05.04.2017 20:05
B. v. Ýmir GK 448. LCDP / TFKC.
Togaraútgerð
Hafnfirðinga.
Auk þeirra Hafnfirðinga, sem ráku útgerð í byrjun 20.
aldarinnar, koma nokkuð margir útlendingar við sögu, en þeir höfðu mikla
útgerðarstarfsemi hér fyrstu þrjá áratugi þessarar aldar. Fyrstu tilraunir, sem
gerðar voru með botnvörpu hér við land, voru gerðar af þýzkum manni árið 1889,
en Englendingar hófu hér veiðar með botnvörpum 1891. Frá Hafnarfirði er fyrst
gerð tilraun með botnvörpuveiðar af brezkum fiskikaupmanni, Pike Ward að nafni,
árið 1899, en togarinn nefndist "Utopia". Þessi útgerð stóð aðeins þetta
eina ár og varð Ward að hætta henni vegna ýmissa erfiðleika.
Erlendum togurum, knúnum gufuafli, fjölgaði nú við strendur landsins, og voru
þeir mjög fengsælir. íslendingar tóku brátt að gera tilraunir með útgerð
togara, en þær misheppnuðust flestar í byrjun. Þá var það árið 1904, að nokkrir
íslenzkir útvegsmenn og kaupmenn tóku sig saman og réðust til kaupa á litlum og
nokkuð gömlum enskum togara, sem bar nafnið "Coot". Þeir voru Arinbjörn
Ólafsson, Keflavík, Björn Kristjánsson, Reykjavík, Guðmundur Þórðarson, Gerðum,
Þórður Þórðarson, Reykjavík, Indriði Gottsveinsson, Reykjavík, sem varð
skipstjóri á Coot og Einar Þorgilsson, Óseyri, sem jafnframt varð
framkvæmdarstjóri fyrir félaginu.
Var þetta fyrsta íslenzka togaraútgerðin, sem heppnaðist og var Coot gerður út
frá Hafnarfirði. Útgerð þessi stóð nokkuð skammt, því Coot strandaði við
Keilisnes í desember 1907 og var þá að koma úr viðgerð í Reykjavík. Íslenzkir
togarar eru ekki gerðir út frá Hafnarfirði, frá því Coot ferst, þar til 1915.
Þá eru smíðaðir í Þýzkalandi tveir togarar, Ýmir og Víðir, sem voru eign
samnefndra hlutafélaga, en Ágúst Flygenring veitti því fyrra forstöðu, en
Þórarinn Böðvarsson því síðara. Með tilkomu þessara tveggja togara til
Hafnarfjarðar, hefst raunverulega innlend stórútgerð hér. Hefur innlend togara útgerð
verið rekin í Hafnarfirði stöðugt síðan 1915. Erlendir aðilar höfðu töluverða
togaraútgerð hér framan af þessari öld, þó með nokkrum hvíldum. Höfðu flestir
þeirra aðsetur í "Svendborg", en hinir síðustu hurfu héðan um 1929. Var
það firmað Hellyers Brothers Ltd., Hull, sem gerði út 6 togara frá Hafnarfirði
á árunum 1923-1929.
Hafnfirzkir útgerðarmenn juku á næstu árum botnvörpuskipastól sinn mjög mikið
og voru flestir gerðir út 12 íslenzkir togarar frá Hafnarfirði, en í dag eru
gerðir út 6, og eru það að sjálfsögðu allt nýsköpunartogarar. Árið 1931 hóf
Bæjarútgerð Hafnarfjarðar starfrækslu sína og festi kaup á togaranum Maí. Hefur
Bæjarútgerðin verið starfrækt síðan og gerir nú út 3 togara og 1 mótorbát.
Forstöðumaður Bæjarútgerðarinnar var ráðinn Ásgeir G. Stefánsson, og hefur hann
komið töluvert við sögu útvegsmála í Hafnarfirði síðan. Hafði hann áður haft
töluverð afskipti af vélbátaútgerð hér í bæ. Aðrir togarar sem gerðir eru út
frá Hafnarfirði í dag, eru Röðull, sem Venus h.f. gerir út, Surprise, sem Einar
Þorgilsson & Co. h.f. gerir út og Bjarni riddari, sem Hrafnaflóki h.f.
gerir út. Eftir síðari heimsstyrjöldina var allur skipastóll togaraútgerðarinnar
í Hafnarfirði endurnýjaður. Er nú svo komið, að engir af hinum gömlu togurum
eru gerðir hér út lengur. Fyrsti nýsköpunartogarinn, sem kom til Hafnarfjarðar,
var togarinn Bjarni riddari, er kom í september árið 1947.
Botnvörpuskipin "Kári Sölmundarson", GK. 153,
"Ari", GK. 238 og "Þorgeir skorargeir", GK. 448, eru til sölu. Hverju
skipi geta fylgt veiðarfæri og varahlutar, eins og bankinn hefir eignast með
skipunum. Til sölu er ennfremur stöð KÁRA-félagsins í Viðey, með bryggjum og
öllum áhöldum, eins og bankinn hefir eignast stöðina úr þrotabúi
Fiskveiðahlutafélagsins KÁRI. Tilboð í eignir þessar allar sameiginlega eða í
hvert skip og stöðina fyrir sig, sendist Útvegsbanka íslands h.f" Reykjavík,
fyrir 15. desember næstkomandi. - Reykjavík, 2. desember 1931. Útvegsbanki Íslands hf.