08.05.2017 06:31

Línuveiðarar.

Upp úr 1920 fór ný tegund íslenskra skipa að stunda síldveiðar. Voru það hinir svokölluðu línuveiðarar, en í flestum tilvikum voru slík skip upphaflega togarar sem gerðir voru út til veiða í Norðursjó. Mörg þessara skipa voru komin nokkuð til ára sinna er þau voru keypt til landsins. Margir línuveiðarar frá Reykjavík og öðrum stöðum suðvestanlands voru gerðir út á línuveiðar að vetrinum en á síldveiðar á sumrin, en síldveiðar voru uppistaða útgerðar norðlenskra línuveiðara.


Línuveiðarinn Jarlinn EA 590.                                                                           Málari óþekktur.

Var útgerð þessara skipa töluvert umfangsmikil á þriðja áratug 20 aldar en síðan fór að draga úr henni, bæði vegna þess að skipin gengu úr sér og týndu tölunni og vegna þess að vélbátarnir fóru stöðugt stækkandi og þóttu þeir hagkvæmari í rekstri. Útgerð línuveiðara var þó ekki hætt fyrr en eftir seinni heimstyrjöldina, en þá voru þau skip sem eftir voru komin til ára sinna.
Hér eru þrjár myndir af línuveiðaranum Jarlinum EA 590. Þrjár mismunandi útgáfur, þ.e. málverk, líkan og ljósmynd.


Línuveiðarinn Jarlinn GK 272. Líkan Gríms Karlssonar.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Jarlinn EA var smíðaður hjá Thomas Charlton & Co Ltd í Grimsby á Englandi árið 1890 fyrir John H Charlton í Grimsby, hét Stanley Africanus GY 267. Stál. 190 brl. 250 ha. 2 þennslu gufuvél. Árið 1910 var skipið í eigu Weston W Crampin í Grimsby. Skipið var selt til Gautaborgar í Svíþjóð, óvíst hvenær. Hét þar Anders. Árið 1925 er skipið keypt til Íslands og er eigandi þess þá h/f Hrogn & Lýsi í Reykjavík, hét Anders RE 263. Skipið var selt árið 1930, h/f Hljer í Reykjavík (Magnúsi Vagnssyni á Ísafirði ?), hét Hljer RE 263. Selt 31 maí 1930, Kolbeini Finnssyni og Þorvaldi Jakobssyni í Reykjavík, skipið hét Jarlinn RE 263. Selt 17 apríl 1935, Helga Pálssyni á Akureyri, hét Jarlinn EA 590. Selt 5 janúar 1940, Sameignarfélaginu Jarlinum (Óskari Halldórssyni og börnum hans) 6 júní 1941 eignast Björn Ólafsson hlut í skipinu, fær þá nafnið Jarlinn GK 272. Þann 21 ágúst 1941 lagði skipið af stað frá Ísafirði áleiðis til Englands með ísfiskfarm. Jarlinn seldi afla sinn í Fleetwood 1 september. Skipið lagði af stað frá Fleetwood þann 3 september áleiðis til Vestmannaeyja en það kom aldrei fram. Skipið fórst með allri áhöfn, 11 mönnum. Það kom síðar fram að þýski kafbáturinn U-141, sökkti Jarlinum að kvöldi 5 september 1941 um 200 sjómílur norðvestur af Stornoway í Skotlandi.


Línuveiðarinn Jarlinn EA 590 við bryggju í Reykjavík á stríðsárunum.      Ljósmyndari óþekktur.

Flettingar í dag: 248
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 2446
Gestir í gær: 98
Samtals flettingar: 1074626
Samtals gestir: 77510
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 19:09:21