06.04.2017 13:54
2 m. kt. Toiler RE 97. LBHF.
Kútter Toiler
Akranes. 1 júní 1945.
Sigurður í
Görðum segir frá sjósókn í 60 ár
Árið 1896 var jeg með "Toiler". Þá urðum við síðbúnir í
miðsumarstúrinn sem venjulega var farinn til Vestur og Norðurlands. Þegar við
komum vestur í Ísafjarðardjúp, var þar allt fullt af ís. Urðum við að leggja
undan ísnum og lágum undir Rit. Þegar ísinn fór að lóna frá, fórum við út að
ísröndinni. Jakahröngl var kringum okkur. En aflinn gífurlegur. Þar var svo
mikið af síld, að sjórinn var eins og krap. Svo þjett var síldin í yfirborðinu,
að hún valt um hvað eftir annað og lá á hliðinni. Það var rjett eins og ekki
væri pláss fyrir hana í sjónum. Líklegt var, að ekki væri erfitt fyrir okkur að
ná þarna í beitu. Það gekk samt erfiðlega. Við settum út netstúf frá
skipsbátnum. Þegar helmingurinn af netinu var kominn í sjóinn, var hann fullur
af síld og ætlaði að sökkva.
Við gátum ekki innbyrt netið í bátinn, en komum
því við illan leik upp í skútuna. Við fyltum skipið af rígaþorski. Komum við
til Reykjavíkur allt að því mánuði á eftir öðrum. Þá varð Geir Zoega kátur.
Hann setti afla okkar í sjerstakan stafla í pakkhúsinu og leiddi þangað marga
til að skoða hve fiskurinn var vænn, og sagði: "Þetta veiddu þeir á
"Toiler" þegar aðrir voru komnir í land".
Morgunblaðið. 9 mars 1940.
Ræflafélagið
Ef til vill haldið þið, að þessi yfirskrift sé eintómt grín,
en svo er aldeilis ekki. Á þessum árum var beinlínis til félag í Reykjavík, sem
hét þessu óhrjálega nafni, og hér skal gerð nokkur grein fyrir þessu félagi,
því að það kemur Slippfélaginu beinlínis við. Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri,
var mikill framfara- og félagsmaður. Hann var í mörgum félögum, og víst lengst
af formaður þeirra flestra. Tryggvi var frumkvöðull að stofnun Ræflafélagsins
eins og margra annarra félaga, og hefur áreið- anlega ráðið nafni þess. Líklega
hefur honum fundizt það hæfilega tvírætt um, hvort heitið ætti að vera táknrænt
upp á félagsmennina, sem væru í því, eða tilganginn, sem félagið átti að þjóna.
Markmið félagsins var að kaupa ónýt skip eða lítt nothæf, eða strönduð,
skiparæfla til þess að gera við þau. Var þetta eingöngu eða aðallega gert til
að tryggja slippnum atvinnu, þann tíma, sem lítið eða ekkert væri til að gera.
Enda þótt þetta væri aðalmarkmiðið, töldu þeir réttara, að þetta væri sérstakt
félag, laust við slippinn sjálfan, svo að hann þyrfti ekki að leggja fé í þetta
eða bera af því ábyrgð, heldur hafa atvinnu af þvi að endurbyggja
"ræflana" eða gera við þá.
Toiler var eitt með elztu kútterunum, og eitt
þeirra ensku skipa, sem keypt voru hingað til lands. Ekki veit ég, hver fyrst
keypti þetta skip frá Englandi, en Geir Zoega átti það lengi. Nú kom að því, að
Toiler þurfti mikillar aðgerðar við. Kom Geir því að máli við Ellingsen og
biður hann að taka skipið á slippinn til viðgerðar. Var það gert og viðgerð
hafin. Hefur mér verið tjáð, en veit ekki frekari sönnur á að Toiler hafi verið
fyrsta skipið, sem fært var til hliðar á hinni nýju útaffærslubraut Ellingsens.
Þegar farið var að rífa skipið og gera við það, kom í ljós, að það þurfti
miklum mun meiri viðgerð en gert hafði verið ráð fyrir. Viðgerðin var komin
lítið á veg, þegar farið var í hana mikið fé, of mikið fé að dómi Geirs, en þó
miklu meira eftir. Geir leist þvi ekki á blikuna og bauðst til að selja
slippnum skipið í því ástandi, sem það væri, ef um gæti samizt. Ekki vildi
Ellingsen eða stjórn slippsins eiga neitt við þessi kaup. En eftir nokkrar
samninga umleitanir varð það að samkomulagi með Geir og Tryggva fyrir hönd
Ræflafélagsins, að það keypti skipið, þar sem það stæði, og var nú gert við það
á vegum Ræflafélagsins. Nokkru síðar keypti svo "Milljónafélagið" P. J.
Thorsteinsson & Co., skipið, og er eigandi þess í nóv. 1907. Toiler var
skrásettur frá Reykjavík, R. E. 97, var 66,24 smál. og var byggður 1876,
innfluttur frá Englandi í júní 1892. Líklega var Toiler seldur vestur á firði,
en mun hafa verið seldur til Færeyja 1919. Til gamans má segja frá því, að einu
sinni, og líklega oftar lét Tryggvi prenta og senda út þessu lík fundarboð til
félagsmanna:
"Fundur verður haldinn í Ræflafélaginu í
dag kl. 2. Runólfur Ólafsson í Mýrarhúsum er sérstaklega boðaður á fundinn. Tr
Gunnarsson." Líklega hafa a. m. k. þessir menn verið í Ræflafélaginu:
Tryggvi Gunnarsson, Runólfur Ólafsson, Jón í Melshúsum, Ásgeir Sigurðsson, Jes
Zimsen, Jón Norðmann og Jóhannes Jósefsson.
Slippfélagið í Reykjavík 50 ára.
Akranes 1 október 1953.