15.04.2017 11:38

L. v. Bjarnarey GK 12. LBGW / TFIG.

Línuveiðarinn Bjarnarey GK 12 var smíðaður í Florvaag í Noregi árið 1902. Eik og fura. 95 brl. 130 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Bjarni J Fannberg á Ísafirði frá 16 júlí árið 1929, hét fyrst Ölver ÍS 1. Hét Sandoy og Herlö áður en hann kom til landsins. Í árslok árið 1931 keyptu Högni Gunnarsson í Bolungarvík og Torfi Halldórsson í Reykjavík (Torfi á Þorsteini RE 21) þriðjungshlut í bátnum. Skipið var selt haustið 1933, Bjarna Gíslasyni og fl. í Hafnarfirði, hét Bjarnarey GK 12. 17 desember 1934 er Bjarni Gíslason einn eigandi skipsins. Skipið var endurmælt árið 1939, mældist þá 105 brl. Gæti hafa verið endurbyggt eitthvað þá. Ný vél (1946) 240 ha. Lister díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 24 nóvember árið 1962.


Bjarnarey GK 12 á síldveiðum.                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Bjarnarey GK 12 á síldveiðum.                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Línuveiðarinn Ölver ÍS 12 nær á pollinum á Ísafirði árið 1932-33. Við hliðina á honum eru 3 af Samvinnufélagsbátunum, þeir eru, Vébjörn ÍS 14, Ísbjörn ÍS 15 og Auðbjörn ÍS 17. 
                                                                                                            (C) Haraldur Ólafsson. 

Línuveiðarinn Bjarnarey var á suðurleið af síld með tómar tunnur til Ólafsvíkur 

Missti bátana, nætur og tunnur í brotsjó út af Horni

Þegar línuveiðarinn Bjarnarey frá Hafnarfirði var staddur út af Horni í fyrrinótt á suðurleið af síldveiðum fyrir Norðurlandi, fékk hann á sig mikinn brotsjó, svo að af tók davíða á báðum hliðum ásamt nótabátum, er í þeim héngu, og fleira tjón varð á skipinu. Bjarnarey, sem er eign Bjarna Gíslasonar útgerðarmanns í Hafnarfirði, var með allmikið af tómum tunnum meðferðis, sumt ofan þilja, og átti skipið að fara með þær til Ólafsvíkur.
Þegar skipið var komið vestur á móts við Horn í fyrrakvöld var komið versta veður, ofsarok á norðan og stórsjór. Fékk Bjarnarey þá aftan á sig geysimikinn brotsjó, er reið alveg fram yfir skipið. Nótabátarnir héngu í davíðunum, og voru nætur í þeim. Sleit báða bátana úr davíðunum og braut davíðurnar einnig. Nokkrar fleiri  skemmdir urðu, mastur brotnaði og stýrishús laskaðist, og mikið af tunnum þeim, er á þiljum voru, tók út. Í þessum hamförum mun einn skipverja hafa slasast nokkuð á fæti, en þó ekki brotnað. Ekki fór teljandi sjór niður í skipið, og gat það haldið ferðinni áfram og komst fyrir Horn. Hélt það síðdegis í gær inn til Þingeyrar til þess að fá sér björgunarbát og láta gera að fótarmeiðsli skipverjans. Þaðan mun skipið svo hafa haldið suður á leið í gærkveldi, því að ekki reyndist þörf á því, að við skemmdir á skipinu væri gert, áður en það héldi suður.

Tíminn. 28 ágúst 1952.   
Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074672
Samtals gestir: 77515
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 21:24:47