26.03.2017 13:57
B. v. Venus GK 519. LCKP / TFVC.
Nýr togari
kom hingað í gærkveldi, "Venus" að nafni. Skipstjóri er
Þórarinn Olgeirsson. Er hann aðaleigandi skipsins. Togarinn verður gerður út
frá Hafnarfirði.
Alþýðublaðið. 27 desember 1929.
Þórarinn
Olgeirsson, Venusarfélagið
og togarinn Venus GK 519
Hinn nýi togari, sem hlaut nafnið Venus, var fullbúinn í
desember 1929 og komu þá skipverjar mínir út til Grimsby til þess að sigla
honum með mér heim til Íslands. Aðeins vantaði mig 2 vélstjóra í hópinn til
þess að talan væri full, en hann var ráðinn heima í Reykjavík samstundis og kom
út til Grimsby með togaranum Apríl rétt áður en við lögðum af stað. Þessi maður
var Hannes Magnússon, sem síðan var á Venusi óslitið í 20 ár, lengst af 2
vélstjóri, en einnig 1 vélstjóri um tíma, einn hinna áræðanlegustu og
samviskusömustu sjómanna sem ég hef kynnst, nú látinn fyrir nokkrum árum.
Við komum heim til Hafnarfjarðar frá Grimsby á milli jóla og nýárs, en frá
Hafnarfirði var Venus gerður út fyrstu árin á vegum Belgaumsfélagsins. Var ég
skipstjóri á honum í fjögur ár, en síðan var Erlendur Sigurðsson, stýrimaður
minn, með hann skipstjóri um skeið.
Vilhjálmur Árnason verður svo skipstjóri á Venusi árið 1936. Hafði nú gerst það
sama og um Tryggva Ófeigsson áður, að nýtt félag er stofnað utan um Vilhjálm
sem skipstjóra og hluthafa. Þetta var Venusarfélagið. Loftur Bjarnason varð
þegar frá byrjun framkvæmdastjóri hins nýja félags.
Vilhjálmur Árnason hafði verið skipstjóri á togaranum Gylli frá því á árinu
1928 og þar til hann gerðist meðstofnandi Venusarfélagsins og tók við
skipstjórn á Venusi. Hann hefur jafnan verið afburða aflasæll og ötull
skipstjóri. Ég tel það mikið lán að hafa haft félag með þeim Lofti Bjarnasyni,
Tryggva Ófeigssyni og Vilhjálmi Árnasyni. Samvinna hefur alltaf verið góð milli
mín og þeirra. Venus var síðasta skipið sem ég sigldi sjálfur heim til Íslands.
Frá Hafnarfirði hefur það verið gert út óslitið frá því fyrsta að það tók þar
höfn, og fáir togarar eða engir hafa fært þeim bæ meiri auð.
Ferli hans lauk þannig, að hann bar beinin í þeirri sömu höfn og hann fyrst kom
að landi í. Hann rak í land einn ofviðrisdag, 30 nóvember 1956 í Hafnarfirði.
Hafði hann þá um hríð legið við festar þar á firðinum að loknu vel unnu starfi,
eftir að nýir og olíukynntir togarar höfðu tekið við af þeim kolakynntu og hin
svonefnda nýsköpun ruddi eldri háttum úr vegi í Íslenskri togaraútgerð.
Sókn á sæ og storð. Æviminningar Þórarins Olgeirssonar útg
1960.
Togarinn
Venus rekur á land
Hinn gamli togari Venus, sem legið hefur hér út á ytri
höfninni undanfarin ár, er horfinn af sjónarsviðinu. Í því mikla ofviðri, sem
hér geysaði um mánaðarmótin síðustu, rak togarann upp við vestari hafnargarðinn
og liggur hann nú þar. Venus var einn af stærstu og beztu togurunum í flota
gömlu skipanna. Var Vilhjálmur Árnason skipstjóri lengi með hann. Var Venus
jafnan hið mesta aflaskip.
Hamar. 15 desember 1956.