19.02.2017 15:13
B. v. Skallagrímur RE 145. LCHK / TFRC.
Mesta
björgunarafrek Íslenskra sægarpa
breska
hjálparbeitiskipinu "Andania"
Þegar skipverjar á b. v. "Hafstein " björguðu
síðastliðið haust skipshöfninni af þýska skipinu Bahia Blanca, sem fórst í ís
undan Vestfjörðum, var það réttilega talið mesta björgunarafrek, sem íslendingar
höfðu unnið . Nú hefir verið unnið annað
björgunarafrek, sem tekur hinu fram. Skipverjar á b.v. Skallagrími björguðu 350
breskum sjóliðum, er skipi þeirra hafði verið sökkt með tundurskeyti. Tíðindamaður
Vísis átti í morgun tal við Guðmund Sveinsson, skipstjóra á b.v. Skallagrími.
Guðmundur lætur lítið yfir þessu afreki sínu og pilta sinna, finnst það vera
innifalið í dagsverkinu og óþarfi að vera að skrifa langar blaðagreinar um það.
En slíkar afrekssögur eiga ekki að liggja í þagnargildi, enda er þetta
einstakur viðburður og sjálfsagt að honum sé á lofti haldið.
Fer hér á eftir frásögn Guðmundar:
"Við vorum á útleið, er við mættum stóru
skipi, sem gaf okkur til kynna, að það vildi hafa tal af okkur. Þetta var að
morgni dags. Þegar skip stöðva okkur, spyrja þau venjulega, hvaðan við séum að
koma, og hvert förinni sé heitið, en að þessu sinni var brugðið út af þessari
venju. Sagði skipstjórinn okkur, að hann hefði ástæðu til þess að ætla, að
breskt skip hefði orðið fyrir kafbátsárás 40-50 mílur vestur af þeim stað, sem
við vorum staddir á. Vorum við beðnir að halda á vettvang til þess að reyna að
bjarga skipshöfninni, ef því yrði við komið.
Mun skipið, sem talaði við okkur, ekki hafa þótt óhætt fyrir sig að fara
þangað, vegna kafbátahættunnar, en auðvitað gat þetta verið alveg jafn
hættulegt fyrir okkur. En hinsvegar gátum við ekki neitað að verða við þessari
hjálparbeiðni, snerum við og komum að hinu sökkvandi skipi eftir um fimm
klukkustunda siglingu. Veður var dágott, vindur að vestan 3 stig og nokkur
undiralda. Skipstjórinn á hjálparbeitiskipinu, sem reyndist vera Andania
(13.950 smál., smíðað 1922) vildi ekki yfirgefa skip sitt, kvaðst ekki mega
það, meðan það væri enn ofansjávar. En það sökk smám saman og var horfið um kl.
7 um kveldið. Komust allir skipverjar í
bátana, fjórtán að tölu. Skipverjar voru alls 350 eða 353 að tölu og komst ég
aldrei að því, hvor talan var réttari.
Tveir þeirra voru allsærðir og voru á
sjúkrabörum. Björgunin tókst alveg slysalaust, en engum bátanna var hægt að
bjarga. Var engin leið að taka neinn þeirra upp, sakir þrengsla. Þótti mér það
þó súrt í brotið, því að tveir þeirra voru einkar fallegir og rennilegir
vélbátar, eins og þeir, sem notaðir eru til þess að flytja farþega
skemtiferðaskipanna, sem hér koma, milli skips og bryggju. Þegar allir voru
komnir um borð hjá okkur og haldið var af stað, fór veðrið að versna, hvesti af
suðvestan. Var Bretunum komið fyrir hvar sem var, jafnvel í kolaboxunum og á öllum
hugsanlegum stöðum öðrum, jafnvel inni í skápum. Við tjölduðum yfir
"keisinn" og bátadekkið, svo að mennirnir gæti verið í skjóli þar,
vélarúmið var fult af þeim, svo að ekki var hægt að þverfóta þar, lúkarinn var
fullur og sama var hægt að segja um hvern einasta stað á skipinu. Hvergi var
hægt að drepa niður fingri.
Til allrar hamingju voru þetta vel agaðir sjómenn,
því að annars hefði þetta ekki gengið jafnvel og raun ber vitni. Það hefði
sannarlega verið öðru máli að gegna, ef við hefðum orðið að bjarga fólki af
farþegaskipi. Skipstjórinn breski sagði mér, að þeir hefði aldrei komið auga á
kafbátinn og skipverjar myndi varla hafa vitað, hvaða skip það var, sem þeir
sökktu. Kvaðst hann gera ráð fyrir, að skotið hefði verið á skipið úr 4000 feta
færi. Eitt tundurskeyti hæfði, en auk þess komu skipverjar auga á loftrákir úr
þrem tundurskeytum, sem misstu marks. Um daginn fylgdist Sunderland-flugbátur með
okkur um tíma, en daginn eftir hittum við tundurspilli. Var þó ekki strax hægt
að hugsa um að koma mönnunum um borð í hann vegna veðurs og voru Bretarnir um
borð hjá okkur í 36 klukkustundir. Allan þann tíma var ekki hægt að elda neinn
mat, og var aðeins hægt að hita te og kaffi.
En bresku sjómennirnir höfðu kex í
fórum sínum, sem verið höfðu í skipsbátunum svo að enginn þurfti að svelta.
Loks batnaði þó veðrið og var þá ákveðið að reyna að koma Bretunum um borð í
tundurspillinn. Tókst það ágætlega, en það var ekki fyrr en þeir voru komnir um
borð þangað, að okkur varð ljóst hvílíkur feikna fjöldi hafði verið um borð hjá
okkur. Það var blátt áfram ótrúlegt, að allir þessir menn skyldu hafa komist
fyrir í litla skipinu okkar, enda hafði breski skipstjórinn orð á því við mig.
Fór hann síðastur frá borði og sagði áður en hann fór: "Hvar höfum við
eiginlega getað komið öllum þessum mönnum fyrir?" Var það að undra þótt
hann spyrði? Þegar Bretarnir voru komnir um borð í tundurspillinn, kvöddu þeir
okkur með húrrahrópum og hélt hann síðan á brott, en við héldum leiðar okkar."
Lýkur hér frásögn Guðmundar og munu allir á eitt sáttir um, að hér hafi verið
unnið afrek, sem á lofti mun vera, meðan Íslendingar sækja sjóinn og leggja
ótrauðir til baráttu við ægi til þess að draga björg í bú.
Í breskum fregnum hefir verið skýrt frá þvi, að kafbáturinn hafi komið upp
tvisvar.Í siðara sinnið skutu skyttur Andania á hann og hæfðu turninn.
Sprenging varð í kafbátnum og fórst hann. Öllum skipverjum á Andania var
bjargað, en ekki greint frá hvaða skip gerði það.
Vísir. 27 júní 1940.