03.05.2017 11:28
1278. Bjartur NK 121. TFNV. Frá Niigata til Neskaupstaðar.
Síldarvinnslan fór nú að huga að kaupum á öðrum skuttogara og þá helst nýjum. Það hafði verið ómögulegt að kaupa nýtt, þegar Barði var keyptur, meðal annars vegna lánamála og líklega andstöðu margra gegn kaupum á litlum skuttogurum. Það var semsagt farið að huga að nýju. Um árabil höfðu íslenskir útgerðarmenn nær eingöngu keypt skip frá Noregi, en nú komu Japanir inn í myndina og vildu smíða fyrir okkur togara. Það var nú hlegið af þessu fyrst og menn töldu þetta alveg út í hött af ýmsum ástæðum. Japanarnir voru mjög áhugasamir og tveir þeirra fóru með mér túr á Barða til að sjá hvað við vildum og hvað við værum að gera. Síðan var kannað hve margir á landinu hefðu hugsanlega áhuga á þessu dæmi og niðurstaðan varð sú að 10 eða 11 aðilar slá til og fara í viðræður.
Bjartur NK 121. Hér er togarinn að leggja af stað frá Japan eða fara frá Honolulu á Hawaieyjum.
Þessar viðræður voru mjög sérstakar. Skipin voru hönnuð uppi á herbergjum á
Hótel Loftleiðum á um það bil þremur vikum.Þarna voru 30 til 40 Íslendingar, kaupendur skipanna, sérfræðingar og ýmsir
fulltrúar þeirra, þar á meðal ég, og hins vegar 15 til 18 Japanir. Þetta
byrjaði með stórum fundi, þar sem farið var yfir málin á breiðum grundvelli,
hve stór skipin ættu að vera og reynt að koma sér niður á fastan púnt.
Auðveldast var að áhveða stærðina, þar sem hún varð að vera undir 500 lestum,
en þó eins mikil og hægt var, sem sagt 499 lestir. Þegar það var komið, voru
Japanarnir með allskonar sérfræðinga og teiknara, sem kom dálítið mikið við
sögu. Menn greindi á um margt, meðal annars um útlitið á skipunum. Þá kom þessi
Japani og teiknaði togara á töfluna í einum grænum hvelli og svo breytti hann
skipinu bara á töflunni þar til allir gátu sætt sig við það. Síðan fóru
Japanarnir að setja kramið inn í þessa teikningu. Þannig gekk þetta saman á
þremur vikum.
Bjartur NK 121 á heimleið á Kyrrahafinu.
Eitt mál var dálítið krítískt, það var tækjavalið þar sem menn vildu hver sitt
og enginn vildi japönsk tæki. Verðið var náttúrulega talsvert bitbein. Ein
leiðin til að ná því niður var að kaupa öll tækin eins, fá þau í einum pakka og
þannig ódýrari.Japanarnir stungu auðvitað upp á Furuno og eftir tvo daga voru komnir tveir
menn frá Furunoverksmiðjunum á Hótel Loftleiðir og öll tæki á endanum keypt af
þeim, nema tvö, sem þeir áttu ekki. Síðan var gengið frá samningnum og öllu
saman lauk með heljar miklu hófi í Óðali, þar sem Japanarnir sungu og dönsuðu fyrir
okkur og við sungum fyrir þá.
Bjartur NK 121 á heimleiðinni.
Japanarnir ætluðu sér ótrúlega hraða smíði á skipunum. Frá því að skipið hafði
verið teiknað upp á töflu áttu aðeins að líða 6 mánuðir þar til fyrsta skipið
legði af stað heim og síðan átti hálfur mánuður að vera á milli skipa. Ferðin til Japans var svo einstakt ævintýri. Konan mín var með og auðvitað voru
fleiri í hópnum. Við vorum fyrst boðin út um allar eyjar til að skoða eitt og
annað. Það voru seljendur tækja og búnaðar meðal annars, sem buðu okkur í þetta
ferðalag, sem var ákaflega skemmtilegt í framandi umhverfi. Í
Furunoverksmiðjunum kom dálítið skemmtilegt atvik fyrir, þegar við komum
þangað. Fyrst skoðuðum við verksmiðjurnar og þá sáum við óvenjulegan hlut
gerast.
Bjartur NK 121 á heimleiðinni.
Allt í einu hringdi einhver bjalla og það var eins og við mannin mælt,
hver einasti starfsmaður skellti sér í leikfimi í 5 mínútur. Síðan var okkur
boðið í mikla matarveislu og okkur voru færðar gjafir, innpakkaðar með fallegum
slaufum. Þegar forstjórinn afhendir konunni minni gjöfina, varð hann svolítið vandræðalegur,
bað hana afsökunar á gjöfinni fyrirfram og vonaði að hún tæki þessu ekki illa.
Þetta væri gefið af heilum hug.Við athuguðum málið ekkert frekar, vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið og
tókum gjafirnar ekki upp fyrr en heim var komið um kvöldið. Þá sáum við að
maðurinn hafði haft ástæðu til að vera vandræðalegur.
Bjartur NK 121 kominn að Panamaskurðinum.
Það var nefnilega rakvél
í pakkanum. Allir gestirnir höfðu fengið rakvélar og þarna er þetta þannig, að
það eru bara pantaðar gjafir fyrir ákveðinn fjölda gesta hjá ákveðinni deild,
sem sér um þetta og auðvitað hefur gleymst að reikna með þeim möguleika að kona
kynni að vera með í hópnum. Japanarnir voru einstaklega góðir gestgjafar. Það
er gott að vera gestur í Japan og það er gaman að eiga við þá viðskipti. En
margt var framandi.Þegar ég fékk loksins að fara og skoða skipið, var komið fram í nóvember og
átti að afhenda það eftir 6 til 8 vikur.
Bjartur NK 121 í Panama.
Ég var orðinn mjög spenntur. Mig óaði
við því hve stutt á veg það var komið, þeir voru um það bil að hífa brúna á
skipið 6 vikum fyrir afhendingu. Vélin var komin niður og byrjað að innrétta
lestina, en millidekkið og íbúðir var bara járnkassi. Þeir drógu fram mjög
rækileg plön, þar sem nánast hvert einasta verk var dagsett og sögðust halda
áætlun. Þarna unnu um 3.000 manns og stöðin afhenti skip alveg frá litlum bátum
upp 3.000 tonna togara allt að því vikulega. Bjartur var skip númer 1163 frá
stöðinni.
Bjartur NK 121 við ankeri í Panamaskurðinum og bíður eftir því að komast í gegn.
Sérstök upplýsingadeild kom manni í skining um gang mála og fengum sérherbergi í
stöðinni til umráða. Síðan var ég spurður að því hvenær á daginn ég vildi koma
niður í stöð til að fylgja st með gangi mála. Ég vildi koma klukkan 9 á
morgnana, en þeir sögðust þá mundu senda bíl eftir mér. Á hverjum morgni beið
svartur bíll og bílstjóri með hvíta hanska eftir mér fyrir utan hótelið meðan
ég var að borða morgunmatinn. Um leið og ég birtist þaut bílstjórinn út og
opnaði fyrir mér. Þegar við komum niður í stöð fórum við í gegnum lokað hlið,
sem var opið, þegar hann flautaði og lokst stoppaði bíllinn við innganginn að
herberginu, sem var í gamalli, stórri trébyggingu. Þar mátti ég vera andskoti
fljótur úr bílnum, ef ég átti að vera á undan stelpuni, sem kom út til að opna
fyrir mér hurðina með djúpum hneigingum. Mér þótti þetta óþægilegt, en vandist
því smám saman.
Bjartur NK 121 í einum skipastiganum í Panamaskurðinum.
Líklega hafa 100 manns verið að vinna um borð og allir hlutir smíðaðir í heilu
langi í landi og síðan settir á sinn stað um borð. Skipulagið hjá þeim var með
ólíkindum og gaman að sjá hvernig þeim vannst. Þegar komið var um borð, þýddi
ekkert að gera athugasemdir þó verið væri að gera augljósar villur, maður
skrifaði það bara hjá sér í bók og tók það svo upp á sérstökum fundum.
Lofthæðin var eiginlega eina vandamálið. Í samningnum var talað um ákveðna
lofthæð og ákveðinn fjölda ljósa. Svo settu þeir ljósin bara neðan á loftið í
stað þess að fella þau upp í það. En það gekk auðvitað ekki fyrir fullvaxna
menn, þó Japanir sæju enga galla á þessu. Þeim fannst betra að skrúfa ljósin
upp eins og teikningin sagði til um, og færa þau svo aftur daginn eftir.
Bjartur NK 121 í skipastiga í Panamaskurðinum.
Við hjónin vorum þarna úti á jólunum og þau voru ekki haldin hátíðleg þarna.
Maður varð aðeins var við jólatónlist á hótelinu, en annars unnu allir eins og
ekkert væri. Hótelstjórinn lét senda okkur tertu með jólakveðjum og einn
flokksstjórinn í skipasmíðastöðinni tók sig til og bauð okkur í bíltúr í
eitthvert sérstakt bænahús. Jólin voru því talsvert frábrugðin því sem við
eigum að venjast, en mig minnir að það hafi verið hvít jól og tunglið snéri
öfugt. Japanir halda síðan upp á áramótin. Við fórum út á gamlárskvöld og
fylgdum talsverðum fólksstraumi, sem lá að stórum garði. Þetta voru þúsundir
fólks á öllum aldri, gamalmenni með staf og konur með ungabörn á bakinu og
þetta stóð alla nóttina og allt sem fólkið gerði bar að signa sig á einhvern
hátt fyrir utan helgan stað eða bænahús í garðinum.
Bjartur NK 121 í Panamaskurðinum.
Aðeinshluta mannfjöldans
tókst að teygja sig í langan tógspotta sem hékk niður úr bjöllu og klingja
henni. Síðan hélt það heim aftur. Það var óhætt að segja að þetta hafi verið
ákaflega ólíkt íslenskri áramótagleði.
Það kom svo í ljós á endanum að hálfs mánaðar seinkun varð á afhendingu Bjarts.
Við fórum frá Japan að kvöldi 13. Janúar og mér fannst ég vera óskaplega
umkomulaus þegar ég silgdi niður fljótið frá Niigata út á Japanshaf, sem var á
milli Kóreu og Japans. Þá voru eftir einar 13.000 mílur heim yfir hálfan
hnöttinn. Ég var óvanur svona langsiglingum og var með nýtt skip, sem ég þekkti
ekki og tiltölulega fámenna skipshöfn.
Bjartur NK 121 á leið í gegn um skurðinn.
Mér fannst ég lítill og veðrið bætti
ekki úr skák, grenjandi rigning og 5 til 6 vindstig og mér sagt að fara heim.
Fyrsta hugsun mín þegar við komum út úr fljótinu, það var eitthvert regnský á
radarnum og ég vissi ekkert hvað það væri mikil umferð þarna, en gaf mér að hún
væri mikil, var að sigla bara til hafs í klukkutíma meðan ég var að ná áttum og
athuga hvort öll tæki væri í lagi. Það kom í ljós að svo var og við silgdum
norður með eynni og í gegnum sundið á milli megin eyjarinnar Honshu og þeirrar
nyrstu sem heitir Hokkaido, áður en við komumst út á Kyrrahafið.
Hér mætir Bjartur skemmtiferðaskipinu Hamburg í Panamaskurðinum.
Þegar við náðum þangað fór ég að fyllast öryggistilfinningu
aftur. Þetta var eiginlega eina skiptið sem mér hefur liðið svona. Nú var
tveggja mánaða tilbreytingarlítil sigling framundan og mér fannst það með
ólíkindum að mæta bara tveimur skipum á 12.000 til 13.000 mílna siglingu og til
lands sást ekkert fyrsta hálfa mánuðinn. Slíku var maður ekki vanur, kannski
tveggja, þriggja daga siglingu án landsýnar en þegar land hafði ekki sést í
viku til 10 daga, fór maður auðvitað aftur að efast um að tækin væru í lagi.
Maður er nánast eins og krækiber í helvíti á þessum gríðarlega stóru
heimshöfum, gerir sér ekki grein fyrir stærð þeirra fyrr en maður fer um þau.
Svo við tökum dæmi, þá sigldum við í 18 daga fyrir opnu hafi frá Hawaii til
Panama og það er bara hluti af Kyrrahafinu.
Hólmgeir Hreggviðsson, Magni skipstjóri og Þorsteinn Kristjánsson, sennilega á Hawaiieyjum.
Það gekk allt vel, en var ansi þreytandi. Mikill hiti og
skipið ekkert kælt þannig að þetta var hálf erfitt. Sumir leystu málið með því
að opna frystinn og liggja í dyrunum, en við bjuggum okkur líka til sundlaug á
dekkinu. Við reyndum líka að drepa tímann með því að veiða flugfiska. Þetta var
í fyrsta skipti á ævinni sem ég sá slíka fiska og það var mjög gaman að
fylgjast með þeim, að minnsta kosti fyrst í stað. Síðan verður þetta fyrir
manni bara eins og snjótittlingarnir heima, þeir fljúga um allt. Við vorum eins
og börn og vildum fanga þessi kvikindi og skoða nánar. Það var sett út
flugfiskagildra með heilmiklum tilfæringum. Við settum bómu út, 5 til 6 metra
frá skipinu og bjuggum til háf 50 til 60 sentimetra í þvermál og hengdum hann
niður í bómuna, rétt fyrir ofan hafflötinn.
Magni skipstjóri léttklæddur í stólnum.
Við héldum að flugfiskurinn myndi
villast inn í þetta með tíð og tíma. Það reyndist ekki, flugfiskurinn kom
aldrei í háfinn en hins vegar fundum við nokkra á hvalbaknum. Fiskurinn virtist
nota sér uppstreymið við kinnungana og lenti þá stundum inn fyrir. Okkur
virtist ekki mikill matur í þessum fiski. Hann var smár, svipaður og loðna eða
smásíld og ósköp lítilfjörlegur.Svo fórum við framhjá frægri sjóræningaeyju þar sem Hornblower gerði við laskað
skip sitt eftir bardaga. Hawaiieyjar voru ekki eins girnilegar og ég hafði gert
mér í hugarlund. Maður hafði bara hreinar sandstrendur, pálma og stúlkur í
strápilsum í huganum en þannig var þetta nú einfaldlega ekki. Við stoppuðum þar
í tvo daga og það var ekki eins skemmtileg dvöl og við höfðum ætlað okkur. Við
misstum nokkra dropa, aðeins nokkra dropa af olíu í sjóinn og þá varð fjandinn
laus.
Þorsteinn Kristjánsson um borð í Bjarti NK 121.
Það voru svo ströng mengunarlög þarna að ég var strax dreginn fyrir
dómara og rannsóknarrétt og lenti hreinlega í klandri. Það urðu nú sættir í
málinu fyrir rest. Ég hélt því fram að þetta hefði ekkert verið. Við vorum að
taka olíu og örlítið lak niður skipshliðina og sumir taumarnir náðu niður
skipshliðina, aðrir ekki. Svo lítið var þetta. Í skýrslu yfirvalda var talað um
minna en "two pints" innan við einn lítra en 500 dollara varð ég að borga í sekt
með sátti en þetta átti að vera miklu meira hjá þeim. Í þetta fór allur fyrri
dagurinn. Við fórum svo í gegnum Panamaskurðinn og þaðan norður að Haíti,
gegnum Þanghafið án viðkomu til Íslands. Það voru helvíti miklir flekar af
þangi þarna en draugaskip sáum við engin. Það var gaman að koma heim eftir allt
þetta ferðalag, tvo mánuði í hafi og nokkrar vikur í Japan þar á undan, koma
heim með glæsilegt og gott skip. En eitt gerðist á leiðinni sem skyggði nokkuð
á gleðina.
Guðmundur Sigmarsson vélstjóri að láta pússa skóna sína.
Það var Vestmannaeyjagosið, sem hófst skömmu áður en við komum til
Hawaii. Togarinn Vestmannaey var þá á undan okkur á leiðinni frá Japan. Þeir
sögðu okkur frá þessu og fyrstu fréttirnar voru ansi skuggalegar. Þeir náðu
þeim úr einhverju suður-amerísku útvarpi, að það hefði orðið eldgos í Eyjum,
talað um manntjón og að bærinn væri meira og minna undir ösku. Þeir á
Vestmannaey voru auðvitað mjög slegnir og náðu engan veginn heim. Þeir báðu mig
því að hringja heim frá Hawaii og afla frétta. Þann tíma, sem ég var ekki fyrir
rannsóknarréttinum var ég í símanum að reyna að ná heim. Það náðist aldrei
þrátt fyrir tilraunir í 5 klukkutíma en þá bennti umboðsmaðurinn okkar okkur á
að fara út í prentsmiðju og sækja blað sem væri að koma út. Þar væri eitthvað
sagt frá gosinu.
Í Balboa í Panama.
Við gerðum það og þar var stór mynd á forsíðu. Ég skil ekki
hvernig sú mynd var tekin, því af henni að dæma var þetta allt saman að fara
til helvítis. Það var bara allt í eldi og mekki. Ég hefði því ekkert góðar
fréttir að færa Vestmannaeyingunum nema það að í blaðinu var sagt að ekkert
manntjón hafði orðið. Þetta hlýtur að hafa verið hrikalega erfiður tími fyrir
þá. Það leið vika áður en þeir fengu eitthvað af viti að frétta. Símasambandið
frá Panama var litlu betra en það hafðist þó að ná sambandi heim þaðan eftir
mjög langa bið.
Við vorum líka rækilega minnt á veruleika íslenskra sjómanna eins og hann
gerist verstur þegar við nálguðumst Ísland. Austfirski flotinn ásamt ýmsum
fleirum var að leita Sjöstjörnunnar frá Keflavík sem hafði farist í hafinu
milli Færeyja og Íslands.
Bjartur NK 121 við komuna til heimahafnar 2 mars 1973. (C) Guðmundur Sveinsson.
Skuttogarinn
kominn til Norðfjarðar
Nýr japanskur skuttogari, Bjartur NK 121 kom til heimahafnar sinnar Neskaupstaðar eftir 49 daga ferð frá Japan, en þaðan hélt skipið 13. janúar. Skipið hafði viðkomu á tveimur höfnum á heimleið, Honululu og Panama. Skipstjóri á Bjarti NK er Magni Kristjánsson, en hann var skipstjóri á fyrsta skuttogaranum, sem íslendingar eignuðust, Barða NK frá Neskaupstað. Bjartur fékk einstaklega gott veður á heimleið, nema fyrstu dagana, þá hreppti skipið 9 til 10 stiga mótvind, en eftir það annað hvort stillur eða meðbyr. Skuttogarinn er 464 brúttórúmlestir og 146 lestir nettó. Fyrsti stýrimaður er Herbert Benjamínsson, fyrsti vélstjóri Sigurður Jónsson, en hann var einnig vélstjóri á Barða og annar vélstjóri Guðmundur Sigmarsson. Hinn nýi skuttogari er mjög skemmtilegur í alla staði og mjög vel búinn að öllum tækjakosti. Hann er systurskip þeirra tveggja japönsku skuttogara, sem áður eru komnir til landsins, Vestmannaeyjar og Páls Pálssonar. Útgerðarstjóri skipsins er Jóhann K. Sigurðsson.
Morgunblaðið 4 mars 1973.
Bjartur
kominn
Kl. 8.30 í morgun sigldi hinn nýi skuttogari Norðfirðinga,
Bjartur NK 121 fyrir Eyrina og inn á Norðfjarðarhöfn í fyrsta sinn. Er þar með
lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirzks skips, en heimferð Bjarts frá Japan
hófst 13. janúar. Er hann reyndar hér heima á undan áætlun, því að
heimsiglingin gekk mjög vel. Bjartur sigldi fánum prýddur inn á höfnina og víða
í bænum blakta fánar við hún til að heilsa skipi og skipshöfn. Bjartur er hið
glæsilegasta skip og vel búið og við það eru miklar vonir tengdar. Skipstjóri
er Magni Kristjánsson, 1. stýrimaður Herbert Benjamínsson og 1. vélstjóri
Sigurður Jónsson, en eigandi Síldarvinnslan hf. Austurland mun segja nánar frá
Bjarti í næsta blaði og reyna að ná tali af skipstjóranum um heimsiglinguna og
dvölina í Japan. Óskar blaðið eigendum, skipshöfn svo og öllum Norðfirðingum
til hamingju með þetta nýja skip.
Austurland. 2 mars 1973.
Frá Niigata
til Neskaupstaðar
Eins og frá var sagt í síðasta blaði kom hinn nýi skuttogari
Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað, Bjartur NK 121 í fyrsta sinn til
heimahafnar 2. marz sl. Tíðindamaður Austurlands htti skipstjórann, Magna
Kristjánsson, að máli um borð í skipinu og átti við hann stutt viðtal um skipið
og dvöl hans og konu hans og skipverja í Japan. Viltu fyrst segja frá skipinu,
Magni, stærð þess og búnaði? Bjartur er
461,5 brúttósmál. að stærð, lengd skipsins er 47,1 m, bre'dd 9,52 m og dýpt
5,50 m. Aðalvélin er 2.000 hestöfl og heitir Niigata, eins og borgin, sem
skipið er smíðað í. Tvær aukavélar eru í skipinu, 300 ha. hvor. Svo eru í skipinu
öll fullkomnustu siglinga og fiskileitartæki, þ. á. m. netsjá. Öll tækin eru
japönsk, nema talstöðin, sem er dönsk.
Þá er nokkur nýlunda í vinnuaðstöðunni við fiskaðgerðina, sem öll er auðvitað
neðan þilja. Vinnuaðstaðan er útbúin sérstaklega til að blóðga aflann fyrir
aðgerð, og er þar farið að ströngustu kröfum um meðferð aflans og hér verður og
um vinnusparnað að ræða. Lestin, sem er kælilest, er útbúin að 3/4 með tilliti
til þess, að aflinn verði ísaður í kassa. Vistarverur skipverja eru vandaðar,
sýnist mér. Já, þær eru mjög rúmgóðar og smekklegar. Það eru 8 eins manns
klefar og 5 2ja manna. Hvað verðíð þið margir á? Við verðum 16. Þetta verður
svo til sama skipshöfnin og var á Barða. 1. stýrimaður er Herbert Benjamínsson,
2. stýrimaður Birgir Sigurjónsson, 1. vélstjóri Sigurður Jónsson og 2.
vélstjóri Guðmundur Sigmarsson.
Austurland 9 mars 1973.
Heimildir:
Magni Kristjánsson.
Austurland.
Tímarit.is
Norðfjörður, saga útgerðar og fiskvinnslu.
Gamlar blaðaúrklippur frá mér.