27.01.2017 11:21
2881. Venus NS 150. TFVT.
Uppsjávarskipinu Venusi NS 150 var vel fagnað á Vopnafirði þann 27. maí síðastliðinn en með komu skipsins hefst mikil endurnýjun fiskiskipaflota HB Granda sem mun fá 5 ný fiskiskip á tveimur árum. Skipið var smíðað hjá skipasmíðastöðinni Celiktrans Denitz í Tyrklandi og mun systurskipið, Víkingur, koma til landsins í lok árs. Í kjölfarið fylgja síðan þrír togarar en HB Grandi samdi einnig við Celiktrans um smíði þeirra. Venus NS hélt strax til kolmunnaveiða suður af Færeyjum eftir móttökuhátíðina á Vopnafirði. Kostnaður við smíði skipsins var um 3,5 milljarðar króna. Venus NS er búið til veiða með flottroll og nót. Skipið er 80 metra langt og 17 metra breitt. Það er tæplega 3800 brúttó- tonn að stærð, lestir þess rúma tæplega 3000 tonna afla samanlagt en miðað er við að 2300- 2400 tonna afla þegar öflugt sjókælikerfi skipsins er nýtt til fulls.
Venus NS 150 við bryggju í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 október 2016.
Aðalvél skipsins er 4500 Kw. og er af gerðinni Wartsila sem Vélar og skip selja
hér á landi. Sömuleiðis kemur skrúfubúnaður og niðurfærslugír frá Wartsila.
Ljósavélar eru frá Scania en umboðsaðili hér á landi er Klettur hf. Vindukerfið
og fiskidælur koma frá Rapp Hydema og kranar og blakkir frá Triplex en búnað
þessara framleiðenda selur Vélasalan hér á landi. Af öðrum tækjabúnaði má nefna
að frá Simrad kemur asdic, radar, höfuðlínumælir, gyro og sjálfstýring.
Sjónvarpsdiskur er af gerðinni Intellian en allan þennan búnað selur Friðrik A.
Jónsson hér á landi. Þá er í skipinu SeapiX fjölgeisla þrívíddarsónar og SAILOR
GMDSS fjarskiptabúnaður frá Sónar ehf., radar, GPS, AIS-kerfi og fleira frá
Furuno og plotter frá MaxSea. Þennan búnað selur Brimrún hér á landi.
Veiðarfæri skipsins eru frá Hampiðjunni og trollnemar koma frá Marport.
Venus NS 150 við olíukantinn í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 3 júlí 2015.
Ekki aðeins er Venus NS vandað skip hvað varðar stjórnun, veiðar og meðferð
afla heldur er ekki síður mikil áhersla lögð á hönnun og útfærslur til að gera
aðbúnað áhafnar eins og best verður á kosið. Gert er ráð fyrir 12 manna áhöfn á
nótaveiðum og eru allir áhafnarmeðlimir í einstaklingsklefum með eigin
baðherbergi og sturtu. Borðsalur skipsins er einnig rúmgóður og bjartur enda
gluggar vel yfir sjólínu. Líkamsræktarherbergi í skipinu er um 15 fermetrar að
stærð og vel búið. Gufubað er einnig um borð. Í brú skipsins eru aðalstjórnpúlt
skipstjóra og stjórnpúlt fyrir vindukerfi skipsins, auk seturýmis. Vélstjórar
hafa líka rúmgott stjórnrými við vélarsal skipsins og þar, líkt og almennt í
skipinu, er vítt til veggja og vinnuaðstaða til mikillar fyrirmyndar.
Venus NS 150. Glæsilegt líkan Óttars Guðmundssonar. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 mars 2016.
Eins og áður segir var fyrsta reynsluveiðiferð Venusar á kolmunnamiðin suður af
Færeyjum en þegar þeirri vertíð sleppir er gert ráð fyrir að skipið fari á
makrílveiðar hér við land. Skipstjóri á Venusi NS og aðrir yfirmenn voru áður á
uppsjávarskipinu Ingunni AK í eigu sömu útgerðar. Það skip, sem og Faxa RE
hefur HB Grandi selt til Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Skipstjóri á
Venusi NS er Guðlaugur Jónsson og 1. stýrimaður er Róbert Axelsson.
Yfirvélstjórar eru Sigurbjörn Björnsson og Jón Heiðar Hannesson.
Ægir. 1 apríl 2015.
Vinnuaðstaðan
mesta byltingin
- segir
Guðjón Jónsson, skipstjóri
"Venus er stórt og mikið skip sem útaf fyrir sig er mikil
breyting fyrir okkur en mesta byltingin er fólgin í vinnuaðstöðu og aðbúnaði
áhafnarinnar," segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi NS. Skipið reyndist
hið besta á heimsiglingunni frá Tyrklandi og fengu skipverjarnir m.a. að
kynnast því í stífum 25 metra mótvindi við Portúgal og tilheyrandi ölduhæð.
Guðlaugur segir að í reynslutúrum í Tyrklandi hafi skipið náð mestum gagnhraða
um 18 hnútum en alla jafna gengur það 14 hnúta á siglingu. Hann segir hönnun
skipsins gera að verkum að það sé létt í siglingu fulllestað. "Mesta breytingin
frá því sem við erum vanir felst í því að á flottrollsveiðum er aflanum dælt úr
pokanum við skutinn í stað þess að hann sé tekinn fram með síðunni á skipinu til
að dæla úr. Kælingin er líka tvö- föld á við það sem við vorum með á Ingunni og
það skiptir auðvitað líka mjög miklu máli. Og loks er mikilsvert að vera með
alla vinnuaðstöðuna á einu dekki og að menn eru komnir upp úr sjónum og í gott
skjól við sína vinnu," segir Guðjón en hann hefur verið skipstjóri á Ingunni
allt frá því skipið kom til HB Granda. "Við byrjum á kolmunnanum og vonandi
náum við að fá reynslu á skipið og sjá allt virka eins og það á að gera. Því
næst tekur makríllinn við," segir hann.
Ægir. 1 apríl 2015.
Stórt skref
í átt til betri gæða
- segir
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda
"Við hjá HB Granda höfum lagt mikla áherslu á gæðamál og
Venus er stórt skref til betri gæða. Öflugra kælikerfi, betri tankar, meiri
ganghraði og dæling afla úr poka frá skut í stað þess að dæla frá síðu skipsins
eru allt atriði sem stuðla að betri gæðum," sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson,
forstjóri HB Granda í ræðu við formlega móttöku Venusar NS á Vopnafirði. Fjöldi
gesta kom til Vopnafjarðar af þessu tilefni og m.a. Sigurður Ingi Jóhannsson,
sjávarútvegsráðherra, sem ávarpaði gesti. Birna Loftsdóttir gaf skipinu
formlega nafn við þetta tækifæri, sr. Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur
Vopnfirðinga blessaði skipið og loks söng Karlakór Vopnafjarðar.
Vilhjálmur vakti athygli á þeirri þróun sem orðið hefði í uppsjávarflota
Norðmanna á síðustu árum þar sem öflugri skip hafi leyst þau eldri af hólmi;
skip með meiri ganghraða og betri búnaði til aflameðferðar. Samhliða hafi
fækkun orðið í áhöfnum skipanna. Þessa braut hafi íslenskar útgerðir verið að
feta sig að undanförnu en í stað 13 manna áhafnar á Ingunni AK verði 7-8 á
togveiðum á Venusi. Venus NS og Víkingur munu leysa af hólmi þrjú skip
fyrirtækisins, Ingunni, Faxa og Lundey og Vilhjálmur sagði vissulega eftirsjá í
10-12 góðum sjómönnum sem hverfi úr starfsmannahópi fyrirtækisins við þessar
breytingar. Vilhjálmur segir hvað stærstu breytinguna fyrir þrautvana
áhafnarmeðlimi á Venusi felast í vinnuaðstöðunni en ólíku verði saman að jafna
við þá aðstöðu sem þekkst hafi þegar skipin eru fulllestuð og liggja neðarlega
í sjó.
Slíku verði ekki til að dreifa á hinu stóra og öfluga skipi, Venusi. Vilhjálmur vakti athygli á að Vopnfirðingar fögnuðu síðast nýsmíði árið 1983
þegar togbáturinn Eyvindur Vopni kom í fyrsta sinn til heimahafnar og 10 árum
áður kom skuttogarinn Brettingur nýr til Vopnafjarðar. Bæði eru þessi skip enn
í notkun. Skipsnafnið Venus er gróið í íslenskri útgerðarsögu og í sögu HB
Granda en afi Vilhjálms og nafni, Vilhjálmur Árnason, skipstjóri, stofnaði árið
1936 til útgerðar á togaranum Venusi GK. Netabátur í eigu sama félags bar síðan
þetta nafn og síðan var frystitogari með Venusarnafninu í eigu Hvals hf. og
síðar HB Granda hf. "Farsæld hefur fylgt og mun fylgja nafninu," sagði
Vilhjálmur.
Ægir. 1 apríl 2015.