19.01.2017 10:09
M. sk. Njáll EA 33.
Mótorskonnortan Njáll var smíðaður í Danmörku ? óvíst hvenær, gæti hafa verið milli 1870-80. Eik og fura. 24,22 brl. Vél óþekkt. Í skútuöldinni segir "að Njáll hafi verið danskt skip, hvort það hafi verið keypt þaðan eða smíðað þar, kemur ekki fram. Var hann með skonnortusiglingu, sterkur mjög og vel smíðaður. Fyrstu eigendur Njáls voru nokkrir bændur á Svalbarðsströnd. Leið þó ekki á löngu, uns hann komst í eigu Gránufélagsins. Meðan hann var í eigu þess, var Albert Finnbogason skipstjóri og gekk skipið til hákarlaveiða. Síðan tóku við ýmsir skipstjórar og voru allir stutt. Njáll þessi var röskar 20 rúmlestir að stærð. Hann strandaði og ónýttist árið 1922". Þessi fullyrðing um að skipið hafi eyðilagst í strandi árið 1922, stenst ekki, því í hagskýrslum er síðasta skráða úthald Njáls 15 júlí til 15 september árið 1925. Þar kemur einnig fram að skipið hafi verið 24,22 brl. að stærð og í áhöfn hafi verið 12 manns og stundað handfæraveiðar. Í skútuöldinni kemur einnig fram "að hinn 6 október árið 1918 geisaði norðvestan rok á Norðurlandi og olli geysilegum skemmdum, einkum á Siglufirði. Þar sópuðust burt bryggjur og skip strönduðu. Meðal þeirra voru tvær íslenskar skútur, Gunnvör og Njáll." Ef eitthvað er að marka þessar hagskýrslur, þá virðist Njáll ekki hafa eyðilagst í þessu strandi, en hvort það var árið 1918 eða 1922 er óvíst. Í bókaflokknum Íslensk skip, 5 bindi, eftir Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð kemur fram að Njáll hafi verið smíðaður í Noregi um 1870, og skipið hafi verið 79,89 brl að stærð. Í almanaki handa íslenskum fiskimönnum frá árinu 1917 er Njáll sagður 19,87 brl. Eftir að Gránufélagið leið undir lok árið 1912, komst Njáll í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana h/f. Ekki er mér kunnugt um afdrif þessa skips eða hvað um það varð.

Hákarlaskipið Njáll EA 33. (C) Hallrgímur Einarsson.
Skrifað af Þórhalli S Gjöveraa.
Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30