26.04.2017 11:41

B. v. Andri SU 493. LCJT / TFBC.

Andri SU 493 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 316 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 187. Togarinn hét fyrst Gulltoppur RE 247. Eigendur voru feðgarnir Sigfús Blöndahl og Magnús Th.S. Blöndahl í Reykjavík. Fljótlega var stofnað félag um rekstur skipsins og hét það h/f Sleipnir. Skipið var selt 20 mars 1928, h/f Andra á Eskifirði, skipið hét þar Andri SU 493. Selt 5 nóvember 1932, Bergi h/f í Hafnarfirði, hét Andri GK 95. 25 janúar 1936 strandaði togarinn í þoku og dimmviðri nálægt Whitby á austurströnd Englands. Var hann þá á leið til Grimsby að selja afla sinn. Náðist togarinn út tveimur vikum síðar og var dreginn inn til Whitby og gert við hann þar. Skipið var selt 3 maí 1937, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, hét Vörður BA 142. 8 ágúst 1942 var eigandi skipsins h/f Vörður á Patreksfirði. Skipið var selt 24 mars 1947, p/f Höddin (H.J. Thomsen) Porkere í Færeyjum, hét þar Höddaberg. Togarinn var seldur í brotajárn árið 1955.

Andri SU 493.                                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


Andri GK 95 á strandstað nálægt Whitby á Englandi 1936.                         Ljósmyndari óþekktur.


Gulltoppur RE 247.                                                                                        Mynd í minni eigu.

     h/f Andri og Togarinn Andri SU 493

Þegar h/f »Andri« var stofnað, var það gert með það fyrir augum, að reka togaraútgerð frá Eskifirði og var togari keyptur í þeim tilgangi. Í reyndinni var togarinn gerður út frá Reykjavík að mestu leyti, lagði aðeins dálítinn hluta af aflanum á land á Eskifirði. Af útgerð »Andra« er því lítil eða engin reynsla fengin fyrir þvi, hvort hagkvæmt sé að gera út togara frá Austurlandi. Engu að síður var það atvinnumissir, eigi lítill, fyrir þorpsbúa, þegar togarinn »Andri« var seldur. Útgerðin hefur gengið svo saman á Eskifirði siðustu árin, að til vandræða horfir. Sjávarútvegur hefur verið aðalatvinnuvegur þorpsbúa. Geta og gjaldþol einstaklinga og sveitafélags hefur aðallega byggst á útgerðinni. Nú er jafnvel svo komið, að sveitarfélagið hefur orðið að leita á náðir rikissjóðs um hjálp til að standast nauðsynleg útgjöld.

     Togarinn Andri strandar við England í                   niðaþoku

Togarinn Andri strandaði nálægt Whitby á Englandi aðfaranótt sunnudags. Niðaþoka var er togarinn strandaði, og við rannsókn, sem farið hefir fram, hefir komið í ljós, að skekkja var á áttavitanum, sem nam 22 gráðum. Þar sem togarinn strandaði er mjög stórgrýtt og hamraveggur í sjó fram. öllum mönnum tókst að bjarga eftir að þeir höfðu verið í togaranum um hríð, og var þeim bjargað á róðrarbátum vegna þess, að ekki var hægt að koma björgunarbátum við vegna stórsjóa. Líður mönnunum öllum vel, og dvelja þeir enn í Whitby.
Þeir munu koma heim með fyrstu ferð, sem fellur. Togarinn Andri fór frá Hafnarfirði á þriðjudaginn og var með 3000 körfur fiskjar, og átti hann að selja aflann í Grimsby í gær. Skipshöfnin var 17 menn og var skipstjóri Kristján Kristjánsson. Auk skipshafnarinnar voru 8 menn á skipinu, sem voru að sækja hinn nýja togara Guðmundar Jónssonar og þeirra félaga. Eigandi Andra var h.f. Berg, en framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Guðmundsson stórkaupmaður. Áður hét skipið Gulltopptur, og var þá eign Sleipnisfélagsins. Engin von mun vera til þess, að skipið náist út.

Alþýðublaðið. 28 janúar 1936.


Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074672
Samtals gestir: 77515
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 21:24:47