18.04.2017 14:15

Á leið í Smuguna í Barentshafi á Barða NK.

Ég tók þessar myndir þegar við á Barða NK 120 vorum á leið í Smuguna í Barentshafi í nóvember árið 1993. Við lentum í vitlausu veðri þegar við vorum að nálgast Svalbarða, 10 til 11 vindstig af norðvestri og töluverð ísing. Lofthiti var -19°C og sjávarhiti örugglega undir frostmarki. Bakborðssíða skipsins var ein klakahella og hefur þykktin á ísnum verið sumstaðar á síðunni um 1 metri. Svo lagaðist sjólagið þegar nær kom ísbreiðunni. Ekki man ég eftir miklu fiskiríi í þessari Bjarmalandsferð. Mig minnir að það hafi farið stimpill í vélinni í þessum túr og ekki var gott að láta flatreka þarna innan um ísinn meðan viðgerð fór fram, því talsvert ísrek var á þessum slóðum. Það sem stóð uppúr í þessari ferð í svartasta skammdeginu þegar myrkur er nánast allann sólarhringinn á þessum slóðum, var að fylgjast með ísbjörnunum í sínum heimkynnum og sáum við þá stundum vera að gæða sér á sel sem þeir veiddu, á ísbreiðunni. Tilkomumikil sjón þær aðfarir. Ég á nokkrar myndir frá Smuguveiðunum, þá árið eftir þegar við vorum að veiða í salt. Set þær hér inn á síðuna á næstunni.


Á leið í Smuguna í nóvember 1993.                                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Verið að berja ís af skipinu.                                                                  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Um borð í Barða NK. Frá vinstri, síðuhöfundur, Þorsteinn Jóhannsson nú bátsmaður á Barða, Óðinn Sigurðsson og Theódór Elvar Haraldsson nú afleysingaskipstjóri á Blæng NK 125. 
                                                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1536. Barði NK 120 á útleið frá Neskaupstað. Barði var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1979. 497 brl. 2.350 ha. Wichmann díesel vél. Hét fyrst Júlíus Geirmundsson ÍS 270 og var gerður út af Gunnvör h/f á Ísafirði frá árinu 1979. Var seldur SVN í Neskaupstað 23 febrúar 1990. Barði NK var seldur til Namibíu árið 2002.   (C) SVN.

          Veður og ísing í Smugunni

Sókn íslenskra togara í Smuguna og á Svalbarðasvæðið hefur stóraukist í sumar og haust. Veiðar í Smugunni geta verið mikið hættuspil stóran hluta ársins. Þaðan er löng sigling í var þegar óveður geisa og ísing getur hlaðist á skipin á skömmum tíma. Í ofanálag ríkir nær samfellt heimskautamyrkur þarna norðurfrá frá því snemma í október og fram í marsmánuð.
Flestir ef ekki allir íslendingar, sem nærri fiskveiðum og útgerð hafa komið, hafa heyrt getið hins hörmulega slyss á Nýfundalandsmiðum í febrúar 1959 þegar togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn. Sex aðrir íslenskir togarar sluppu við illan leik eftir margra klukkustunda ísbarning í miklu illviðri. Óhug sló að íslensku þjóðinni eftir atburð þennan og má segja að úthafsveiðar hafi í kjölfarið að mestu lagst af, a.m.k. yfir vetrartímann. Síðan þá hefur heil kynslóð af íslenskum sjómönnum og skipstjómendum vaxið úr grasi. Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík, ritaði í desemberhefti Ægis á sl. ári þarfa ádrepu þar sem hann minnti á hætturnar sem veiðar í ísköldum vetrarsjó geta haft í för með sér. Í grein hans kom fram að síðasta alvarlega sjóslysið hér við land, sem beinlínis er rakið til yfirísingar, hafi verið í febrúar 1968. Þá fórust 18 Bretar og 6 íslendingar í Ísafjarðardjúpi. Vestfjarðamið standast þó engan veginn samanburð við Smuguna í miðju Barentshafinu hvað ísingarhættu áhrærir. Því veldur að mestu mikill sjávarkuldi og langvarandi frosthörkur á Smuguslóðum.
Í fyrra lentu nokkrir íslenskir togarar í vandræðum í Smugunni vegna ísingar sem hlóðst á skipin. Þau voru stödd rétt sunnan 76. breiddarbaugsins í byrjun nóvember, nærri ísjaðrinum. Þá gerði norðan hvell, um 10 vindstig. Frost var -18°C og sjávarhiti -1,7°C. Við þessar aðstæður getur ísing hlaðist mjög hratt á skipin. Við svipaðar aðstæður á Íslandsmiðum er siglt í hlýrri sjó, en best er auðvitað að komast í var. Á umræddum slóðum var slíkt ekki gerlegt þar sem margra klst. sigling var í hlýrri sjó og ekki minna en 200 sjómílur í land. Eina ráðið sem skipstjórar áttu völ á var hreinlega að sigla alveg upp að ísjaðrinum og skýla sér þannig fyrir sælöðrinu. Því fer þó víðsfjarri að með þeirri aðgerð hafi allri hættu verið bægt frá, ísinn var á miklu reki og myrkrið gerði mönnum erfitt fyrir. Skipin gátu við þessar aðstæður hæglega lokast inni í ísbreiðunni, en til allrar blessunar komust bæði skip og áhafnir heilar til hafnar eftir baráttuna við óblíð náttúruöfl norður við sjálft íshafið.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1994.

Brot úr Grein Einars Sveinbjörnssonar
veðurfræðings um veður og ísingu
í Smugunni í Barentshafi.


             Gullgröftur í Smugunni

Stór hluti íslenska togaraflotans stundar nú veiðar í Smugunni í Barentshafí og þar eru 700-800 íslenskir sjómenn að störfum. Helgi Bjarnason segir frá lífínu þar norður frá en hann sigldi með togaranum Runólfi í Smuguna, fór á milli skipa til að spjalla við sjómenn og síðan með varðskipinu Óðni í land í Hammerfest.
Lífíð í íslendinganýlendunni í Smugunni einkennist af mikilli vinnu í aflahrotunum, sumir gætu sagt þrældómi. Þá standa menn frívaktir eins og þörf er á og þeir geta, til að bjarga verðmætunum sem komin eru um borð. Sjómennirnir voru orðnir ansi þreyttir eftir tólf sólarhringa góða veiði. Veiðarnar á þessu hafsvæði sem enginn á og enginn stjórnar einkennast að sumu leyti af gullgrafarahugsunarhætti. Umgengnin um auðlindina er í sumum tilvikum sjálfsagt ekki til fyrirmyndar og sjómennirnir sjálfir töluðu oft um það að nauðsynlegt væri að ná samningum við Norðmenn þannig að veiðarnar gætu farið fram undir eðlilegri stjórn.
Mjög góð samvinna virðist vera meðal skipstjóranna í Smugunni, mun betri en á heimamiðum segja menn. Þeir veita hverjir öðrum upplýsingar í gegn um talstöðina. Mikið er spurt um það hvernig fiskurinn gangi inn í veiðarfærin, hvar flotvarpan sé í sjónum og hvað holið hafi gert. Til þess að reyna að rugla norsku strandgæslumennina sem vafalaust hlusta á talstöðina gefa þeir aflann upp í nafnakvóta þar sem hver ráðherra merkir ákveðinn tonnafjölda og síðan er spilað út frá því. Það er hins vegar spurning hvort Norðmennirnir hafi ekki fyrir löngu komið sér upp lykli að þessu einfalda dulmáli. Skipin hafa mikið veitt við norsku línuna og stundum teygt sig aðeins innfyrir eða lent í því óvart. Yfirleitt voru þarna eitt eða tvo norsk varðskip á sífelldri siglingu með línunni og að sópa mönnum yfir ef þess gerðist þörf. Yfirleitt fór þetta fram í vinsemd, báðir aðilar virtust hafa skilning á stöðu hvors annars. Það var helst ef einhver skipstjórinn ætlaði að fara að deila við strandgæsluna um línuna að þeir byrstu sig og skipuðu mönnum að hafa sig yfir á stundinni. Stundum þurftu þeir að gefa gula spjaldið og þá fóru menn ekki eins innarlega næst. Menn fengu greiðlega upplýsingar hjá strandgæsluskipunum og virtust fá jákvæða afgreiðslu ef þeir spurðu fyrirfram um það hvernig þeir ættu að haga sér þegar þeir þurftu að fara innfyrir við ákveðnar aðstæður. Það var því ekkert stríðsástand í Smugunni þann tíma sem ég var þar.
Þegar veiðin minnkaði aftur síðastliðinn mánudag fengu sjómennirnir aftur sex tíma hvíld eftir hverja sex tíma vakt. Og þá gafst tími til að þrífa skipin aðeins en þau voru orðin ansi sjúskuð eftir törnina. Þegar rólegra er fara menn gjarnan í kaffi í önnur skip og til að skiptast á myndböndum. Það er tilbreyting frá lífinu um borð þar sem myndböndin stytta mönnum helst stundirnar. Á sumum skipum er spilað og teflt en menn segja að það hafi minnkað. Aðstaðan um borð í skipunum er ákaflega misjöfn. í flaggskipi flotans, Baldvini Þorsteinssyni EA, er hún til dæmis til fyrirmyndar. Góðar setustofur og hreinlætisaðstaða. Gufubað, heilsurækt og nuddpottur. Kokkarnir láta ekki sitt eftir liggja við að láta mönnum líða sem best, það er sunnudagsmatur oft í viku hjá mörgum þeirra, enda sagði einn kokkurinn að strákunum veitti ekki af orkunni í öllu þessu puði. Stímið í Smuguna og heim tekur fjóra til fimm sólarhringa hvora leið þar sem stundum sést hvorki land né skip heilu dagana og sjófuglarnir eina lífið sem vart verður við. Menn þurfa misjafnlega mikið að vinna þennan tíma. Stundum eru 18 tímar milli vakta og nefndu menn dæmi um menn sem svæfu allan þann tíma.
Menn leggja þetta á sig fyrir hlutinn sem getur verið góður. Frystitogararnir voru að framleiða afurðir fyrir 4-5 milljónir á sólarhring dögum saman þegar veiðin var góð. Það skilaði hásetunum 50 þúsund krónum á dag. Kaupið er mun minna aðra daga og ekkert þegar skipið er á siglingu út og heim og ekkert þegar menn taka sér frí í landi sem gjarnan er þriðja hvern túr. Aflahlutur háseta getur verið nálægt 800 þúsund krónum fyrir liðlega mánaðartúr þegar skip kemur heim með þorskflök að verðmæti 70-80 milljónir kr. Stærstu skipin gera væntanlega enn stærri túra í Smuguna, eru þá lengur að, og getur túrinn fært mönnum eitthvað á aðra milljón. Sjómennirnir fórna miklu fyrir þessar tekjur, eins og fram kom í samtali við einn þeirra hér í blaðinu, þeir missa af fjölskyldulífi og frí- stundastörfum. Einn nefndi það sem orsök mikilla fjarvista að það væri opinbert leyndarmál að hjónaskilnaðir væru fleiri á frystitogurunum en öðrum skipum. Þessar áætluðu tölur um tekjur eiga aðeins við um frystiskipin þegar vel gengur. Í Smugunni eru einnig ísfisktogarar og togarar sem salta aflann um borð.
Ísfisktogararnir þurfa að hitta á góðan afla, geta ekki verið nema nokkra daga að veiðum og fer meirihluti tímans í siglingu. Hásetarnir eru ánægðir ef þetta gengur upp en þekkja það margir hvað það þýðir að fara ónýta túra í Smuguna. Ekki eru öll skipin að gera það gott þó fréttir berist af góðum afla í Smugunni. Það fer eftir búnaði skipanna og svo auðvitað kallinum í brúnni hvað veiðist. Þeir einir nutu aflahrotunnar á dögunum sem höfðu flottroll. Nokkur skip voru aðeins með botntroll og þegar þau fóru á flottrollssvæðið þar sem þorskurinn veiddist á línunni milli Smugunnar og 200 mílna fiskveiðilögsögu Noregs fylltust troll þeirra af hausum, roði, beinum og dauðum fiski úr hinum skipunum.
Ekkert eftirlit er með veiðunum þarna norður frá. Óðinn átti reyndar að mæla möskva og fisk en hefur lítið komist í það vegna þjónustu við skipin, einkanlega við slasaða og veika sjómenn sem komið hefur í ljós að sannarlega var þörf á og menn eru þakklátir fyrir.
Það leikur einnig vafi á því hvaða heimild varðskipsmenn hafa til að skipta sér af veiðum á þessu alþjóðlega hafsvæði. Það hendir enginn smáfiski sem spurður er um það, hvorki á Íslandsmiðum né í Smugunni, en sjómenn telja að á öðrum skipum sé verið að henda stærri fiski í Smugunni en heima. Þá er vafamál að stóru hölin sem menn voru að fá, margir tugir tonna, hafi nýst nema að hluta því fiskurinn þarna er lélegri en menn eiga að venjast heima og var farinn að skemmast eftir nokkra klukkutíma. Gullgrafarahugsunarhátturinn virðist ráðandi hjá sumum á meðan aðrir sjómenn ganga með sanni vel um auðlindina. Umræður um þessar stjórnlausu veiðar koma oft upp í spjalli við sjómennina. Gjarnan á þeim nótunum að þeim þætti þetta ástand ekki til fyrirmyndar en á meðan ekki næðust samningar við Norðmenn um kvóta fyrir íslendinga þarna væri ekkert við því að gera. Töldu margir að þessi mikli afli íslendinga í sumar og haust myndi knýja Norðmenn að samningaborðinu.

Morgunblaðið. 11 september 1994.

Flettingar í dag: 309
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074687
Samtals gestir: 77518
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 21:46:59