15.04.2017 11:38
L. v. Bjarnarey GK 12. LBGW / TFIG.
Missti
bátana, nætur og tunnur í brotsjó út af Horni
Þegar línuveiðarinn Bjarnarey frá Hafnarfirði var staddur út
af Horni í fyrrinótt á suðurleið af síldveiðum fyrir Norðurlandi, fékk hann á
sig mikinn brotsjó, svo að af tók davíða á báðum hliðum ásamt nótabátum, er í
þeim héngu, og fleira tjón varð á skipinu. Bjarnarey, sem er eign Bjarna
Gíslasonar útgerðarmanns í Hafnarfirði, var með allmikið af tómum tunnum
meðferðis, sumt ofan þilja, og átti skipið að fara með þær til Ólafsvíkur.
Þegar skipið var komið vestur á móts við Horn í fyrrakvöld var komið versta
veður, ofsarok á norðan og stórsjór. Fékk Bjarnarey þá aftan á sig geysimikinn
brotsjó, er reið alveg fram yfir skipið. Nótabátarnir héngu í davíðunum, og
voru nætur í þeim. Sleit báða bátana úr davíðunum og braut davíðurnar einnig.
Nokkrar fleiri skemmdir urðu, mastur
brotnaði og stýrishús laskaðist, og mikið af tunnum þeim, er á þiljum voru, tók
út. Í þessum hamförum mun einn skipverja hafa slasast nokkuð á fæti, en þó ekki
brotnað. Ekki fór teljandi sjór niður í skipið, og gat það haldið ferðinni
áfram og komst fyrir Horn. Hélt það síðdegis í gær inn til Þingeyrar til þess
að fá sér björgunarbát og láta gera að fótarmeiðsli skipverjans. Þaðan mun
skipið svo hafa haldið suður á leið í gærkveldi, því að ekki reyndist þörf á
því, að við skemmdir á skipinu væri gert, áður en það héldi suður.