19.04.2017 14:18
784. Reykjanes GK 50. TFQE.
Nýr bátur
frá Dröfn í Hafnarfirði
Smíði þriðja
bátsins á þessu ári er nú í undirbúningi
Báturinn er smíðaður úr eik með 180 hestafla Lister dieselvél, er hann búinn öllum beztu tækjum sem völ er á. Reynsluferð var farin 7 þ.m., var ganghraði 9 mílur og reyndust bátur og vél mjög vel. Eigandi er Íshús Hafnarfjarðar h.f. Skipstjóri er Guðmundur Á. Guðmundsson. Þetta er 8. báturinn sem skipasmíðastöðin Dröfn h.f. hefur byggt og annar báturinn sem afhentur er á þessu ári og undirþúningur er hafinn að smíði þess þriðja. Smíði þessa báts var hafin í okt. 1953 og hefur því staðið yfir í 1 ár. Teikningar gerði Egill Þorfinnsson, yfirsmiður var Guðjón Einarsson skipasmíðameistari, niðursetningu á vél og alla járnsmíði annaðist Vélsmiðja Hafnarfjarðar h.f. undir yfirstjórn Magnúsar Kristjánssonar vélvirkjameistara. Raflögn framkvæmdi Þorvaldur Sigurðsson og Jón Guðmundsson rafvirkjameistarar, málun Sigurjón Vilhjálmsson málarameistari, reiðar og segl gerði af Sören Valentínussyni, dýptarmæli setti niður Friðrik Jónsson útvarpsvirkjameistari, dekk og línuvinda var smíðuð í Héðni.
Þjóðviljinn 14 nóvember 1954.
Eldur í báti
norður af Skaga
Þremur
mönnum bjargað
Eldur kom upp í Litlanesi ÍS- 608 að kvöldi laugardags þar
sem báturinn var að veiðum um 50 sjómílur norður af Skaga. Ahöfninni, þremur
mönnum, var bjargað um borð í Ingimund gamla frá Blönduósi og siglt með þá til
Skagastrandar, en Litlanes sökk um sjöleytið að morgni sunnudags. Litlanes var
tæplega 60 tonna eikarbátur, smíðaður í Hafnarfirði árið 1954.
Ekki er ljóst
hvers vegna eldur kom upp í bátnum, en sjópróf munu fara fram á Ísafirði á
næstunni. Að sögn Guðna Ólafssonar, skipstjóra á Ingimundi gamla, sem bjargaði
bátsverjum, voru mennirnir ómeiddir þegar þeir komu um borð í Ingimund, en þeir
á Ingimundi voru staddir skammt frá Litlanesinu þegar þeir sáu reyk leggja frá
bátnum. Guðni segir að gott hafi verið í sjóinn svo vel hafi gengið að ná mönnunum
þremur um borð úr björgunarbátnum, en siglt var með þá til hafnar á Skagaströnd
og þangað var komið um klukkan tíu á sunnudagsmorgun.
Dagur 19 maí 1992.