20.03.2017 17:21

B. v. Keflvíkingur GK 197. TFWD.

Keflvíkingur GK 197 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948 fyrir Togarafélag Keflavíkur h/f í Keflavík. 657 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Frá árinu 1950 hét skipið Keflvíkingur KE 19. Skipið var selt 29 apríl 1956, Austfirðingi h/f á Eskifirði, hét Vöttur SU 103. Selt 1 nóvember 1960, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h/f, skipið hét Apríl GK 122. Skipið var selt til Grikklands og tekið af skrá 15 júlí árið 1965.


8. Keflvíkingur GK 197 við komuna til Keflavíkur 31 mars 1948.                   Ljósmyndari óþekktur.

          B. v. Keflvíkingur GK 197

Morguninn 31. mars skreið "Keflvíkingur" léttilega inn á Keflavíkina í fögru, heiðskýru veðri og spegilsléttum sæ, eftir aðeins tveggja sólarhringa og 20 tíma siglingu frá Aberdeen. Kl. 8,30 hægði það ferðina og heílsaði; og það varð ekki annað séð í lipurð þess og hreinum svip, en að það væri ánægt yfir því að vera komið í heimahöfn. Akkerum var varpað og beðið eftir tollgæzlumönnum og hafnsögumanni. Útgerðarnefndin hafði gert ráð fyrir að skipið legðist að hafnargarðinum kl. 2 e. h. og var svo gert. Víðast hvar var fólki gefið frí frá störfum, svo að það gæti fagnað komu togarans, enda var fjölmenni mikið, er skipið lagðist að garðinum. Í bænum blöktu fánar við hún á hverri flaggstöng og togarinn var fánum skrýddur stafnanna á milli.
Þegar ríkisstjórnin, fyrir þremur árum síðan, gaf einstaklingum og sveitarfélögum kost á því að eignast nýtízku botnvörpuskip með sérstaklega hagkvæmum kjörum, þá var með einróma samþykkt hreppsnefndar Keflavíkur ákveðið að óska eftir kaupum á einum af þeim togurum, er ríkisstjórnin hafði þá fest kaup á í Bretlandi. Framkvæmd þeirrar samþykktar sjáum við hér í daga, þar sem hinn glæsilegi togari Keflvíkingur, sem við nú fögnum, er hann í fyrsta sinn leggst að bryggju í Keflavík.  Keflvíkingur er smíðaður í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen í Skotlandi. Fyrir ári síðan var bygging hafin. Kjölur skipsins var lagður 17. mars 1946 og var skipinu hleypt af stokkunum 14. okt. s.l. og þá gefið nafnið Keflvíkingur. Reynsluför var farin 16. þ. m. og skipið afhent daginn eftir, 17. mars, eða ári síðar en kjölur þess var lagður. Keflvíkingur er að lengd 175 fet, breidd hans er 30 fet og dýpt 15 fet.


Keflvíkingur GK 197 við bryggju í Keflavík í fyrsta sinn.                         Ljósmyndari óþekktur.

Hann er talinn um 650 smálestir brúttó. Í reynsluför var ganghraði skipsins 14,06 sjómílur á klst. Skipið er mjög vandað að öllum frágangi og er það búið hinum fullkomnustu öryggistækjum, svo sem sjálfritandi dýptarmæli og radartæki. Eftirlit með smíði skipsins f. h. hreppsnefndar og útgerðarnefndar hafði skipstjóri þess, Halldór Gíslason og kom hann fram ýmsum breytingum til bóta.
Halldór Gíslason skipstjóri flutti Keflvíkingum árnaðaróskir með nýja skipið, og bauð síðan fólki að ganga um borð og skoða það. Á svipstundu urðu þiljur skipsins þéttskipaðar fólki. Ungir og gamlir eigendur skoðuðu ánægjulegir allt ofan dekks og neðan. Og þeir, sem áður höfðu einhvern kunnugleik af togurum og lífinu á þeim undruðust þær framfarir sem orðið höfðu. Til umbótar þeirri lýsingu, sem getur í ræðu oddvitans, má t. d. taka fram um íbúðir, að frammí eru íbúðir hásetanna, 4 herbergi. Niðri eru 3 herbergi með sex rúmum. Við hvert rúm er ljósastæði og hverju rúmi fylgir sérstakur klæðaskápur. Stígvélageymsla er í hverju herbergi og eitt borð. Þar er einnig olíukynt miðstöð fyrir alla hásetaíbúðina. Uppi er fjórða herbergið og er það með átta rúmum, annars svipað fyrirkomulag og niðri. Þar er borðsalur eða setustofa, hreinlætisklefi með steypibaði og handlaugum með heitu og köldu vatni. Salerni tvö, annað ætlað þeim sem eru að vinna á dekkinu, en hitt ætlað þeim sem eiga frí. Þá er þar stakkageymsla og geymsla fyrir ýmislegt smávegis. Sérstaklega góð loftræsting er um allt skipið, svo alltaf er hægt að hafa hreint og gott loft, hvar sem er í skipinu.


Keflvíkingur KE 19 við Faxagarð.                                                            Ljósmyndari óþekktur.
  
Afturí eru 9 íbúðarherbergi niðri, hvert fyrir einn eða tvo menn, eftir því hve hátt þeir eru settir. Þær eru eins og að líkum lætur íburðarmeiri í innréttingum, enda er þar verulega vistlegt. Í herbergi 1 stýrimanns gat að líta stóran sjúkraskáp, sem hefði getað sómt sér vel á farþegaskipi. Í herbergi 1. vélstjóra voru hinsvegar aflrauna gormar og skákborð, og mun hvortveggja vera persónulegt tillegg hans sjálfs, enda mun hann vera skákmaður góður, og reynst þeim skeinuhættur skákmeisturunum skozku, að sögn skipverja. Forstofa að öllum þessum vistarverum er jafnframt hreinlætisherbergi með handlaug og speglum. Uppi er eldhúsið, 2 borðsalir og 2 búr með góðum vinnuborðum, hreinlætisklefi með handlaugum og steypibaði, stakkageymsla, salerni og frystiklefi sem geyma má 14 kindaskrokka auk annara matvæla. Miðskipa býr svo loftskeytamaðurinn í loftskeytaklefanum og skipstjórinn hefur ljómandi laglega íbúð undir brúnni.
Uppi í brúnni er einnig korta og vinnuklefi skipstjóra.
Af þessari stuttu lýsingu, verður ljóst að meira er nú gert til að bæta aðbúnað sjómanna á þessu öðru heimili þeirra en nokkru sinni fyrr. Aðalvél skipsins er 1300 h.k. (hestöfl) gufuvél olíukynt.  Í vélarrúmi eru ennfremur 2 Rustan mótorvélar, sem framleiða rafurmagn 120 h.k. hvor vél. 1 Rustan ljósamótor 12 h.k., olíukynt miðstöð fyrir aftur og miðskipið. Um 20 smærri rafvélar eru svo víðsvegar um skipið. Dekkspilið er 300 h.k. gufuvél og stýrisvélar eru Hidroisk, sama tegund og er í stórskipinu Queen Mary. Fimm stórir oliugeymar koma í stað kolaboxa og rúma þeir ca. 6 vikna olíuforða handa vélum skipsins. Ef eldur kemur upp á "fýrplássi" og ekki hægt að komast að olíudælum, er hægt að loka fyrir olíurennslið ofan af þilfari og eins að hleypa inn sjó til að slökkva eld. Að sjálfsögðu er skipið búið öllum nýtízku siglingartækjum s.s. radar, miðunarstöð, bergmálsdýptarmælar, talstöð og viðtækjum í allar mannaíbúðir. Vel virðist vandað til allra hluta nema málningar sem virðist víða vera áfátt.
Gísli Jónsson verkfræðingur í Reykjavík, eða menn í hans umboði fylgdust með byggingu skipsins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.


Apríl GK 122 að utanverðu og Bjarni riddari GK 1 í Hafnarfjarðarhöfn. (C) Byggðasafn Hafnarfjarðar.
  
Hinsvegar var Halldór Gíslason skipstjóri fulltrúi hreppsnefndar Keflavíkur og útgerðarnefndar, við bygginguna, og gerði hann nokkrar tillögur til breytinga um innréttingu og fyrirkomulag, sem sumar hverjar voru teknar til greina, s.s. breytingu á innréttingu frammí, byggingu lýsisgeymis aftur á, sem komið hefir í ljós að er til stór bóta. Eins og áður getur var Keflvíkingur aðeins 2 sólarhringa og 20 tíma á leiðinni frá Aberdeen til Keflavíkur. Ganghraði var því að jafnaði 12 sjómílur á klukkustund. Gott leiði var alla leiðina, 4-5 vindstiga lens. Ekki er því hægt að segja um, að svo stöddu, hvernig hann er í sjó að leggja. Skipshöfnin sem sigldi skipinu heim var þessi:
Halldór Gíslason, skipstjóri. Bjarni Sigurðsson, 1. stýrimaður. Ólafur Björnsson, 2. stýrimaður. Jón Pétursson, 1. vélstjóri. Pétur Jónsson, 2. vélstjóri. Jón Jóhannsson aðstoðarmaður í vél. Jón Ingimundarson, spýssmaður (kindari). Freysteinn Jónsson, spýssmaður. Þorvaldur Magnússon, bátsmaður. Ólafur H. Þórarinsson, loftskeytamaður. Vilmar ísfeld, matsveinn. Hallgrímur Sigurðsson, netamaður. Sigfús Guðmundsson, netamaður. Stefán Pálsson, netamaður. Og munu þessir menn verða áfram á skipinu.
Einnig verða eftirtaldir menn fyrstu hásetar á Keflvíking:
Sigurður Friðriksson, Páll Daníelsson, Þorgils H. Sigurðsson, Benedikt Guðmundsson, Sigurður Valdimarsson, Karl Karlsson, Einar Hjálmtýsson, aðstoðarm., Haraldur Jónsson, Ólafur Helgason, Gunnar P. Guðjónsson, Halldór íbsen, Hafsteinn Jónasson, Hróbjartur Guðjónsson, Guðmundur Þorvaldsson, Jón Arinbjörnsson, Magnús Pálsson, Óskar Ólafsson og Ingiþór Jóhannsson. Að lokum skal þess getið að auk kveðju frá útvegsmálaráðherra og Nýbyggingarráði bárust heillaóskir frá Katli Ólafssyni Kalmannstjörn, Höfnum og Félagi Suðurnesjamanna í Reykjavík. Þá barst rausnarleg gjöf, vandaður sjónauki, frá hjónunum Sigríði Skúladóttur og Halldóri Fjalldal.

Faxi. 1 apríl 1948.

 Austfirðingar fögnuðu komu togarans Vattar í gær

 Þrjú byggðarlög standa að togarafélaginu  Austfirðingi,  sem á tvo togara

Togarinn Vöttur, SU 103, heimahöfn Búðir í Fáskrúðsfirði, sigldi fánum skrýddur inn á Fáskrúðsfjörð um kl. 8,30 í gærkyöldi og lagðist að bryggju. Var þorpið í hátíðabúningi í tilefni skipskomunnar. Mannfjöldi var á bryggjunni og fögnuðu menn þessari glæsilegu viðbót við fiskiflota Austfirðinga.
Vöttur er annar togarinn, sem útgerðarfélagið Austfirðingur eignast, hinn fyrri er "Austfirðingur". Vöttur hét áður Keflvíkingur, og seldu Keflvíkingar skipið. Annaðist ríkisstjórnin fyrirgreiðslu við skipskaupin.
Þegar skipið var lagst að bryggju flutti Jón Erlingur Guðmundsson sveitarstjóri ávarp. Árnaði hann skipi og skipshöfn heilla og bauð velkomið til heimahafnar. Árnaði byggðunum þremur, sem að útgerðinni standa, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Eskifirði, heilla í starfi og til hamingju með glæsilegt skip. Hann gat þess í ræðu sinni að þegar fulltrúar byggðanna þriggja mættu á síðasta aðalfundi félagsins Austfirðingur hefðu allir haft meðferðis að heiman frá sér tillögu um að félagið eignaðist annað skip.



Vöttur SU 103 á leið til Fáskrúðsfjarðar.                                                    (C) Vilberg Guðnason.  

Er sá draumur nú orðinn að veruleika. Í ræðu sinni rakti sveitarstjórinn aðdraganda þess, að unnt var að ráðast í skipakaupin, og kvað miklar vonir bundnar við útgerðina og þá afkomumöguleika fyrir fólkið, sem skipið hefði nú opnað. Að lokinni ræðu sveitarstjóra hrópaði mannfjöldinn ferfalt húrra fyrir skipi og skipstjóra, en hann er Steinn Jónsson, og er Fáskrúðsfirðingur að ætt. Hefur verið stýrimaður á Austfirðingi og skiþstjóri í forföllum, en tekur nú í fyrsta sinn við skipi.
Að Iokinni móttökuathöfninni á bryggjunni bauð hreppsnefndin til samsætis í barnaskólahúsinu og var það að hefjast er blaðið átti tal við fréttaritara sinn á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi.


Vöttur SU 103 í Reykjavíkurhöfn.                                                             (C) Snorri Snorrason.  

Var þar margt manna samankomið og vorhugur ríkjandi þótt kalt væri í veðri, norðangjóstur og hvítir fjallatindar. Þar voru mættir fulltrúar frá Reyðarfirði og Eskifirði. "Vöttur" heitir eftir fjallstindi á nesinu milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en þar undir stendur Vattarnes. Skipið hefur þegar veiðar og var búist við að það mundi láta úr höfn með morgni.

Tíminn. 25 maí 1956.

Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30