30.01.2017 14:59

1029. Brettingur NS 50. TFTK.

Brettingur NS 50 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1967 fyrir Tanga h/f á Vopnafirði. 317 brl. 800 ha. Lister díesel vél. Skipið var selt 19 júlí 1972, Sveini Víði Friðgeirssyni, Lúkasi Kárasyni og Halldóri Guðnasyni í Reykjavík, hét Esjar RE 400. Selt 5 júní 1973, Ingimundi Ingimundarsyni og Pétri Axel Jónssyni í Reykjavík, skipið hét Svanur RE 45. 4 september 1974 er Ingimundur Ingimundarson einn skráður eigandi. Árið 1979 var skipið lengt og yfirbyggt, mældist þá 330 brl. Einnig var sett í það ný vél, 1.330 ha. Wartsila díesel vél. Árið 2002 fær skipið skráningarnúmerið RE 40. Skipið var selt til Danmerkur 23 apríl árið 2003.


Brettingur NS 50 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                                                       (C) J.A. Hugson.


Svanur RE 45 við bryggju í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                                           (C) J.A. Hugson.


Svanur RE 45. Skipið hefur verið lengt og yfirbyggt.                                  (C) Markús Karl Valsson.

      Nýtt og glæsilegt skip til Vopnafjarðar

       Sennilega fyrsta fiskiskip með sjónvarp

Hingað kom í dag nýtt og glæsilegt stálskip, og ber það nafnið Brettingur NS-50. Eigandi skipsins er Tangi hf. á Vopnafirði. Skipið er smíðað í Noregi hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik, og er það 317 lestir að stærð. Var samið um smíði skipsins í byrjun desember 1965, og það afhent eigendunum hinn 15. febrúar 1967. Í kvöld héldu þorpsbúar hér móttökuhátíð fyrir skipið og skipsmenn. Sem fyrr segir er Brettingur 317 lestir brúttó. Það er 39 metrar að lengd 7.6 metrar á breidd, og mesta dýpt í því er tæpir 4 metrar. Í skipinu er 800 ha aðalvél, tvær ljósavélar sem eru 62 ha. hvor. Hliðarskrúfur eru tvær, og hvor um sig 70-75 ha. Skipið er búið mjög fullkomnum siglingar og fiskileitartækjum. Þá er það sýnilegt að mjög mikil áherzla hefur verið lögð á að gera íbúðir skipsmanna sem þægilegastar og vistlegastar, og auk þess er frágangur að innan  mjög smekklegur og vandaður. Má geta þess að í borðsal skipsins er sjónvarp, og er það sennilega það fyrsta í íslenzku fiskiskipi. Skipið kom beint hingað frá Bergen, og var það 2 1/2 sólarhring á leiðinni. Hreppti það á tíma versta veður, en reyndist þá mjög vel. Mesti ganghraði skipsins var um 12 sjómílur. Skipið fer héðan til Akureyrar, þar sem það tekur loðnunót, og fer að því búnu á loðnuveiðar. Einnig verður þorskanót um borð. Skipstjóri á Bretting verður Tryggvi Gunnarsson frá Brettingsstöðum, 1. vélstjóri Sigurður Gunnarsson, bróðir skipstjórans, og 1. stýrimaður er Sævar Sigurpálsson. Framkvæmdastjóri Tanga hf. er Sigurjón Þorbergsson.

Morgunblaðið. 22 febrúar 1967.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30