13.05.2017 10:34

B. v. Glaður RE 248. LCJV.

Glaður RE 248 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 316 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 188. Eigendur voru feðgarnir Sigfús Blöndahl og Magnús Th.S.Blöndahl frá vori 1922. Þeir keyptu skipið í þýskalandi ásamt öðrum togara sem var Gulltoppur RE 247. Fljótlega var stofnað félag um rekstur skipanna og hét það h/f Sleipnir. Voru skipin gerð út frá Reykjavík. Skipið var selt í árslok 1925, Ólafi Jóhannessyni & Co á Patreksfirði, skipið hét Leiknir BA 151. Togarinn strandaði austan Kúðaóss 21 nóvember árið 1931. Áhöfnin, 19 menn, bjargaðist á land með hjálp heimamanna í Álftaveri en skipið eyðilagðist. Enn í dag má sjá í flak Leiknis í sandinum þar austurfrá.

Glaður RE 248.                                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Glaður RE 248.                                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Leiknir BA 151.                                                                                             Mynd í minni eigu.

Leiknir BA 151.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Togarinn "Leiknir" strandar við Kúðaós. 

                      Mannbjörg 

Fyrir fáum dögum barst hingað sú fregn, að togarinn »Leiknir« frá Patreksfirði hefði hefði strandað við Kúðaós, fram af Álftaveri. Fregn þessi hafði borist með loftskeyti frá togaranum, og hafði Loftskeytastöðin í Reykjavik náð fregninni. Var sýslumanninum í Skaftafellssýslu þegar tilkynnt um strandið, en hann gerði ráðstafanir til þess, að Álftveringar færu á strandstaðinn. Þeir voru komnir á strandstaðinn kl. 9-10 . Loftskeytastöðin hér í bænum hafði samband við »Leikni« til kl. 2; taldi skipstjóri víst, að skipverjar kæmust allir í land með fjöru. Kl. um 1 voru 6 skipverjar komnir á land. Aðstandendur skipverja voru mjög áhyggjufullir er ekkert fréttist siðari hluta dags en áður dimma tók, fréttist að allir væru komnir á land. Þau fara að verða nokkuð mörg slysin á sjó og haldi þau áfram líkt og hin siðustu 6 ár, má eiga það vist, að erlendu félögin, sem endurtryggja skaða hér, hækki svo iðgjöld að til vandræða horfi fyrir skipaeigendur. Sjótjón hin siðustu 6 ár eru þessi og aðeins nefndir togarar:
»Leifur heppni« 8. febr. 1925. Fórst á rúmsjó.
»Ása« 20. des. 1925. Við Jökul. '
»Eiríkur rauði« 2. marz 1927. Við Sandana.
»Ása« 3. apríl 1927. Við Grindavík.
»Austri« 7. sept. 1927; Við Vatnsnes nyrðra.
»Jón forseti« 27. febr. 1928. Við Stafnes.
»Menja« 12. júní 1928. Sökk á rúmsjó.
»Apríl« 1. des. 1930. Fórst á rúmsjó.
»Barðinn« 21. ágúst 1931. Við Þjót.
»Leiknir« 21. nóvember. Við Kúðaós.
Þannig lítur þessi sorglegi listi út. Frá 1. desember 1930 til 21. nóvember 1931, er tæpt ár og á því farast 3 dýr skip og 10 togarar, sumir að heita nýir, síðan árið 1925. Hið siðasta strand, »Leiknis« er órannsakað er Ægir verður prentaður, en 23. nóvember sendi Sjóvátryggingarfélag Íslands reyndan skipstjóra, austur á strandstaðinn og varðskipið »Ægir« mun gera tilraun til að ná skipinu út. Sjóréttur var haldinn í Vík í Mýrdal hinn 24. nóvember og framhaldspróf mun haldið hér í Reykjavik. Á þrem mánuðum hafa 2 togarar strandað, sem vátryggðir hafa verið hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands fyrir um 600 þúsund krónur.
»Leiknir« var smíðaður í Þýzkalandi árið 1921 fyrir hlulafélagið Sleipni í Reykjavik, og hét fyrst »Glaður«. Var hann 316 smálestir brúttó. Fyrir nokkrum árum seldi Sleipnir skipið, Ólafi Jóhannessyni & Co. á Patreksfirði, og hefur það síðan verið gert út þaðan.

Ægir. 11 tbl. nóvember 1931.



Flettingar í dag: 1257
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 421
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 1191659
Samtals gestir: 83671
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:18:30