03.04.2017 11:42

L. v. Hafþór ÍS 453. LBNT / TFDG.

Línuveiðarinn Hafþór ÍS 453 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1922 fyrir J. McCann, hét Silene. 98 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 770. Seldur árið 1925, Magnúsi Thorberg útgerðarmanni á Ísafirði, fékk nafnið Hafþór ÍS 453. Skipið var selt 1 desember 1927, Georg Gíslasyni, Árna Þórarinssyni, Sigurjóni Högnasyni, Eyvindi Þórarinssyni, Guðmundi Helgasyni, Þórarni Bernódussyni og Júlíusi Jónssyni í Vestmannaeyjum, hét þar Venus VE 20. Selt 1933, Júlíusi Guðmundssyni og fl. á Þingeyri, hét Venus ÍS 160. Selt 1935, Guðmundi J Ásgeirssyni á Þingeyri, sama nafn og númer. Selt 1940, Pétri O Johnson og fl. í Reykjavík, skipið hét Reykjanes RE 94. Árið 1941 var skipið endurbyggt í Reykjavík, m.a. nýtt stýrishús og hvalbakur sett á skipið og ný vél, 232 ha. Allen díesel vél. Mældist þá 103 brl. Skipið sökk um 2 sjómílur út af Tjörnesi 24 júlí 1942. Áhöfnin, 18 menn, komust í nótabát og var þaðan bjargað um borð í línuveiðarann Ólaf Bjarnason MB 57 frá Akranesi.


Línuveiðarinn Hafþór ÍS 453.                                           Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


Hafþór ÍS 453 við bryggju (liggur yst) í Vestmannaeyjum 1927.                     (C) Sigfús M Johnsen.


Reykjanes RE 94 í Vestmannaeyjahöfn.                           Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu. 

 Línuveiðarinn Reykjanes sökk í fyrrinótt

                    Mannbjörg varð

Línuveiðarinn Reykjanes sökk á þrem mínútum í fyrrinótt, en mannbjörg varð. Er slysið vildi til var skipið á síldveiðum austan við Tjörnes. Var það orðið mjög fermt. Orsök slyssins er talin hafa verið sú, að annar nótabáturinn féll úr bátauglunum, en þá olli báturinn hinum megin því, að skipið kastaðist á hliðina og sökk á þrem mínútum. Öll áhöfn Reykjanessins að undanteknum vélamönnunum var í bátunum er slysið vildi til. En vélamennirnir komust á kjöl og var þeim bjargað þaðan. "Ólafur Bjarnason" flutti alla áhöfnina óskaddaða til Hjalteyrar í gærmorgun. Reykjanesið var gott skip, 103 brúttó-smálestir að stærð. Eigandi þess var Pétur Johnson.

Morgunblaðið. 26 júlí 1942.

Flettingar í dag: 1224
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 2965
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 1197964
Samtals gestir: 83841
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 07:57:19