21.02.2017 11:11
E. s. Dettifoss l. LCKR / TFDA.
Dettifossi
sökkt
Þann 24. febrúar s. l. barst sú harmafregn til landsins, að
eimskipið Dettifoss hefði farizt af völdum hernaðarins, og væri 12 skipverja og
þriggja farþega skipsins saknað, og ókunnugt væri um afdrif þeirra. Þegar
Goðafossi var sökkt, innan íslenzkrar landhelgi, er hann átti örskammt ófarið í
höfn eftir langa útivist, sló óhug á alla þjóðina. Margir voru teknir að vona,
að svo mjög væri nú liðið á styrjöldina, að óhætt myndi að gera sér vonir um,
að fleiri skipum íslendinga yrði ekki sökkt í átökum styrjaldarinnar, en þegar
var orðið. En röskum þrem mánuðum eftir að Goðafossi var sökkt, er hið ógróna
sár ýft að nýju við þá voveiflegu fregn, að Dettifoss hafi einnig lotið órlögum
hans. Að vísu er hægt að bæta upp skipatjónið síðar meir. En mannskaði sá, er
orðinn er, verður eigi bættur. Hér fara á eftir nöfn þeirra, sem er saknað:
Farþegar:
Vilborg Stefánsdóttir, hjúkrunarkona, Hringbraut 68, f. 29. júní 1895. Berta
Steinunn Zoéga, húsfrú, Bárugötu 9, f. 8. júlí 1911, átti 1 barn, 10 ára.
Guðrún Jónsdóttir, skrifstofustúlka, Blómvallagötu 13, f. 17. apríl 1911. Hjá
foreldrum.
Skipsmenn:
Davíð Gíslason, 1. stýrimaður, Njarðargötu 35, f. 28. júlí 1891. Kvæntur og
átti 5 börn, 12, 10, 8, 6 og 3 ára. Jón S. K. K. Bogason, bryti, Hávallagötu
51, f. 30. maí 1892. Kvæntur og átti 1 barn, 10 ára. Jón Guðmundsson,
bátsmaður, Kaplaskjólsvegi 11, f. 28. ágúst 1906. Kvæntur og átti 1 barn á öðru
ári. Guðmundur Eyjólfsson, háseti, Þórsgötu 7 A, f. 23. júlí 1915. Kvæntur og
átti 1 barn á 2. ári. Hlöðver Oliver Ásbjörnsson, háseti, Brekkustíg 6A, f. 21.
maí 1918, ókvæntur. Ragnar Georg Ágústsson, háseti, Sólvallagötu 52, f. 16.
júní 1923. Ókvæntur; hjá foreldrum. Jón Bjarnason, háseti, Bergstaðastræti 51.
f. 23. nóvember 1909. Kvæntur, barnlaus. Gísli Andrésson, háseti, Sjafnargötu
6, f. 22. september 1920. Ókvæntur. Jóhannes Sigurðsson, búrmaður, Njálsgötu
74, f. 23. okt. 1906, Ókvæntur. Stefán Hinriksson, kyndari, Hringbraut 30, f.
25. júní 1898. Ókvæntur. Helgi Laxdal, kyndari, Tungu, Svalbarðsströnd, f. 2.
marz 1919. Ragnar Jakobsson, kyndari, Rauðarárstíg 34, f. 27. okt. 1925.
Ókvæntur, hjá móður sinni.
Dettifossi hleypt af stokkunum 24 júlí 1930. Ljósmyndari óþekktur.
Þau sem komust af. Farþegar:
Ólafur Björn Ólafsson, Akranesi. Páll Bjarnason Melsted, stórkaupmaður. Skúli
Petersen, Laufásveg 66. Bjarni Árnason. Sigrún Magnúsdóttir, hjúkrunarkona.
Eugenie Hallgrímsson Bergin, frú, Miðtúni 7. Davíð Sigmundur Jónsson. Lárus
Bjarnason, Bárugötu 16. Erla Kristjánsson, Hólavallagötu 5. Ragnar Guðmundsson.
Theódór Helgi Rósantsson, Laufásvegi 41.
Skipsmenn:
Jónas Böðvarsson, skipstjóri. Ólafur Tómasson, 2. stýrimaður. Eiríkur Ólafsson,
3. stýrimaður. Hallgrímur Jónsson, 1. vélstjóri. Hafliði Hafliðason, 2.
vélstjóri. Ásgeir Magnússon, 3. vélstjóri. Valdemar Einarsson, loftskeytamaður.
Bogi Þorsteinsson, loftskeytamaður. Kristján Símonarson, háseti. Erlendur
Jónsson, háseti. Sigurjón Sigurjónsson, yfirkyndari. Kolbeinn Skúlason,
kyndari. Sigurgeir Svanbergsson, kyndari. Gísli Guðmundsson, 1. matsveinn.
Anton Líndal, matsveinn. Tryggvi Steingrímsson, þjónn. Nikolína
Kristjánsdóttir, þerna. Baldvin Ásgeirsson, þjónn yfirmanna.
FRÁSÖGN JÓNASAR BÖÐVARSSONAR skipstjóra:
Skipið var á siglingu í sæmilegu veðri. Klukkan var 8,29 að morgni, er allt í
einu varð gríðarleg sprenging í framhluta skipsins. Farþegar voru flestir í
rúmum sínum, en skipverjar höfðu nýlega lokið við að skipta um vakt. Frammi í
voru 6 hásetar, einn þeirra í rúmi sínu, en hinir voru að matast í borðsal
skipsins frammi í. Enn fremur munu nokkrir kyndarar hafa verið frammi í, en þar
voru vistarverur háseta og kyndara, ofanþilja. Strax og sprengingin varð, þusti
fólk út á þilfar, og munu allir hafa komizt úr klefum sínum, nema þeir, sem
voru frammi í. Er ekki vitað, hvort einhverjir hafa slasazt þar. En sprengingin
mun hafa rifið upp skipið undir sjávarmáli, og enn fremur gengu þilfarsplankar
að framan upp lítillega. Hversu miklar skemmdir urðu frammi í skipinu, er ekki
hæg að segja með neinni vissu, en ekki mun gangurinn, sem lá milli herbergja
skipverja frammi í, hafa teppzt. Eini hásetinn, sem var í rúmi sínu, Kristján
Símonarson að nafni, komst lífs af. Skipið tók brátt að hallast á bakborðshlið.
Þannig hagaði til á Dettifossi, að tveir björgunarbátar voru á bátaþilfari
miðskips, en einn bátur á palli aftast á skipinu, en auk þess voru
björgunarflekar á skipinu.
Dettifoss í Hamborg. Ljósmyndari óþekktur.
Ekki var viðlit að reyna að koma nema einum bátnum út, en það var
bakborðsbáturinn miðskips. Vegna þess, hve skipið hallaðist á bakborða, var
ekki hægt að koma út stjórnborðsbáti. Einn fleki losnaði frá skipinu við
sprenginguna og annar komst á flot skömmu síðar. Munu hafa liðið um 3 mínútur
frá því að sprengingin varð í skipinu og þar til búið var að koma út bátnum og
flekunum. En skipið var það fljótt að sökkva, að litlu munaði, að skipverjar
kæmu bátnum frá skipshliðinni áður en það hallaðist á bátinn. Ekki munu hafa
liðið nema 5 mínútur frá því að sprengingin varð og þar til skipið var sokkið.
Flestir, sem björguðust af skipinu, fleygðu sér í sjóinn, en komust síðan í
bátinn eða á flekana. Alls komust 11 manns fyrst í bátinn, en 17 á stærri
flekann og tveir á hinn minni. Síðar var þeim tveimur, er komust á minni
flekann, bjargað upp í bátinn. Fólkið var um klukkustund í bátnum og á
flekanum. Sást alltaf á milli báts og fleka. Veður hafði verið sæmilegt, en
brátt tók að hvessa. Voru allir blautir og margir fáklæddir, þar sem þeir höfðu
farið upp úr rúmum sínum og ekki unnizt tími til að bjarga neinu með sér.
Varð hver að hugsa um sig, eftir því, sem bezt hann gat. Allir þeir, sem
björguðust, voru ómeiddir að kalla og flestir furðu hressir í bátnum og á
flekanum. En einn af farþegunum var meðvitundarlaus, er honum var bjargað frá
björgunarbátnum. Var það frú Eugenie Bergin. En eftir góða aðhlynningu
hresstist hún. Hún var þó lögð inn í sjúkrahús í nokkra daga, er í land kom.
Henni líður nú vel, og er maður hennar, Bergin kapteinn, kominn til hennar, þar
sem hún dvelur í Skotlandi. Er fólkið hafði verið um klukkustund í bátnum og á
flekanum, bar að brezka hersnekkju. Fóru allir um borð í hana. Þar var mjög vel
tekið á móti skipbrotsfólkinu, og vildu brezku sjómennirnir allt fyrir það
gera. Létu þeir það fá þurr föt og hressingu og hlynntu að fólkinu á annan
hátt. Þegar til hafnar kom, var þar fyrir fulltrúi frá Eimskipafélagi íslands,
frá brezka hernum og Rauða krossinum enska. Skipbrotsfólkið fékk föt og peninga
frá Eimskipafélaginu og þá beztu aðhlynningu, sem hægt var að veita.
Dettifoss í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
FRÁSÖGN VALDIMARS EINARSSONAR loftskeytamanns:
Valdimar Einarsson loftskeytamaður skýrir svo frá: Ég var rétt nýkominn á fætur
og var á leið niður úr loftskeytaklefanum til þess að fá mér morgunkaffið; var
kominn niður á þilfarið, þegar ég heyrði sprengingu í skipinu, og fann síðan,
að eðlilegur titringur á skipinu, sem stafar af ferð þess og vélagangi, hvarf.
Um leið og sprengingin varð, fann ég sterka púðurlykt. Ég gerði mér strax grein
fyrir því, hvað skeð hefði, og að nú væri ekki seinna vænna að bjarga sér.
Hljóp ég strax upp í "brú". Sá ég þaðan, að brotið var ofan af
framsiglunni; hin svokallaða "stöng" hafði brotnað af henni við
sprenginguna. Þá var loftnetið farið leiðina sína og loftskeytastöð skipsins
við það óvirk. Ég þaut inn í herbergi mitt, greip björgunarbeltið og færði mig
í það. Síðan hljóp ég niður á bátaþilfarið. Þar var þá 2. stýrimaður, Ólafur
Tómasson, að losa annan björgunarbátinn. Hjálpaði ég honum til að vinda út
framstafn bátsins. Vegna þess, hve hallinn var mikill, hrökk báturinn af
uglunum áður en varði. Var nokkur þröng þarna við bátinn, en farþegum sagt, sem
þarna komu, að fleygja sér í sjóinn og ná í bátinn á floti. Nú flaug mér í hug,
að skipinu kynni að hvolfa. Því heyrt hafði ég, að slíkt gæti átt sér stað undir
svona kringumstæðum. Ég hljóp því upp eftir hinu hallandi þilfari, upp að þeim
borðstokk, sem hærra bar, stjórnborða, fór stjórnborðsmegin niður á neðra
þilfarið og síðan aftur eftir skipinu, og var það þá svo hallandi, að ég man að
ég steig nokkrum sinnum á þil yfirbyggingarinnar. Þegar ég var kominn aftur
fyrir yfirbygginguna, mætti sjórinn mér á miðju þilfari.
Dettifoss á tímum styrjaldarinnar seinni. (C) World Ships Photo Library.
Nú blasti við mér
björgunarfleki, sem var ekki langt frá skipinu, aftanhallt við það
bakborðsmegin. Var fólk á flekanum. Nú varpa ég mér í sjóinn og syndi áleiðis
til flekans. En er ég hafði synt skammt, flæktist eitthvað utan um fætur mér,
sennilega björgunarbelti, sem flotið hafði frá skipinu, svo ég missti sundtaktanna,
en gat reist mig upp og greitt úr þessu og síðan haldið áfram að flekanum. Var
kominn þangað eftir skamma stund, því hagstætt sund var þangað. Þegar ég kom á
flekann, voru þar 14 manns, en tveir komu á eftir mér, og voru þeir síðastir á
flekann.
Þegar ég er kominn á flekann, verðiir mér litið til skipsins. Það var enn á
nokkurri ferð, og var þó aðeins afturhlutinn upp úr sjó. Beygði það í
hálfhring. Nú heyrðust þungar drunur úr skipinu. Sennilega hafa þær komið, er
skilrúmið milli stórlestar og vélarúms sprakk. Leið nú skipið hægt í djúpið, og
var fánastöngin á skutnum seinast ein úr sjó með íslenska fánann blaktandi í
golunni. Þeirri látlausu sjón gleymum við skipbrotsmenn aldrei. Þegar skipið
var sokkið, sást stór lygnublettur eftir á sjónum stundarkorn, unz öldurnar
eftir andartak ýfðu sæinn að nýju og ekkert var ofansjávar af því, sem með
Dettifossi var, nema björgunarbáturinn og flekinn og við, sem á þeim vorum. Nú
reyndum við að halda flekanum upp í vindinn. En það reyndist ekki hægðarleikur,
því ræðin höfðu týnzt af flekanum, þegar hann féll í sjóinn af skipinu og hafði
flekinn auk þess brotnað dálítið. Við bjuggum til ræði úr köðlum. Og var síðan
reynt að halda flekanum upp í vind og báru. En flekinn var svo stór og þungur,
að ekki var hægt að ráða við hann á þennan hátt, eða stjórna honum. Var öllum
tilraunum til þess hætt eftir skamma stund. Sitjum við síðan aðgerðalaus á
flekanum.
Heiðursskjöldur með þakkarorðum Hindenburg, forseta Þýskalands sem færður var Eimskipafélaginu fyrir að áhöfn Dettifoss bjargaði í mars 1932 14 skipverjum af þýskum togara. Það er kaldhæðni örlaganna að skjöldurinn fór í hafið með Dettifossi þegar þýskur kafbátur sökkti skipinu.
Vindur fór vaxandi, og fór sjór að ýfast, en logn var og lítil alda,
þegar sprengingin varð í skipinu. Okkur leið sæmilega á flekanum, því veður var
hlýtt. En aðstaða okkar fór versnandi, því flekinn fór brátt að síga í sjó
öðrum megin, svo sjór gekk sífellt yfir hann, svo allir sátu við og við í sjó
upp í mitti. Margir voru lítið klæddir, en allir voru með björgunarbelti, nema
einn. Allan tímann, sem við vorum á flekanum, sáum við til skipaferða og vorum
örugg um að okkur yrði bjargað. Fylgdarskip kom til okkar, og var öllum af
flekanum og úr bátnum bjargað í það. Þar fengum við hinar ákjósanlegustu
viðtökur, sem hugsast gat. Var þar allt gert til þess að hjúkra okkur og hlynna
að okkur. Síðar gat Valdimar þess, að hann hefði fengið nokkuð aðra hugmynd um
það, hvernig fólk tæki slíkum atburðum sem þessum. Oft væri það tekið fram í
frásögnum af slíkum sjóslysum, að farþegar t. d. hefðu sýnt undraverða
stillingu, þó um yfirvofandi lífsháska væri að ræða. En það er mitt álit, sagði
hann, að hér þurfi ekki að vera um óvenjulega hugprýði eða geðstillingu að
ræða. Mér skilst, að þegar slíka skyndilega skelfingu ber að höndum, þá lamast
sumt fólk og getur jafnvel gengið eins og hálfpartinn í svefni. Það missir
framtak til sjálfstæðra athafna, en gerir kannske eins og það sér aðra gera eða
eins og því er fyrirskipað. Við ný áhrif getur fólk þetta þó allt í einu losnað
úr þessari leiðslu, en þá er hætt við að hræðslan fái yfirhönd.
FRÁSÖGN ÓLAFS TÓMASSONAR stýrimanns:
"Þegar' Dettifoss sökk, sýndu allir stillingu og hjálpsemi við
björgunina," sagði Ólafur Tómasson, 2. stýrimaður. Ólafur var staddur í
matsal yfirmanna, er sprengingin varð. Hann tók eftir klukkunni, því hann átti
að fara á vörð kl. 8.30. Var hann að standa upp frá borðum, þegar klukkuna
vantaði eina mínútu í hálf níu, og sprengingin varð um leið. Hann fór þegar út
í vélarrúm og sá þá, að búið var að stöðva vél skipsins og vélstjóri var að
koma upp úr vélarrúmi. Er hann hafði náð sér í björgunarbelti, fór hann út á
þilfar til að gæta að hásetum, en sá þá engan mann frammi á, svo hann fór að
björgunarbát þeim, er hann átti að sjá um, sem var 1. bátur, eða
stjórnborðsbáturinn miðskipa. Komu skipverjar honum til aðstoðar. Ólafur sá
brátt, að ekki myndi þýða, að reyna að koma stjórnborðsbátnum út, þar.sem
skipið var farið að hallast mikið til bakborða, og fór hann því að
bakborðsbátnum og aðstoðaði við að koma honum út. Það vann hver að sýnu verki,
segir Ólafur, og ekki sást annað en ró á hverjum manni. Skipstjóri gekk um og
leiðbeindi farþegum, hvert þeir ættu að fara til þess að mest von væri um
björgun. Ég sá alls staðar þar, sem ég leit, að skipverjar voru að vinna að
sínum störfum, og allir hugsuðu um það eitt, að geta orðið að liði. Þegar björgunarbáturinn
kom í sjóinn, flaut hann aftur með skipinu, því það var enn á dálítilli ferð.
Skipið hallaðist stöðugt meira og meira á hhðina, og var erfitt að halda bátnum
frá skipshliðinni. Nokkrir menn komust í bátinn beint frá skipinu, en sumir
köstuðu sér útbyrðis og komust síðar upp í bátinn eða á fleka. Mesta hættan var
á, að bátsuglan lenti á bátnum um leið og skipið hallaðist. Munaði minnstu að
svo færi, rétt áður en báturinn komst frá skipshliðinni. Bátsuglan hafði numið
við borðstokk bátsins, en í sama mund skar skipverji á fangalínuna og alda féll
undan bátnum og um Ieið tókst að ýta honum frá skipshliðinni.
Minningarskjöldur um þá sem fórust með Dettifossi á leið frá New York til Reykjavíkur 21 febrúar 1945. Skjöldurinn er í Sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Þegar skipið
sökk, var öll ferð farin af því. Stakkst það niður að framan og sökk þannig, að
íslenzki fáninn var það síðasta, sem sást af skipinu, áður en það sökk í
djúpið. Seint munum við, er þarna vorum, gleyma þeirri sjón. Þeir, sem í
björgunarbátnum voru, settust strax undir árar og reru þangað, er skipið hafði
sokkið, í þeirri von, að takast myndi að bjarga einhverjum. Tókst það, þar á
meðal frú Eugenie Bergin, eins og áður er sagt. Aðeins ein hugsun komst að hjá
þeim, sem í bátnum voru, en það var: "Eru ekki einhverjir fleiri? Sjáið þið
ekki fleiri." En brátt tók að hvessa og fleiri sáust ekki. Í
björgunarbátnum voru þurr föt, ullarpeysur, yfirhafnir o. þ. h. Var því skipt á
milli þeirra, sem í bátnum voru, og kom þetta að góðu haldi fyrir marga, er
bjargast höfðu fáklæddir. Það er eitt dæmi, sem ég get sagt frá, segir Ólafur
Tómasson, sem mér finnst vera einkennandi fyrir hug þann, sem ríkti hjá mönnum,
er slysið bar að höndum. Eftir að sprengingin varð í skipínu, hitti Anton
Líndal matsveinn félaga sinn á þilfarinu. Félagi hans sagði við hann. "Ég er
björgunarbeltislaus. Hvar á ég að ná í belti?" "Hér er
björgunarbelti," sagði Anton og tók af sér beltið, sem hann var með og
fékk félaga sínum. En sjálfur kastaði hann sér í sjóinn beltislaus. Þannig
vildu allir hjálpa hver öðrum sem bezt þeir gátu. Ólafur rómar mjög viðtökur
þær, sem skipbrotsfólkið fékk um borð í hersnekkjunni og eins í landi, er
þangað kom.
"Dettifoss" var byggður í
Friðrikshöfn í Danmörku árið 1930. Var hann 1564 brúttósmálestir að stærð, með
1500 hestafla vél. Hafði hann rúm fyrir 30 farþega, en gat flutt 1300-1400 tonn
af vörum í ferð. Var hann talinn hið traustasta skip, og var stærstur skipa
Eimskipafélagsins og gangbeztur allra íslenzkra skipa. Einar Stefánsson var
lengstum skipstjóri á Dettifossi. Er hann lét af störfum á árinu 1943, tók
Pétur Björnsson við skipstjórninni. Í þessari síðustu ferð var Jónas Böðvarsson
skipstjóri.
Sjómannablaðið Víkingur. 1 mars 1945.