19.03.2017 09:51

Björgunar og varðskipið Þór. LCJK.

Björgunar og varðskipið Þór var smíðaður hjá Edward Brothers í North Shields á Englandi árið 1899 fyrir Islands Handel & Fiskeri Akties í Kaupmannahöfn sem togari og hafði hann aðstöðu á Geirseyri í Patreksfirði. Hét þá Thor. 205 brl. 325 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 606. 36,39 x 6,68 x 3,45 m. Skipið var selt 1902, Dansk Damp Trawling Acties í Kaupmannahöfn. Selt árið 1903, danska landbúnaðarráðuneytinu sem notaði hann fyrir hafrannsóknarskip, sem var m.a. við hafrannsóknir hér við land í nokkur sumur. Á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar var hann í þjónustu dana sem varðskip í Danmörku. Skipið var selt haustið 1919, Björgunarfélagi Vestmannaeyja og kom skipið fyrst þangað 26 mars 1920. Fékk nafnið Þór. Skipið var selt 1 júlí 1926, Ríkissjóði Íslands og var í þjónustu Landhelgisgæslunnar frá stofnun hennar sama ár. Skipið strandaði á Sölvabakkaskerjum á Húnaflóa 21 desember árið 1929 og eyðilagðist. Áhöfnin, 17 menn og 1 farþegi björguðust á land og einnig um borð í Alliance togarann Hannes ráðherra RE 268 frá Reykjavík.

Björgunar og varðskipið Þór.                                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

   Björgunarfélag Vestmannaeyja

Rúm 10 ár eru liðin síðan Björgunarfjelag Vestmannaeyja var stofnað. Má með sanni segja, að í mikið mál og þarft hafi verið ráðist af Vestmannaeyingum, er þeir stofnuðu björgunarfjelag, með kaup á björgunarskipi fyrir augum. Munu margir hafa ætlað, þeir er ókunnugt voru málinu, að með kaupum björgunarskips myndu Vestmannaeyingar reisa sjer hurðarás um öxl og binda sjer þann bagga, er þeir síðar myndu sligast undir. En Vestmannaeyingar voru stórhuga og stóðu fast saman í þessu máli.  þeim var ljós nauðsynin. þeir þekktu manna best hin vondu veður þegar bátarnir voru í hættu staddir á sjónum, án þess að vitað væri á hvern hátt þeim yrði hjálpað. þegar bát vantaði var algengt, að annar bátur færi að leita hans. Oft var það þá svo, að þeir, sem nýkomnir voru úr hrakningum og með naumindum höfðu sloppið úr dauðans greipum, lögðu aftur út á hafið, til þess að leita að öðrum, sem saknað var og álitið var að myndi hjálpar þurfi.
Vestmannaeyingum var vel Ijóst hver vandræði voru, að þurfa hrekja menn þannig og hætta lífi þeirra, enda kom það fyrir, að slíkir leitarbátar sáust aldrei aftur, en fórust með allri áhöfn. það var ekki síst þess vegna, að Vestmannaeyngar lögðu kapp á, að eignast björgunarbát. En um leið og væntanlegum björgunarbát var ætlað að annast bjargráð, skyldi hann eftir föngum annast veiðafæragæslu og strandgæslu. Í fyrstu var hugmynd Björgunarfjelags Vestmannaeyja sú, að kaupa 50-60 smálesta (brúttó) björgunarbát, trjeskip með olíuvjel.  Gerði stjórn fjelagsins allt, sem í hennar valdi stóð til þess, að hraða málinu og útvega sjer upplýsingar um hvar kaupin myndu hagkvæmust. M. a. sendi fjelagið erindreka til Reykjavíkur og síðan til útlanda í þessu skyni. Áhugi manna á milli var mikll og lögðu menn eftir mætti í samskotasjóð til björgunarbátskaupanna. Safnaðist á þennan hátt stór upphæð, ekki aðeins hjer í Eyjum, heldur einnig út í frá, einkum meðal efnamanna í Reykjavík.


Björgunar og varðskipið Þór í slipp.                                                               (C) Þjóðminjasafnið.  

Bráðabirgðastjórn sú sem kosin var á almennum fundi 3. ág. 1918, til þess, að undirbúa og safna fje til kaupa á björgunarskipi fyrir Vestmannaeyjar annaðist málið mest í fyrstu. Stjórn þessa skipuðu þeir: Karl Einarsson, sýslumaður, form. stjórnarinnar, Jóh. þ. Jósefsson, Gísli Lárusson, þorsteinn Jónsson, Laufási og Árni Filippusson. Tóku þeir sjer síðar til aðstoðar Gísla J. Johnsen, konsúl og Sigurð Sigurðsson, lyfsala, sem síðar varð erindreki fjelagsins til skipakaupa. þann 17. sept. 1918 var kosin stjórn Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Kosnir voru þeir Karl Einarsson, Jóhann þ. Jósefsson, Sigurður Sigurðsson, Jón Hinriksson og Gísli Lárusson. Höfðu þeir síðan mest að gera með skipakaupin. Endirinn varð sá að E, Nielsen var falið fyrir hönd fjelagsins að festa kaup á gufuskipinu "Thor" sem áður hafði verið notað til hafrannsókna og síðar eftirlits.
Verð skipsins var ákveðið 150,000 krónur og að því var gengið. þannig var það, að hinn 26. mars 1920 kom fyrsta íslenska björgunarskipið, þór hingað, og eru því rjett 9 ár síðan næstk. þriðjudag. Skipstjóri Þórs var fyrstur Jóhann P. Jónsson lautinant, en síðar Friðrik Ólafsson, sem enn hefur þar skipstjórn á hendi. þótt þór hafi virst ætla að verða Vestmannaeyingum ofviða um tíma, því að frekur varð hann til fjársins, enda keyptur á dýrasta tíma og óhjákvæmileg afföll verðs, auk reksturskostnaðar, þá munu fæstir sjá eftir því, sem þeir hafa lagt í Björgunarfjelag Vestmannaeyja. það er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa orðið þessum bæ til blessunar og sóma í fortíð og nútíð og mun verða í framtíðinni. það er ekki tækifæri til þess nú, að rifja neitt ítarlega upp verk björgunarskipsins þórs. Auk þess sem þór hefur annast hjer björgunarstarfsemi, hefur hann einnig annast veiðarfæra gæslu til ómetanlegs gagns fyrir Eyjarnar og friðað landhelgina fyrir ágangi innlendra og erlendra veiðiþjófa.


Rannsóknarskipið Thor á Seyðisfirði árið 1903.                                      (C) Winge & Vedel Taning.  

Upprunalega styrkti ríkið B. V. til björgunarbátskaupa. Síðan hefur þór oft verið leigður landsstjórninni til landhelgisgæslu. Og með strandvarnarstarfsemi þórs var stigið stórt spor í áttina til þess, að íslendingar önnuðust landhelgisgæslu sína sjálfir, er tímar liðu fram. En nýverið keypti ríkið skipið og fá Vestmannaeyingar að hafa það hjer um vetrarvertíðina. Mörgum bátum hefur þór bjargað og hjálpað á ýmsann hátt. Marga togara hefur hann staðið að veiðiþjófnaði og aflað ríkissjóði þannig tekna. Gagn það sem orðið hefur af veiðarfæragæslu hans og friðun landhelginnar er ómetanlegt. þetta eru verk Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Ýmislegt fleira hefur það afrekað, sem ekki er rúm til þess að rekja að sinni. Fjelagið hefur verið heppið  með val á stjórn sinni, sem skipuð hefur verið ágætum og áhugasömum mönnum, sem allir hafa borið hag fjelagsins fyrir brjósti og unnið af alúð að velferðamálum þess. Auk þingmanns vors, Jóhanns þ. Jósefssonar, sem hefur reynst fjelaginu öruggur og hinn nýtasti fulltrúi, hefur einkum borið á dugnaði og fórnfýsi Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala, sem hefur að mörgu leyti verið fjelaginu sannkölluð hjálparhella. Sama má segja um val skipherra björgunarskipsins. það rúm hafa skipað nýtustumenn,er notið hafa trausts og virð- ingar fjelagsins og sjómanna vorra. Starf þeirra hefur verið farsælt og heillaríkt fyrir Vestmannaeyinga, sem munu líka kunna að meta það að verðleikum. það mun ósk allra Vestmannaeyinga, að heill og gæfa fylgi ætíð Björgunarfjelagi Vestmannaeyja í hinu góða og göfuga starfi þess.

Víðir. 23 mars 1929.


Björgunar og varðskipið Þór. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

  Varðskipið "Þór" strandaði í gærkveldi nálægt 
             Höskuldsstöðum á Skagaströnd

Kl. laust fyrir 9 í gærkvöldi barst sú fregn hingað til bæjarins, að varðskipið Þór væri strandað á Skagaströnd, nálægt Höskuldsstöðum,að því er menn hjeldu. Þór fór hjeðan með tvo menn úr kirkjumálanefndinni, þá Runólf á Kornsá og síra Jón Guðnason. Hafði hann komið með Runólf til Blönduóss í fyrradag. Var ferðinni síðan heitið vestur að Prestsbakka með síra Jón.
Í fyrrakvöld skall á ofsaveður í flóanum, og hefir Morgunblaðið ekki glöggar fregnir af ferðum skipsins í gær. En frjetst hefir, að skipstjóri hafi verið hættur við að flytja síra Jón vestur, og hafi verið áform hans að koma honum í land á Blönduósi, er veðrinu slotaði.  
Er loftskeyti barst hingað frá skipinu, var símastöðin lokuð á Blönduósi, og ómögulegt að fá símasamband þangað, eða til Skagastrandar. En loftskeytastöðin hjer hafði samband við skipið fram eftir kvöldinu, og eins heyrðist til Þórs á Borðeyri. Eftir því sem Morgunblaðið komst næst í gærkvöldi, voru skipverjar hinir rólegustu, og ljetu þess getið í skeytum, sem send voru frá skipinu, að þeir biðu í skipinu uns háfjara væri komin, en háfjara var kl. 1 í nótt. Var skipið komið svo nærri landi, að því er skilið varð, að skipverjar töldu eigi vandkvæði á, að komast klakklaust í land, er fjaraði út að fullu. Er skeyti hættu að heyrast frá skipinu, kl. að ganga 12, gátu menn hjer ekki vitað, hvort það kom til af því, að skipverjar hefðu yfirgefið skipið þetta fyrr en þeir í upphafi hugsuðu sjer, ellegar loftskeytatækin hefðu bilað. En ekki var til neins að bíða frekari fregna í nótt, því að útilokað var, að nokkuð frjettist, úr því loftskeytasamband hætti, fyrri en kl. 10 f. h. í dag, er síminn verður opnaður.
Skipstjórinn á Þór gaf ekkert upp um það í skeytunum, er hann sendi, hvernig slys þetta hefði borið að höndum, hvort einhver bilun hefði átt sjer stað í rúmsjó, og skipið því rekið á land undan veðri af þeim orsökum, ellegar annað hefði komið þar til greina. Engin skip voru á Húnaflóa í gærkvöldi, er til náðist, eða neinstaðar svo nálægt, að nokkur leið væri til þess að koma Þór til hjálpar. Telja má víst, að dagar Þórs sjeu taldir. Hann var byggður árið 1899 í North Shield í Englandi. Var byggður sem togari. Nokkru síðar seldur dönsku stjórninni, og notaður til hafrannsókna, sem kunnugt er, bæði hjer við land og víðar, uns Björgunarfjelag Vestmannaeyinga keypti hann árið 1920. Ríkissjóður keypti hann árið 1926. Stærð hans var 205 brutto tonn. Vjelin með 325 hestöflum. Hann var "klassaður" fyrir tveimur árum.

Morgunblaðið. 22 desember 1929.

Flettingar í dag: 909
Gestir í dag: 70
Flettingar í gær: 2218
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 1193529
Samtals gestir: 83745
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 20:46:06