01.03.2017 11:08

Hilmir ÍS 39. TFDM.

Hilmir ÍS 39 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1943. Eik. 88 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigendur voru Hlutafélagið Reynir og Hlutafélagið Fjölnir á Þingeyri frá 1 nóvember 1943. Skipið fórst í sinni fyrstu ferð frá Reykjavík til heimahafnar, Þingeyrar 26 nóvember árið 1943. Með skipinu fórust 11 manns, 7 skipverjar og 4 farþegar. Ástæða fyrir sjóslysi þessu þótti torráðin, þar sem veður hafði verið sæmilegt nóttina sem skipið fórst. Var jafnvel talið að það hefði farist af hernaðarvöldum, þótt aldrei yrði það sannað þar sem enginn var til frásagnar.


Hilmir ÍS 39 nýsmíðaður á siglingu á Eyjafirði.                                  (C) Gunnlaugur P Kristinsson.


Þeir sem fórust með Hilmi ÍS 39.                                                        Úr Ægi frá 1 febrúar 1944.


Þeir sem fórust með Hilmi ÍS 39.                                                           Úr Ægi frá 1 febrúar 1944.

     Vélskipið Hilmir frá Þingeyri talið af

            Ellefu manns voru á skipinu
            Þar af tvær konur og eitt barn


Óttast er að sviplegt og hörmulegt sjóslys hafi orðið hjer í,Faxaflóa fyrir helgina. Vjelskipið Hilmir frá Þingeyri fór hjeðan aðfaranótt föstudags s. l. áleiðis til Arnarstapa. Síðan hefir ekkert til skipsins spurts og leit flugvjela og varðskipsins "Ægir" engan árangur borið. Er skipið talið af og leit að því hætt. Með skipinu voru 11 menn, 7 skipverjar og fjórir farþegar.
Farþegar með skipinu voru:
Elín Ólafsdóttir, gift kona frá Hamraendum í Breiðavíkurhreppi.  Kristín Magnúsdóttir, gift Ólafi Benediktssyni á Arnarstapa. Með henni var 7 ára fóstursonur hennar, Trausti Jóhannsson. Þá var og farþegi á skipinu Anton Björnsson, kunnur íþróttamaður hjeðan úr bænum, sonur Björns í Ánanaustum. Hann var íþróttakennari á vegum í. S. í. og var á leið vestur á Snæfellsnes í þeim erindum.
Skipstjóri á Hilmi var einn af kunnari fiskimönnum fiskiflotans, Páll Jónsson, sem lengst af var á "Fjölni". Hann var búsettur á Þingeyri, giftur maður og átti 4 börn. Stýrimaður var Friðþjófur Valdimarsson frá ísafirði. Ungur maður. Hann lætur eftir sig konu og tvö börn. Vjelstjórar voru bræður tveir frá Kjartansstöðum í Dýrafirði. Þórður Friðfinnsson 1. vjelstjóri og Sigurlinni Friðfinnsson, 2. vjelstjóri. Þeir voru báðir ógiftir. Hásetar, voru Árni Guðmundsson frá Þingeyri, ógiftur og Guðmundur Einarsson frá Þingeyri. Hann lætur eftir sig aldraða foreldra. Matsveinn var Hreiðar Jónsson, Jóns heitins Björnssonar ritstjóra. Hann var búsettur hjer í bænum, ókvæntur en á móðir á lífi.
Hreiðar var kunnur knattspyrnumaður hjer í bænum. Ljek lengi í meistaraflokki "Víkings".
V.s. Hilmir var nýtt skip, 87 smálestir að stærð. Byggt í skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Var það útbúið öllum bestu tækjum. Það er um mánuður síðan skipið kom úr skipasmíðastöðinni. Hafði það farið í nokkrar ferðir milli Snæfellsness og Reykjavíkur með vikurfarm fyrir Vikurfjelagið. Eigendur skipsins voru hlutafjelögin Fjölnir og Reynir á Þingeyri. Framkvæmdastjóri Eiríkur Þorsteinsson kaupfjelagsstjóri.
Skip og flugvjelar leita. Þegar Hilmir kom ekki fram á laugardag, ljet Slysavarnafjelagið þegar lýsa eftir skipinu á sunnudag og í gær var leitað að skipinu hjer í flóanum og á hafi úti. Tóku þátt í þeirri leit varðskipið Ægir, flugvjelar ameríska hersins og íslenska flugvjelin.En leitin bar engan árangur. Veður, var svo heiðskýrt í gærdag, að hægt var að leita á öllu því svæði, sem hugsast gat að skipið væri á, ef það væri ofansjávar. Veður var slæmt aðfaranótt föstudagsins s. l., en þó er mönnum ráðgáta, hvernig þetta hörmulega slys hefir borið að höndum. Hilmir var traust skip og var þetta 7. ferð skipsins vestur. Hafði það oft áður lent í verra veðri en þessu.

Morgunblaðið. 30 nóvember 1943.

Flettingar í dag: 787
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194562
Samtals gestir: 83786
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:32:45