22.04.2017 15:56

172. Rifsnes RE 272. LBFW / TFZE.

Línuveiðarinn Rifsnes RE 272 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1891 fyrir William J Cook og fl. í Hull, hét Heron H 135. Járn. 145 brl. 220 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 77. Skipið var selt 1 ágúst 1895, St. Andrews Steam Fishing Co Ltd í Hull, sama nafn og númer. Skipið var selt árið 1898, F.W. Jacobs í Geestemunde í Þýskalandi, hét Anna PG 76. Selt 1909, Kohlenberg & Putz Seefischerei A.G. í Þýskalandi (Geestemunde), hét Loki PG 76. Skipið var selt árið 1913, T. Bakkevik & Son í Haugasundi í Noregi, hét þar Magne. Skipið var selt 7 júní 1923, Henrik Andréas Dyrdahl Henriksen á Siglufirði, fékk þar nafnið Rifsnes SI 16. Skipið var selt 26 júní 1926, Sigurði Jónssyni Görðum og Símoni Sveinbjarnarsyni í Reykjavík, skipið hét þar Rifsnes RE 272. Frá 24 febrúar 1931 var Símon einn eigandi skipsins. Selt 20 maí 1937, Hafsteini Bergþórssyni í Reykjavík, sama dag virðist Rifsnes h/f í Reykjavík vera orðinn eigandi skipsins. Árið 1942 var skipið mikið endurbyggt og ný vél, 330 ha. Lister díesel vél sett í skipið, mældist þá 158 brl. Skipið var selt 26 nóvember 1955, Ísbirninum h/f í Reykjavík, sama nafn og númer. Ný vél (1956) 480 ha. Lister díesel vél. Skipið sökk um 30 sjómílur út af Bjarnarey 12 september árið 1965. Áhöfnin, 11 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í síldveiðiskipið Jón Kjartansson SU 111 frá Eskifirði.

Rifsnes RE 272 við bryggju í Djúpavík.                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Rifsnes RE 272 á síldarmiðunum.                                                       (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


Rifsnes RE 272 eftir endurbæturnar árið 1942.                                           Ljósmyndari óþekktur.


Rifsnes RE 272. Teikning.                                                                               Teiknari óþekktur.

                Vélskipið Rifsnes

Snemma í vetur var lokið við mikla viðgerð og breytingar á línuveiðaranum Rifsnes, en hann var upphaflega smíðaður í Englandi 1891. Hingað til lands var skipið keypt af H. A. D. Hendriksen útgerðarmanni á Siglufirði, og nefndi hann það því nafni, er það enn ber. Árið 1926 keypti Sigurður Jónsson í Görðum Rifsnesið, en núverandi eigandi þess er h. f. Rifsnes í Reykjavík, en framkvæmdarstjóri þess er Hafsteinn Bergþórsson. Við þær breytingar, sem gerðar voru á skipinu, stækkaði það um 12,93 rúml. brúttó og er stærð þess nú 157,71 brúttó rúmlestir. Í stað gufuvélarinnar, sem fyrir var, var sett 320 hestafla Blackstone R. A. Lister Diésél vél. Á sólarhring eyðir hún um 1300 kg af olíu, með 580 snúningum á mínútu og 300 ha. Olíugeymar rúma 16 smál. Auk aðalvélarinnar, er ein hjálparvél, 18 hestafla Lister Diesel vél, sem rekur rafal og sjó og loftdælur. Fyrir framan brúna er spil, sem bæði er tog og akkersvinda. Í lúkar eru lokrekkjur fyrir 12 menn, en 6 í káetu.

Ægir. 1 maí 1943.

 Eitt elzta síldarskipið sökk við Bjarnarey

           Lagðist 4 sinnum á hliðina

Síldveiðiskipið Rifsnes RE 272 sökk við Bjarnarey á sunnudagsmorgun, er það var á leið inn með 1700 tunnur af síld af miðunum. Skipverjar, 11 talsins, komust í gúmmíbátana og var bjargað af síldveiðiskipinu Jóni Kjartanssyni SU III, sem fór með þá til Seyðisfjarðar. Austan stekkingur var og 4 vindstig er skipið sökk. Rifsnesið var eitt af elztu skipunum í flotanum, 158 lesta stálskip frá Noregi og byggt 1891. Það var eign Ísbjarnarins h.f. Mbl. átti símtal við sikipstjórann á Rifsnesinu, Ibsen Angantýsson, eftir að hann kom til Seyðisfjarðar um kl. 5.30 á sunnudag, og fékk hjá honum fregnir af því hvernig þetta hefði gerst. Það var kl. 8.30 um morguninn, er skipið var um 32 sjómílur frá Bjarnarey með fullfermi, um 1700-1800 tunnur, að það lagðist á bakborðshliðina. Um 250 tunnur voru á dekki og vel breytt yfir. Sjór fossaði inn á þilfarið og á gangana og yfirbreiðslur tóku að rifna. Þá lagðist skipið á bakborðshliðina og síðan aftur á stjórnborða og bakborða, sagði Ibsen, en okkur tókst að keyra upp úr þessu fjórum sinnum. Þá var sjórinn kominn niður í lestina og þar fór að springa upp. Þá fórum við í bátana. Hvar voruð þið meðan skipið tók allar þessar dýfur? Uppi. Við vorum að reyna að losa okkur við síldina á dekkinu. Og ég var á mínum stað, í brúnni. Við höfðum þrjá 10 manna gúmmíbáta og fórum í þá. Og rétt á eftir sökk skipið. Hve löngu á eftir og hve langt frá ykkur?
Svona 5 mínútum eftir að við fórum í bátana. Við vorum fáa metra frá skipinu. Svo þið horfðuð á Rifsnesið fara. Hvernig fór það?  Beint á stefnið. Við höfðum sent út neyðarkall áður en við fórum frá borði. Jón Kjartansson var 10 mílur frá Digranesi, en við vorum við norðurkantinn á Digranesflakinu. Og hann var kominn til okkar um kl. 12, tveimur tímum eftir að við fórum í bátana. Var allt í lagi með mannskapinn? Var ekki kalt að bíða?  Það var allt í lagi. Við vorum í ullarsokkum og það er nú það sem gildir.  Varst þú búinn að vera lengi með Rifsnesið?  Síðan í fyrra.
Jón Kjartansson frá Eskifirði var næsta skip við Rifsnesið, þegar það sökk og bjargaði mönnunum. Fréttaritari blaðsins á Seyðisfirði átti tal við skipstjórann, Þorstein Gíslason, er hann kom inn með skipbrotsmennina. Þorsteinn, sem er aflakóngurinn á síldarvertíðinni sem kunnugt er, búinn að fá 31 þús. mál og tunnur, kvaðst hafa verið á leið frá Vopnafirði út á miðin. Rétt fyrir kl. 10 heyrði hann neyðarkall og náði því niður. Var skipið þá keyrt eins og frekast var hægt í átt þangað. Austan kaldi var, 4-5 vindstig og allkröpp alda. Þegar þeir í bátunum sáu til Jóns Kjartanssonar skutu þeir neyðarrakettum, svo þeir fundust undir eins.
Um leið og skipbrotsmenn fóru í bátana höfðu þeir bundið þá saman, eins og reglur segja fyrir um, en þeir slitnuðu frá og var nokkurt bil orðið á milli þeirra. Skipverjar á Jóni Kjartanssyni lögðu upp að bátunum og tóku mennina upp til hlés. Þeir voru heilir á húfi, nema hvað einhverjir höfðu brennt sig á höndum á neyðarrakettunum. Jón Kjartansson fór strax út á miðin út af Langanesi, er hann hafði skilað skipbrotsmönnunum í land. Níu af skipverjum af Rifsnesinu komu með flugvél frá Egilsstöðum til Reykjavíkur síðdegis í gær. Mbl. hitti að máli Snjólf Fanndal vélstjóra, og spurði hvar hann hefði verið þegar skipið var að leggjast á hliðarnar á víxl. Hann kvaðst hafa verið uppi, er báturinn lagðist fyrst á stjórnborða, en síðan farið niður í vél. Hvernig er að vera niðri í skipi, sem lætur svona? Maður finnur miklu minna fyrir því niðri. Varstu ekki hræddur um að báturinn sykki meðan þú varst niðri?  Nei. nei, það er mikið flot í síldinni. - Hvenær drapst á vélunum?  Þær gengu alltaf. Það var fullt lens allan tímann.  Hvernig sökk báturinn?. Hann lá á hliðinni, ,rétti sig af og fór á framendann. Við vorum þá komnir í bátana og vissum að Jón Kjartansson var á leið til okkar. Voruð þið búnir að veiða vel í sumar? Við vorum búnir að fá 7000 mál, þegar báturinn sökk.

Morgunblaðið. 14 september 1965.

Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074734
Samtals gestir: 77525
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:08:49