19.04.2017 14:18

784. Reykjanes GK 50. TFQE.

Reykjanes GK 50 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1954 fyrir Íshús Hafnarfjarðar h/f í Hafnarfirði. Eik. 56 brl. 180 ha. Lister díesel vél. Seldur 23 febrúar 1963, Braga Einarssyni í Garði, hét Stafnes GK 274. Seldur 17 janúar 1966, Sigurði B Magnússyni og Kristmanni Hjálmarssyni í Keflavík. Ný vél (1969) 360 ha. Caterpillar díesel vél. 10 desember 1969 voru eigendur bátsins Sigurður B Magnússon, Jóhannes Sigurðsson og Magnús Sigurðsson í Keflavík, hét þá Stafnes KE 38. Báturinn var seldur 15 desember 1978, Fiskverkun Jóhannesar og Helga h/f á Dalvík, hét Stafnes EA 14. Seldur 14 nóvember 1980, Hafliða h/f í Þorlákshöfn, hét Hafliði ÁR 20. Seldur 9 nóvember 1981, Hafsteini Sigmundssyni í Þorlákshöfn, hét Sigmundur ÁR 20. Seldur 28 mars 1984, Sigurði Helgasyni og Ásberg Lárenzínussyni í Þorlákshöfn, hét Helgi Jónasson ÁR 20. Seldur 23 janúar 1985, Felli h/f í Þorlákshöfn, hét Helguvík ÁR 20. 4 febrúar 1988 fór fram nafnbreyting á bátnum, hét Narfi ÁR 20, sömu eigendur. Seldur 10 desember 1988, Tanga h/f í Þorlákshöfn, hét Narfi ÁR 13. Seldur 12 desember 1990, Fáfni h/f á Þingeyri, hét Litlanes ÍS 608. Seldur 20 desember 1991, Hólmgrími S Sigvaldasyni og Garðari J Grétarssyni á Þingeyri, sama nafn og númer. Báturinn brann og sökk um 50 sjómílur út af Skaga. Áhöfnin, 3 mönnum var bjargað um borð í Ingimund gamla frá Blönduósi.


Reykjanes GK 50 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Reykjanes GK 50.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

         Nýr bátur frá Dröfn í Hafnarfirði

  Smíði þriðja bátsins á þessu ári er nú í undirbúningi

Nýr bátur hljóp af stokkunum 29. f.m. hjá skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði. Er þessi nýi bátur 56 rúmlestir og var honum gefið nafnið Reykjanes.
Báturinn er smíðaður úr eik með 180 hestafla Lister dieselvél, er hann búinn öllum beztu tækjum sem völ er á. Reynsluferð var farin 7 þ.m., var ganghraði 9 mílur og reyndust bátur og vél mjög vel. Eigandi er Íshús Hafnarfjarðar h.f. Skipstjóri er Guðmundur Á. Guðmundsson. Þetta er 8. báturinn sem skipasmíðastöðin Dröfn h.f. hefur byggt og annar báturinn sem afhentur er á þessu ári og undirþúningur er hafinn að smíði þess þriðja. Smíði þessa báts var hafin í okt. 1953 og hefur því staðið yfir í 1 ár. Teikningar gerði Egill Þorfinnsson, yfirsmiður var Guðjón Einarsson skipasmíðameistari, niðursetningu á vél og alla járnsmíði annaðist Vélsmiðja Hafnarfjarðar h.f. undir yfirstjórn Magnúsar Kristjánssonar vélvirkjameistara. Raflögn framkvæmdi Þorvaldur Sigurðsson og Jón Guðmundsson rafvirkjameistarar, málun Sigurjón Vilhjálmsson málarameistari, reiðar og segl gerði af Sören Valentínussyni, dýptarmæli setti niður Friðrik Jónsson útvarpsvirkjameistari, dekk og línuvinda var smíðuð í Héðni.

Þjóðviljinn 14 nóvember 1954.

            Eldur í báti norður af Skaga

                Þremur mönnum bjargað

Eldur kom upp í Litlanesi ÍS- 608 að kvöldi laugardags þar sem báturinn var að veiðum um 50 sjómílur norður af Skaga. Ahöfninni, þremur mönnum, var bjargað um borð í Ingimund gamla frá Blönduósi og siglt með þá til Skagastrandar, en Litlanes sökk um sjöleytið að morgni sunnudags. Litlanes var tæplega 60 tonna eikarbátur, smíðaður í Hafnarfirði árið 1954.
Ekki er ljóst hvers vegna eldur kom upp í bátnum, en sjópróf munu fara fram á Ísafirði á næstunni. Að sögn Guðna Ólafssonar, skipstjóra á Ingimundi gamla, sem bjargaði bátsverjum, voru mennirnir ómeiddir þegar þeir komu um borð í Ingimund, en þeir á Ingimundi voru staddir skammt frá Litlanesinu þegar þeir sáu reyk leggja frá bátnum. Guðni segir að gott hafi verið í sjóinn svo vel hafi gengið að ná mönnunum þremur um borð úr björgunarbátnum, en siglt var með þá til hafnar á Skagaströnd og þangað var komið um klukkan tíu á sunnudagsmorgun.

Dagur 19 maí 1992.

Flettingar í dag: 371
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074749
Samtals gestir: 77528
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:30:22