07.02.2017 16:14
Halaveðrið mikla í febrúar 1925.
Fiskimiðin kringum landið okkar eru auðug og aflasæl. Og það
eru þau, sem hafa á síðari tímum verið undirstaða þeirra afreka, sem unnin hafa
verið hér á landi á sviði verklegra framkvæmda og aukinnar menningar. Og við
þau eru tengdar vonir okkar um vaxandi menningarafrek á komandi tímum. En þó að
hafið sé örlátt, hefur sú barátta verið fórnfrek, sem íslenzkir sjómenn hafa
háð á þessum miðum. Margur hefur látið líf sitt í þeirra erfiðu baráttu. Og
stundum hefur Ægir verið svo stórtækur í þeim efnum, að þjóðin hefur öll orðið
harmi lostin. Við þekkjum óteljandi dæmi þess. Og að þessu sinni verður eins
þeirra minnst.
B.v. Leifur heppni RE 146. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Það var laugardaginn 7. febrúar árið 1925. Fjöldi íslenzkra togara var að
veiðum út af Vestfjörðum, flestir á Halamiðum. Þessi fengsælu fiskimið voru þá
nýlega orðin eftirsótt af íslenzkum fiskimönnum. En þeir voru ókunnir ennþá
hinu óvenjulega veðurfari, sem algengt er á þessum slóðum. Þeir þekktu ekki
ennþá nema að örlitlu leyti hinar straumþungu rastir, sem þarna myndast svo
víða og gera sjólagið svo óskaplegt, þegar ofviðrin geisa. Hin snöggu
veðrabrigði komu þeim enn á óvart. En á Halamiðum er það algengt, að veðurhæðin
breytist skyndilega á 20 til 30 mínútum, úr 1-2 vindstigum í 10 vindstig eða
meira, með frosthörku og byl. Og þannig var það að þessu sinni. Stormur hafði
verið um daginn og höfðu flest af skipunum hætt að toga upp úr hádeginu. Í
eftirmiðdaginn hvessti skyndilega og var á svipstundu komið ofsaveður, með
frosthörku og hríð. Stóð veður þetta nær óslitið allan sunnudaginn og fram á mánudag.
Eftir það fóru togararnir að tínast smám saman í höfn, allir meira og minna
brotnir og illa útleiknir eftir veðrið.
Hellyerstogarinn Fieldmarshal Robertson H 104. Smíðaður í Selby 1919. Hét fyrst Jeremiah Lewis FY 4235 og var í eigu breska sjóhersins til 1920, þar til hann komst í eigu Hellyersbræðra í Hull.
Voru flestir þeirra tilsýndar eins og fljótandi hafísjakar, þaktir samfelldri klakabrynju frá sigluhún niður á þilfar. Öllu, sem lauslegt var ofan þilja, hafði skolað fyrir borð, á mörgum hafði bátaþilfarið brotnað og stjórnpallurinn farið af sumum, allmargir misstu bátana og úr einum brotnaði afturmastrið. Enginn hafði komizt í landvar, áður en ofviðrið skall á. Loks var allur togaraflotinn, að tveimur skipum undanskildum, kominn í höfn. Þeir, sem saknað var, voru Leifur Heppni, eign hlutafélagsins Alliance og brezkur togari, Field Marshal Robertson, sem gerður var út frá Hafnarfirði, (eign Hellyersbræðra frá Hull). Á hinum fyrrnefnda voru 33 menn, allir íslenzkir, en á hinum síðarnefnda 35 menm, 29 íslenzkir og 6 brezkir. Þegar þrír sólarhringar voru liðnir frá því að ofviðrinu slotaði og ekkert hafði spurst til skipanna, fóru menn almennt að verða hræddir um að eitthvert óhapp hefði komið fyrir. Ákvað ríkisstjórnin því, 12. febrúar, að fá danska varðskipið Fyllu til þess að bregða sér vestur á firði og reyna að svipast þar um eftir skipunum. Togarinn Ceresio var sendur frá Hafnarfirði í sams konar leiðangur. Leit þessi varð árangurslaus.
Margir togaranna urðu yfirísaðir og mjög hætt komnir.
En þegar hér var komið málum höfðu eigendur skipanna og aðrir útgerðarmenn
tekið ákvörðun um að senda togaraflotann, eða þann hluta hans, sem var
ferðafær, til þess að leita að skipunum. Á sunnudagsmorguninn snemma fóru 12
togarar frá Reykjavík, en 9 bættust í hópinn af Selvogsbanka, og höfðu þeir
lagt af stað kvöldið áður til móts við hina, sem komu frá Reykjavík. Allir
togararnir hittust á mánudagsmorguninn 16. febrúar og röðuðu sér með ákveðnu
millibili (3-4 mílum) á um 90 mílna vegalengd. Hafði áður verið reiknað út,
eftir vindátt þeirri og veðurhæð, sem verið hafði á svæði þessu síðan ofviðrið
hófst, hvar helzt myndi að leita skipanna. (Sjá tígullagaða flötinn á
uppdrættinum). Meðan á leitinni stóð, var stöðugt loftskeytasamband milli
togaranna innbyrðis og við loftskeytastöðina í Reykjavík. Þann 20. febrúar að
kvöldi komu margir af togurunum úr leitinni heim aftur. Höfðu þeir einskis
orðið vísari um afdrif skipanna, en alls hafði verið leitað á um 18 þús.
fermílna svæði.Uppdráttur af leitarsvæðinu.
Litli krossinn suður af Halamiðum sýnir staðinn, sem Egill
Skallagrímsson var staddur á, þegar ofviðrinu slotaði, en Egil rak lengra í
veðrinu, en nokkurt annað skip, sem statt var á þessum slóðum, og með hliðsjón
af þeirri afdrift var talið líklegt, að skipin myndu vera einhversstaðar innan
tígullagaða flatarins neðst á uppdrættinum, sem táknar leitarsvæði
togaraflotans.
Þriðja leitin og hin síðasta var hafin fjórum dögum síðar. Í henni tóku þátt
fjórir togarar ásamt varð- skipinu Fyllu. Tveir af togurunum voru íslenzkir,
Skúli Fógeti og Arinbjörn Hersir, en tveir voru brezkir, Ceresio og James Long.
Leitað var að þessu sinni á miklu stærra svæði en áður, farið allt norður að
hafísbrún og þaðan austur fyrir Horn. Þá var haldið vestur á bóginn og leitað
vestanvert við svæði það, sem togararnir höfðu áður kannað. (Sjá uppdráttinn).
Leitin stóð yfir í 12 daga og var alls farið yfir svæði, er nam um 60 þús.
fermílum. Þegar leitinni var hætt, voru leitarskipin stödd um 300 sjómílur
vestur af Reykjanesi. Veður var gott á öllu þessu tímabili og skyggni ágætt. En
leitin varð árangurslaus. Hafið skilaði ekki aftur hinum dýrmæta ránsfeng
sínum. Í ofviðri því, sem fyrr var getið, strandaði vélbáturinn Sólveig á
Stafnesskerjum og létu 6 menn þar lífið. Alls fórust því í ofviðrinu, á
fiskimiðum hér við land, 68 íslendingar og 6 Englendingar. Hátíðleg
minningarathöfn var haldin um sjóslys þetta, í Reykjavík og Hafnarfirði, 10.
marz. Og um allt land var hinna föllnu minnst með 5 mínútna þögn.
Hellyerstogarinn James Long H 141 var eitt þeirra skipa sem tóku þátt í leitinni af Leifi heppna og Fieldmarshal Robertson. Myndin er tekin í Hafnarfjarðarhöfn af Guðbjarti Ásgeirssyni.
Frásögn
Snæbjarnar Stefánssonar,
skipstjóra á b.v. Agli Skallagrímssyni
Við vorum staddir úti á Halamiðum þegar ofviðrið skall á,
síðari hluta laugardagsins 7. febrúar. Stormur hafði verið talsverður fyrri
hluta dagsins, en sjólag þó sæmilegt. Upp úr hádeginu var hætt að toga og
gengið frá lestaropunum eins og vant var og veiðarfærin bundin upp. Var þá sjór
tekinn mjög að spillast og veðurhæðin í hröðum vexti. Skömmu síðar var komið
ofviðri, með ofsaroki af NA., blindhríð og stórsjó. Veðurofsinn var svo mikill,
að stíma varð með hálfri ferð og stundum jafnvel fullri, til þess að halda í
horfinu. Gekk erfiðlega að halda "dampi," því að sjór var kominn á
"fírplássið og voru því tveir menn sendir af þilfarinu kyndurunum til aðstoðar.
Síðari hluta nætur breyttist sjólagið skyndilega og umhverfðist um allan
helming. Tel ég líklegt, samkvæmt síðari reynslu, að þá hafi skipið verið komið
inn í straumröstina, sem þarna myndast á mótum Golfstraumsins og Pólstraumsins.
Ég fékk tækifæri til þess síðar að sjá með eigin augum hvernig sjólagi er
háttað, þar sem straumar þessir koma saman.
Það var við önnur og betri veðurskilyrði, í blíðskaparveðri og ládauðum sjó. En
svo var straumþunginn mikill. þar sem straumarnir mættust, annar grár að lit,
en hinn blár að á haffletinum myndaðist hryggur, þar sem þeir runnu hvor gegn
öðrum. Skömmu eftir að sjólagið breyttist lenti stórsjór á skipinu og varpaði
því á hliðina, þannig að stjórnpallurinn fór í kaf stjórnborðsmegin. Við
veltuna kastaðist allt, sem lauslegt var, út í aðra hlið skipsins, kolin,
saltið og fiskurinn. Eldar drápust undir eimkatlinum, því að sjór flaut inn í
eldstæðin og gólfplöturnar á "fírplássinu" gengu meira og minna úr
skorðum. Báða björgunarbátana tók fyrir borð og er það gleggsta dæmi þess, hve
veltan var mikil, að þeir kipptu með sér bátsuglunum upp úr stýringum sínum á
bátaþilfarinu með beinu átaki , þannig að ekkert sá á stýringunum.
Kveldúlfstogarinn Egill Skallagrímsson RE 165. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Skipið lá nú í sjóskorpunni þannig að sjór flaut upp á brúargluggana.
Björgunartilraunir voru þegar hafnar og voru skipverjar á svipstundu komnir
hver að sínu verki. Tengslin voru höggvin af bátunum, svo að þeir berðust ekki
við skipshliðina, kolunum og saltinu var mokað yfir í kulborða til þess að
rétta skipið að nýju og síðan var farið að ausa, því að skipið var sem vænta
mátti orðið hálffullt af sjó. Nokkur árangur var þegar orðinn af þessu erfiða
starfi, þegar brotsjór reið yfir skipið aftur og varpaði því á nýjan leik á
sömu hliðina og fyrr. Varð því enn að hefja sama verkið á sama hátt og áður, en
alls var unnið að björgunarstarfinu í 36 klst. samfleytt áður en búið var að
ausa skipið og koma vélinni af stað. Síðan var lagt af stað til lands. Stýrt
var alla leið í SSA, og reyndist sú stefna vera beint til Reykjavíkur. Er það
greinilegasta dæmi þess, hve mikið ofviðrið var, að skipið skyldi, meðan á því
stóð, hafa hrakið svo langt til hafs.
Minningarathöfn var haldin í Dómkirkjunni í Reykjavík um þá sem fórust í Halaveðrinu.
Það er erfitt að skýra frá atburði þessum svo að ekki sé að einhverju leyti
minnzt þess dugnaðar, sem skipverjar sýndu. allir án undantekningar meðan á
björgunarstarfinu stóð. En sem dæmi þess vil ég aðeins nefna eftirfarandi
atvik:
Meðan enn var verið að rétta skipið eftir áfallið, sem fyrr var nefnt, varð
þess vart, að á einu af lestaropunum, því sem aftast var á þilfarinu, hafði
losnað um ábreiðuna, sem breidd var yfir lestarhlerana. Hér var sýnilega hætta
á ferðum, sem vel gat orðið afdrifarík fyrir skip og áhöfn, ef ábreiðan losnaði
alveg og hlerarnir færu af lestaropinu, þannig að sjór flæddi niður í skipið.
Þessari hættu varð að afstýra, en það var erfitt verk og áhættusamt. Fárviðrið
var í algleymingi, frostharkan mikil, og hríðin og náttmyrkrið svo að varla sá
út úr augunum.
Tveir af skipverjum buðust þó þegar til að leysa starfið af hendi. Fóru þeir
fyrst fram í hásetaklefann, til þess að klæða sig úr trollstökkunum, því að
sjálfsagt var, vegna ofviðrisins, að vera svo léttklæddur sem unnt var, eftir
að komið væri út á þilfarið og stakkarnir myndu hvort sem var verða gagnslitlir
sem hlífðarflíkur, þegar þangað kæmi. Þeir höfðu lokið þessum undirbúningi og
stóðu í vari undir hvalbaknum, voru að bíða eftir því að færi gæfist til þess
að komast út á þilfarið. Þá reið ólag yfir skipið og sjórinn flæddi eins og
straumröst yfir þilfarið og inn undir hvalbakinn. Datt víst fáum í hug, að
þeir, sem þar voru kæmust lifandi úr þeirri eldraun.
Minningartafla um þá sem fórust með togaranum Fieldmarshal Robertson, gefin af Hellyersbræðrum, eigendum skipsins. Taflan er í kór Hafnarfjarðarkirkju. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Þessi forleikur spáði ekki
góðu um það, sem við mætti búast síðar, þegar komið væri út á þilfarið og
ekkert yrði framar til að skýla þar við starf sitt hinum ótrauðu
sjálfboðaliðum. Ráðgert hafði verið í fyrstu að hafa bönd á þeim í
öryggisskyni, en því neituðu þeir ákveðið, töldu vonlaust að sleppa ómeiddir,
ef að sjór kæmi á skipið undir slíkun kringumstæðum. Þá kusu þeir heldur ef
ekki yrði hægt að ná handfestu, að verða hafinu að bráð, en að berjast um í
böndum, eins og rekald í brimi, á snarbröttu og hálu þilfarinu. Þegar færi
gafst, sættu þeir lagi, komust slysalaust á ákvörðunarstaðinn og luku rólegir
við starf sitt, þó að vinnuskilyrði væru erfið. Og að verkinu loknu, þegar
hættunni hafði verið afstýrt, hurfu þeir aftur í raðir félaga sinna, eins og
ekkert hefði í skorizt, til þess að vinna með þeim að austri skipsins og öðrum
nauðsynlegum björgunarráðstöfunum.
Einnig fórst í þessu óveðri vélbáturinn Sólveig frá Ísafirði með 6 mönnum, en þennan bát hafði Óskar Halldórsson útgerðarmaður og síldarsaltandi á leigu og gerði út frá Reykjavík.
Heimildir:
Sjómannablaðið Víkingur. 1 febrúar 1965.
Þrautgóðir á raunastund. Vll bindi.