni Þorkelsson. Síðan sleppti Mummi tóginu. Gerðist þetta á ellefta tímanum árdegis. Siðan sigldu þeir skipstjóri, stýrimaður og vélstjóri Árna til Keflavíkur. Þangað var komið um kl. eitt eftir hádegi. Aðrir af áhöfninni fóru úr Mumma yfir í Maríu Júlíu, sem flutti þá til Sandgerðis. Það réði trúlega mestu við björgun Árna Þorkelssonar, að veður var skikkanlegt, að visu SV-kaldi og nokkur sjór. Hins vegar mátti lítið út af bera, svo menn og skip týndust ekki. Enginn annar en Hafsteinn gat bjargað bátnum við þær aðstæður sem þarna voru. Þarna voru þó margir bátar og auk þess varðskip, sem engan kafara hafði innanborðs.
Ef veður hefði versnað meðan á björgun stóð hefði báturinn trúlega sokkið. Síðar kom í Ijós, að vatnsþétt skilrúm á milli lestar og aftur og framskips, björguðu bátnum. Þar sem nokkur síld var í lestinni, hefðu tréskilrúm brostið um leið og sjór fór að renna niður í lestina og síldin komst á hreyfingu við velting bátsins. Síðar krafðist Hafsteinn Jóhannsson, 3,5 milljóna króna í björgunarlaun. En upphæðin var u.þ.b. helmingur af matsverði skips og afla. Hafsteinn byggði kröfu sína á, að hann hefði lagt sig í stórhættu við björgunina, er aðrir gátu ekkert gert. Undirréttur tók undir þessa kröfu, taldi að hér væri um algjöra björgun að ræða. Hafsteinn hefði lagt sig í lífshættu úti á rúmsjó í náttmyrkri, en sýnt mikið snarræði og dugnað. Enda gat báturinn sokkið þá og þegar meðan á björgun stóð. Bátur og afli var mtinn á sjö milljónir króna. Undirréttur dæmdi Hafsteini 800 þúsund krónur í björgunarlaun, en Hæstiréttur lækkaði þau í 500 þúsund auk vaxta. Árni Þorkelsson var stálbátur, 101 lest, smíðaður í Austur-Þýskalandi 1961. Eigandi Helgi Eyjólfsson o.fl. í Keflavik.

Faxi. 1 desember 1987.

Flettingar í dag: 1291
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 2965
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 1198031
Samtals gestir: 83842
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 08:19:06