11.02.2017 11:50

B. v. Arinbjörn hersir RE 1. LBFJ / TFDC.

Arinbjörn hersir RE 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1917 fyrir breska flotann, hét hjá þeim John Pasco. 321 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Kveldúlfur í Reykjavík frá árinu 1924. Skipið var selt 27 júní 1944, Óskari Halldórssyni, Guðríði Ernu Óskarsdóttur og Guðrúnu Óskarsdóttur í Reykjavík, skipið hét Faxi RE 17. Selt 29 nóvember 1944, Hlutafélaginu Faxakletti í Hafnarfirði. Í ársbyrjun 1952 sleit togarann upp í ofsaveðri frá legufærum í Hafnarfirði og rak mannlausan framhjá boðum og skerjum, inn á sléttan fjörusand upp í Borgarfirði, þar sem hann náðist síðar út, lítið skemmdur. Seldur til niðurrifs og tekið af skrá 27 september árið 1952.

 
B.v. Arinbjörn hersir RE 1.                                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 
 
Arinbjörn hersir RE 1.                                                                                    Ljósmyndari óþekktur.
 
Skip Óskars Halldórssonar útgerðarmanns og síldarsaltanda, Sigríður GK 21 og Faxi RE 17. Einnig má sjá Óskar á myndinni lengst til hægri.         Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.
 
                Arinbjörn hersir og Snorri goði 
           bjarga 400 mönnum af frönsku skipi 
 

16. þ. m. voru togararnir Arinbjörn hersir og Snorri goði staddir í Írlandshafi og sáu þá flugvél sökkva stóru skipi með sprengju skammt frá togurunum. Kom upp mikill eldur í skipinu eftir árás flugvélarinnar. Strax og flugvélin hafði yfirgefið hið brennandi og sökkvandi skip, lögðu togararnir að því. Hafði nokkur hluti skipshafnarinnar þá þegar komist í björgunarbátana, og tók Arinbjörn hersir fólkið úr þeim, en Snorri goði lagði að skipshliðinni og bjargaði þar fjölda manns, sem héngu í köðlum og stigum utan á skipinu. Björguðu togararnir alls um 400 manns af áhöfn skipsins, en alls er sagt að um 600 manns hafi verið á skipinu.
Þegar togararnir voru að Ijúka við björgunarstarfið kom brezkur tundurspillir á vettvang til björgunar. Brá hann kastljósi að skipinu til þess að fullvist væri að enginn lifandi maður væri ofan þilja. Sást þá hópur blökkumanna á afturþiljum skipsins, og var þeim bjargað þegar í stað. Skip þetta var franskt og hét Aska. Björgun þeirra Arinbjarnar hersis og Snorra goða þykir mjög frækileg. Að visu var veður gott, en mikil hætta var að nálgast skipið, þar sem búast mátti við sprengingu á hverri stundu. Það er ánægjulegt, hvað íslenzkum togurum hefir tekist að bjarga mörgum mönnum nú í ár. Munu það alls vera yfir 900 manns, sem íslenzkir togarar hafa þegar bjargað.

Vesturland. 21 september 1940.

             Loftárás á Arinbjörn hersi

Samkvæmt símskeyti, sem ríkisstjórnin fékk í gærkvöldi frá Pjetri Benediktssyni sendifulltrúa í London, hefir einn Kveldúlfstogaranna "Arinbjörn Hersir " orðið fyrir árás þýskrar sprengiflugvjelar, er hann var á leið hingað frá Englandi. Mennirnir, 13 talsins, björguðust í bátana , og eru komnir til skoskrar hafnar. Síðari fregn hermir og að dráttarbátur hafi dregið togarann til hafnar. Nánari fregnir af þessum atburði eru ókomnar. Þess er getið í skeyti Pjeturs Benediktssonar, að 4 af skipsmönnum "Arinbjarnar" hafi verið eitthvað meiddir, en enginn þó hættulega.
Þess er ekki getið, hverjir hafi meiðst, en ríkisstjórnin hefir símað út og spurst fyrir um þetta og einnig, hver meiðslin sjeu. Þessi árás á Arinbjörn Hersir átti sjer stað kl. 6 á sunnudagsmorgun. Togarinn fór frá Fleetwood á laugardagskvöld, áleiðis hingað heim. Hefir því árásin átt sjer stað í sundinu milli Írlands og Skotlands. Þar sem svo segir í síðari fregn, að dráttarbátur hafi dregið Arinbjörn til hafnar, bendir það til þess, að sprengja hafi ekki hitt togarann, enda myndi togarinn þá hafa sokkið. Eru því líkurnar þær, að sprengja hafi komið niður nálægt togaranum, en við það gat skipið hafa kastast til og e. t. v. laskast, en það gat aftur verið orsök þess, að mennirnir hafi meiðst. Í skeyti Pjeturs Benedíktssonar segir ekki, að mennirnir sjeu særðir, heldur lítilsháttar meiddir. Bendir þetta til þess, að þeir hafi ekki meiðst af sprengjubrotum. Skipstjórinn á Arinbirni Hersi þessa ferð var Steindór Árnason, sem verið hefir stýrimaður á togaranum.

 

Morgunblaðið. 24 desember 1940.

Flettingar í dag: 277
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 2672
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 973460
Samtals gestir: 69393
Tölur uppfærðar: 8.9.2024 05:00:49