15.02.2017 20:31

150. Margrét SI 4. TFUW.

Margrét SI 4 var smíðuð hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í Austur Þýskalandi árið 1958. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Útver h/f á Siglufirði frá 18 september 1959. Skipið var selt 27 október 1971, Haraldi H Jónssyni og Jóni G Hafdal í Hafnarfirði. Selt 21 desember 1971, Gylfa h/f í Neskaupstað, skipið hét Víglundur NK 124. Selt 10 janúar 1973, Hlutafélaginu Eyrum á Seyðisfirði, skipið hét Emilý NS 124. Selt 2 desember 1977, Magnúsi H Gíslasyni í Garðabæ, skipið hét Goðanes RE 16. Frá 27 mars 1979 hét skipið Ólafur Gísli RE 16, sami eigandi. Frá 17 janúar 1980 hét skipið Sporður RE 16, eigandi talinn Fiskuggi h/f í Reykjavík. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 1 desember árið 1981.
Margrét SI 4.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Margrét SI 4.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Fyrirkomulagsteikning af "Tappatogara"                                                                      (C) HRB.

          Nýtt skip komið til Siglufjarðar

                      Margrét SI 4

Á miðvikudaginn kom hingað til Siglufjarðar eitt hinna austur- þýzku togskipa, sem byggð voru fyrir atbeina fyrrverandi ríkisstjórnar. Skipið heitir Margrét, einkeningsstafir þess eru S.I. 4. Eigandi skipsins er Útver h/f, en framkvæmdastjóri þess er Árni Friðjónsson, en formaður félagsstjórnarinnar er Vigfús Friðjónsson. Stærð skipsins og vélaútbúnaður er að engu frábrugðinn frá hinum austur-þýzku skipunum, sem áður voru komin, nema Margrét er útbúin með sjálfstýringu.
Var sá útbúnaður settur í skipið í Kaupmannahöfn. Vélin er 800 ha. Mannheim dieselvél. Radar er ekki kominn í skipið, en von er á Decea-radar, nýrri gerð, sem settur verður í það strax þegar hann kemur. Skipið fór frá Stralsund 21. janúar til Kaupmannahafnar, en þar var sett í það sjálfstýringin, miðunarstöð og talstöðvar, en þær eru þrjár. Þá kom í ljós leki með stefnisröri, og var þá farið aftur til Stralsund og gert þar við lekann. Þaðan var lagt var stað heim 12. febrúar. Skipstjóri á Margréti er Helgi Jakobsson. Sigldi hann skipinu hingað frá Þýzkalandi.
Þegar á fyrsta degi eftir brottförina frá Stralsund hreppti skipið slæmt veður, sem hélzt síðan alla leiðina. Gizkaði skipstjórinn á, að þegar það var verst, hafi vindhraðinn náð 12-13 vindstigum. Reyndist skipið í alla staði hið bezta sjóskip, og mun meðal ganghraði þess hafa verið um 11 mílur. Norður af Shetlandseyjum heyrðu skipverjar á Margréti hjálparbeiðni frá vélbátnum Gullver NS 12. Er það nýr 70 lésta bátur, sem var á leið til Seyðisfjarðar frá Danmörku. Hafði brotnað tannhjól í kælivatnsdælu vélarinnar og rak bátinn fyrir sjó og vindi. Flutningaskipið Jökulfell var á sömu slóðum, en tókst ekki þrátt fyrir nákvæma staðarákvörðun Gullvers að finna hann.
Brá Margrét þá við til aðstoðar bátnum, en hún er búin mjög fullkomnum miðunartækjum, enda fann hún bátinn innan skamms. Setti hún vír yfir í Gullver og hugðist reyna að draga hann til hafnar í Færeyjum, en báturinn slitnaði fljótlega aftan úr, enda ekki nægilega sterk dráttartaug til um borð í Margréti. Varð það þá úr, að Margrét aðstoðaði Jökulfell við að finna bátinn, og síðan dró Fellið hann til hafnar í Klakksvík í Færeyjum. Gerðist ekki fleira sögulegt á leiðinni. Stýrimaður á Margréti, er Halldór Hallgrímsson, en 1. vélstjóri er Björn Jónsson. Gert er ráð fyrir, að skipið fari á veiðar eftir nokkra daga. Mun það leggja upp afla sinn hjá hraðfrystihúsi S.R. hér á Siglufirði.
Áhöfn skipsins á veiðum verður 14 manns. Bæjarbúum var boðið að koma um borð og skoða skipið kl. 2 í gær. Notfærðu margir sér það boð og þáðu veitingar. Íbúðir skipverja, sem eru fyrir 21 mann, eru hinar glæsilegustu, og virðist aðbúnaður skipverja vera mjög góður.
Menn vænta þess, að koma þessa skips verði til þess að gera atvinnulífið hér mun traustara en það hefur verið undanfarin ár, einkum þó til að bæta úr atvinnuleysinu, sem hér hefur oft verið tilfinnanlegt yfir vetrarmánuðina. Tilvera Siglufjarðar byggist einvörðungu á útgerð og vinnslu sjávarafla, og því fleiri skip, sem héðan eru gerð út og leggja upp afla hér, því meiri horfur eru á, að hér verði vaxandi bær með blómlegt athafna og menningarlíf.
Mjölnir óskar eigendum og áhöfn skipsins til hamingju í tilefni af komu þess hingað, og góðs farnaðar í framtíðinni.

Mjölnir. 20 febrúar 1959.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30