20.04.2017 11:19

430. Freyr NK 16.

Freyr NK 16 var smíðaður á Akureyri af Bjarna Einarssyni skipasmið árið 1919 fyrir Sigfús Sveinsson kaupmann og útgerðarmann á Nesi í Norðfirði. 15 brl. 4 ha. Stabil vél. Hét fyrst Freyr SU 413 en fær skráninguna NK 16 þegar Neskaupstaður fær kaupstaðarréttindi árið 1929. Ný vél (1931) 28 ha. Alpha vél. Báturinn var seldur 22 febrúar 1934, Sigurði Hinrikssyni í Neskaupstað, sama nafn og númer og bar báturinn alla tíð það nafn. Ný vél (1945) 66 ha. Kelvin vél. Seldur 18 júlí 1948, Aðalsteini Halldórssyni í Neskaupstað. Seldur 7 júlí 1949, Páli Þorsteinssyni og fl. í Neskaupstað. 11 nóvember árið 1955 slitnaði Freyr úr bóli sínu í norðvestan fárviðri og rak á land á Neseyrinni og skemmdist mikið. Báturinn náðist fljótlega á flot og var gerður upp. Seldur 16 júní 1966, Páli Tómassyni og Ásgeiri Bergssyni í Neskaupstað. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 24 október árið 1968.


Freyr NK 16 í fjörunni á Neseyrinni 12 nóvember árið 1955.                               (C) Björn Björnsson.


Freyr NK 16.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                 Freyr SU 413

Sumarið 1920 fer Sigurður Jónsson skipstjóri á Norðfirði til Akureyrar að sækja nýjan bát fyrir Sigfús kaupmann Sveinsson á Norðfirði. Sá bátur var nefndur Freyr SU 413, en eftir að Norðfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1929, var hann skráður Freyr NK 16. Freyr var 15 tonna eikarbátur. Sigurður var formaður með hann í 10 ár eða þar til 1930, að hann tekur við formennsku á nýjum bát, er Sigfús kaupmaður lét smíða á Norðfirði 1930, og nefndist Fylkir NK 46, og var 22 tonn.

Sjómannablaðið Víkingur 1 janúar 1971.

      Tvo báta rak á land á Norðfirði

Norðvestan hvassviðri gerði  hér í nótt og rak tvo báta á land. Hafbjörgu, sem er 28 lesta bátur, rak upp inni á strönd og tókst jarðýtu að koma henni á flot í morgun og mun hún lítið skemmd. Freyr, sem er 15 lesta bátur, rak á land á vestanverðri eyrinni, þar sem fjaran er stórgrýtt og mun báturinn mikið  brotinn. Ekki hefur enn verið hægt að reyna að koma honum á flot vegna hvassviðris og heldur báturinn áfram að brotna.

Þjóðviljinn 13 nóvember 1955.

Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074734
Samtals gestir: 77525
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:08:49