14.01.2017 10:18
2 m. sk. Grána. LBCG.
Seglskipið
Grána
Seglskipið Grána. Líkan af skipinu í Duushúsi í Keflavík. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Upphaflega munu hinir eyfirsku bændur hafa ætlað að nota byrðing skipsins til húsagerðar, en með stofnun Gránufélagsins 1869, varð skipið eign þess og gert haffært að nýju. Helstu hvatamenn að stofnun félagsins voru séra Arnljótur Ólafsson á Bægisá, Einar Ásmundsson í Nesi og Tryggvi Gunnarsson í Laufási. Mun sá síðastnefndi hafa staðið að viðgerð skipsins í félagi við fleiri norðlenska bátasmiði. Grána kom svo aftur til Akureyrar þann 13. júní, ári síðar eða 1871, fullhlaðinn vörum frá Kaupmannahöfn. Næstu árin var skipið svo í förum milli verslunarstaða Gránufélagsins Norðan og Austanlands og útlanda. Fór Grána venjulegast tvær til þrjár ferðir milli landa yfir sumartímann, en var erlendis yfir vetrarmánuðina. Þau lönd sem vitað er um að skipið sigldi til voru: Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Skotland, England og Holland. Þá gerði Petersen tilraun til síldveiða með Gránu á Eyjafirði sumarið 1884. Afdrif Gránu urðu þau að skipið strandaði á leið til Liverpool með saltfiskfarm þann 17. október 1896. Rak skipið stjórnlaust að landi í ofsaveðri, skammt frá bóndabæ á eynni Lewis, þar sem Mangursta heitir á Suðureyjum. Húsfreyjan var ein heima á bænum er strandið bar að, en hún aðstoðaði við björgun skipverja með því að festa línu sem þeir létu reka í land frá skipinu. Þannig urðu sögulok fiskiskútunnar frá Dunkerque, skipsins sem varð með svo einkennilegum hætti nátengt verslunarsögu okkar síðari hluta nítjándu aldar og um leið sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Grána hafði þótt óvenju happasæl og fljót í ferðum að þeirra tíðar hætti. Hefur þar eflaust ráðið mestu um úrvals skipstjórn og gifta þeirra feðga, fyrst J. P. Petersen og síðar sonar hans, Lauritz Petersen. Sá síðarnefndi var í þjónustu Gránufélagsins í nær aldarfjórðung og síðast á seglskipinu Rósu, sem félagið átti um tíma. Rósa var einnig upphaflega frönsk fiskiskúta, smíðuð í Dunkerque árið 1863, 148 brúttó- rúmlestir að stærð. Tryggvi Gunnarsson keypti hana á strandstað í Fáskrúðsfirði 1878. Lauritz Petersen skipstjóri á báðum þessum skipum var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar árið 1928 fyrir störf sín í þágu íslendinga.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 október 1982.
Eftir Guðmund Sæmundsson.
2 m. sk. Grána. Líkan í Duushúsi í Keflavík. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Grána
strandar
Hér fer á eftir úrdráttur úr bréfi sem Lauritz Petersen
skrifaði Chr. Havsteen, kaupstjóra hjá Gránufélaginu um strand Gránu og birtist
í blaðinu Austra á Seyðisfirði 9. demember 1896:
Suðureyjum, 23. október 1896. Þér munið
hafa fengið að vita það hjá stórkaupm. F. Holme, að nú er gamla Grána strönduð,
sem er hið mesta sorgarefni, því mér þótti undur vænt um skipið, en þakka þó
Guði fyrir, að hann frelsaði mig og alla skipshöfnina úr þessum mikla
lífsháska, er ég skal nú leyfa mér að skýra yður nokkuð nákvæmar frá. Snemma á
laugardagsmorguninn þann 17. október sneri vindurinn sér og kom á norðan, er
varð bráðlega að fullkomnu hvassviðri með ákaflega háum brotsjóum af
norðvestri. Klukkan hálf átta brotnaði bugspjótið efst, og urðum við að höggva
það frá okkur, svo að skipið brotnaði eigi að framan. Klukkan sex um kvöldið
fengum við hinn voðalega brotsjó yfir okkur, er limlesti alveg veslings Gránu
og sópaði öllu á stjórnborða yfir borð, eftir að hafa brotið það og bramlað,
brotið borðstokkinn á tveim stöðum og brotið stýrishúsið. Þá brotnaði líka
alveg borðstokkurinn á bakborða, tók út báða bátana og matarílátin öll þeim
megin, og fjórar tunnur af saltfiski, sem ég átti sjálfur. Þá fyllti káetuna og
hásetarúmið alveg af sjó. Stórseglsbómuna braut í sundur, en segl rifnaði til
agna og sömuleiðis stagfokkan og fleiri segl, er við reyndum að setja upp,
táðust í sundur í ofviðrinu svo gamla skinnið hallaðist nú svo mikið, að
ljósberafjölin öðru megin var niður í sjónum. Og nú verð ég að játa það, að þá
ætlaði ég engum okkar líf, er vorum um borð, og bað þá mína síðustu bæn (er ég
hélt að mundi verða) til hins algóða himnaföðursins fyrir mér og vesalings
konunni minni og börnunum mínu smáu. En þá rak skipið á land, úr öllum þessum
ósköpum, og við héldum allir lífi. Þegar hinn voðalegi brotsjór reið yfir
skipið, fékk ég mikið högg á lífið, svo ég gat varla staðið og er enn lasinn,
en mest þjáir mig svefnleysi og sorg yfir að hafa misst mitt kæra skip, mína
kæru "Gömlu Gránu" sem ég hafði siglt með í sautján ár, og má aldrei hugsa
svo til, að mér vökni eigi um augu. Við erum hér á lélegri bóndabæ en almennt
gjörist á Íslandi, sem allur lekur, streymir yfir okkur, en fólkið vill allt
fyrir okkur gjöra, sem það getur, og er ógn gott við okkur, en er hrætt um að
ég ætli ekki að frískast, sem ég vona þó að verði með guðs náð, svo að konan
mín og hin ungu börn mín verði eigi forstöðulaus, og fyrir þá von þakka ég
góðum guði. Ég veit það að Grána var ekki eins heppin í siglingum í ár og
vanalega, en ég get hvorki kennt mér um það eða strand hennar, ég hefi góða
samvisku yfir því, að hafa gjört skyldu mína sem skipstjóri á gömlu "Kæru
Gránu". Ég vil nú leyfa mér að biðja yður herra kaupstjóri, að skrifa mér
um það aftur, hvort ég get haft von um að fá atvinnu hjá Gránufélaginu
eftirleiðis, þó ég viti að ég hafi verið svona óheppinn í ár. Yðar skuldbundinn
vin, Lauritz Petersen.
Bréf þetta er birt hér vegna þess að það lýsir áþreifanlega þeim bágu kjörum og
erfiðleikum skipstjórnarmanna seglskipatímabilsins. Það reyndi á þolinmæði og
þrautseigju þessara manna í bar- áttunni við hafið og hættur þess. En það voru
þessir brautryðjendur sem lögðu þó grundvöllinn að því sem síðar varð í
verslunar og siglingamálum okkar Íslendinga. Sem fyrr greinir, starfaði Lauritz
Petersen áfram hjá Gránufélaginu lengi eftir þetta við góðan orðstír og danska
ríkið heiðraði fátæka bændafólkið á eynni Lewis með að senda því forkunnarfagra
klukku, áletraða í björgunarlaun.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 október 1982.
Eftir Guðmund Sæmundsson.