14.03.2017 13:29

201. Steingrímur trölli ST 2. TFYC.

Steingrímur trölli ST 2 var smíðaður hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í Austur Þýskalandi árið 1959. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 7 ágúst 1959. Skipið var gert út af h/f Steingrími á Hólmavík og kom fyrst til heimahafnar, 17 september sama ár. Skipið var selt 30 október 1962, Steingrími h/f í Keflavík, hét Steingrímur trölli KE 81. Selt 31 mars 1965, Steingrími h/f á Eskifirði, skipið hét Hólmanes SU 120. Árið 1967 voru eigendur skipsins Steingrímur h/f og Hraðfrystihús Eskifjarðar h/f á Eskifirði. Skipið var selt 5 nóvember 1972, Bjargi h/f á Patreksfirði, hét Jón Þórðarson BA 180. Skipið var endurmælt 1973, mældist þá 228 brl. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 21 október árið 1982.


Steingrímur trölli ST 2.                                                                         (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Steingrímur trölli KE 81.                                                                           (C) Vilberg Guðnason.


Hólmanes SU 120.                                                                                    (C) Vilberg Guðnason.

       Nýtt togskip komið til Hólmavíkur

Á fimmtudaginn var kom til Hólmavíkur nýtt togskip, 250 lestir að stærð. Er það eitt hinna 12 togskipa sem smíðuð eru fyrir Íslendinga í Austur Þýskalandi. Skipinu, sem heitir Steingrímur trölli, var vel fagnað bæði á Hólmavík og Drangsnesi, en það mun leggja upp afla sinn á þessum stöðum í framtíðinni.
Skipið kom til Hólmavíkur um miðjan dag á fimmtudag (17 september), en lagðist að bryggju klukkan 6. Var þar allmikill mannsöfnuður fyrir, og fagnaði oddviti Hólmavíkurhrepps, Hannes Sigurðsson, því með ræðu, en síðan var heimamönnum boðið um borð að skoða skipið. Daginn eftir var siglt til Drangsness, og var þar einnig samkoma um borð. Steingrímur trölli er 250 lestir að stærð, smíðaður í Stralsund í Austur-Þýzkalandi, og sams konar að öllum búnaði og hin austur- þýzku togskip sem áður eru komin til landsins. Eigandi skipsins er hlutafélagið Steingrímur, en helztu aðilar sem að því standa eru Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Hólmavíkurhreppur og Kaldrananeshreppur. Skipstjóri á Steingrími trölla er Guðmundur Halldórsson frá Bæ í Steingrímsfirði. Unnið er nú að því að búa skipið á veiðar, og fer það á veiðar í næstu viku.

Tíminn. 23 september 1959.

Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 2246
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 1202634
Samtals gestir: 83907
Tölur uppfærðar: 5.4.2025 13:05:44