22.05.2017 06:32

Vonin EA 19. LBDK / TFRJ.

Vonin EA 19 var smíðuð í Rudköbing í Danmörku árið 1885 sem skonnorta. Eik. 27 brl. Eigendur voru  Kristinn Havsteen, Guðmundur Jónsson og Eggert Snorrason, á Siglufirði, frá 2. marz 1885. Bjarni Einarsson bátasmiður á Akureyri, eignaðist bátinn sennilega á árinu 1924-25, en þá var báturinn endurbyggður og stækkaður á Akureyri. Einnig var sett í hann 76 ha. Hera vél, árgerð 1925. Mældist eftir það 38 brl. Seldur 8. desember 1937 Þorsteini Jónssyni og Sigurði P. Jónssyni á Dalvík og Þorsteini Antonssyni, Efstakoti og Árna Antonssyni Kvíum í  Eyjafirði, báturinn hét Vonin EA 119. Ný vél (1938) 90 ha. June Munktell vél. Seldur 20. nóvember 1940 Ragnari Bjarnasyni í Sandgerði og Stefán Franklín í Keflavík, báturinn hét Björn ll GK 397. Báturinn var lengdur 1941 og mældist þá 46 brl. Báturinn sökk í Faxaflóa eftir að mikill leki kom að honum 12 febrúar árið 1944. Áhöfnin, 5 menn, bjargaðist um borð í vélbátinn Fylki MB 6 frá Akranesi.


Vonin EA 19.                                                                         (C) Hallgrímur Einarsson.


Hákarlaskip á Oddeyrartanga á Akureyri. Vonin er fremst á myndinni.     Ljósmyndari óþekktur.

              Hákarlaskipið Vonin

Hákarlaskipið Vonin var smíðuð í Danmörku veturinn 1885-86. Létu þeir smíða hana Christian (Kristinn) Havsteen, þáverandi verslunarstjóri á Siglufirði, Eggert Snorrason og Guðmundur Jónsson, sem lengi var skipstjóri hennar, alkunnur sjómaður og aflamaður. Drukknaði hann síðar (1901) niður um ís á Eyjafirði. Guðmundur var utanlands, meðan Vonin var smíðuð, og sigldi henni upp snemma um vorið. Vonin var smíðuð úr eik, mjög sterk og ágætt sjóskip, enda hefur hún margann garðinn þolað. Hún var upphaflega með skonnortusiglingu, og þá að stærð 26,8 brúttólestir, en hefur nú verið lengd og siglingu hennar breytt í kútter og sett í hana gangvél.
Vonin lenti í miklum hrakningum í aprílmánuði árið 1891. Þá hraktist skipið austur um land, náði landi á Seyðisfirði. Hrakningarnir stóðu í nærfellt 6 vikur og fór Vonin hringinn umhverfis landið. 

Frásögn Kristins Ásgrímssonar skipverja á Voninni. Skútuöldin lV bindi.

            Björn ll GK 397 sekkur

                        Mannbjörg

M.b. Björn II. G. K. 397 hafði róið með öðrum Akranesbátun. Skipstjóri á honum var Kristinn Jónsson, góðkunnur aflamaður, áður skipstjóri á m.b. Hermóði. Morgunblaðið náði tali af Kristni seint í gærkvöldi. Hann skýrði svo frá : Um kl. 9 í gærmorgun (laugardag) fórum við að draga línuna, en urðum að yfirgefa hana kl. 12. Ljet jeg því skera á línuna og vorum við þá búnir að draga 16 bjóð af 28. Vorum við þá staddir um 18 sjómílur NV frá Akranesi. Einnig voru þar bátarnir Fylkir, Hrefna, Sigurfari og Ásbjörn, allir frá Akranesi. Vegna særoks sást ekki nema örskammt frá skipunum. Samt tókst okkur að halda hópinn í ca. 1/2 klukkustund. Hjeldum við upp í vindinn í SA og SSA til þess að forðast Mýrarnar. Um kl. 1.30 var grunnbrot framundan. Var þá snúið upp og var dýpið 18 fm.
Hjeldum við og hinir bátarnir á hægri ferð upp í V og SV og var lóðað af og til og dýpi sama og grunnbrot ekki langt frá. Um kl. 2.30 kom óstöðvandi leki að Birni II. Dælan hafði ekki við og þótt tveir hásetar færu í lífaustur, hafðist ekkert við lekanum. Þegar hjer var komið hafði jeg misst sjónar af hinum bátunum, nema m.b. Fylki. Gat jeg gefið skipstjóranum, Njáli Þórðarsyni, merki um að tala við mig í talstöðina og ljet hann vita í henni, hvernig komið væri. Giska jeg á, að þessir snúningar hafi tekið um 10 mínútur. Á meðan hafði sjórinn í lúkarnum hækkað um einn meter og var hann kominn á móts við efri kojur í lúkarnum, þegar jeg kom til baka. Sjór var einnig kominn í vjelarúm, en vjelin í gangi. Bað jeg skipstjórann á m.b. Fylki að koma strax til hjálpar, meðan vjelin í Birni hjeldist í gangi og hægt væri að hafa nokkra stjórn á bátnum. Settum við allir á okkur björgunarbelti, þar sem báturinn var kominn að því að sökkva.
Andæfðu báðir bátarnir. Kom Fylkir strax til hjálpar. Helti hann olíu í sjóinn til þess að lægja öldurnar. Lagði hann upp með m.b. Birni II. að aftan á hljeborða. Hentum við til hans kastlínu og drógum til okkar línu, sem hann hafði útbúið og bundum við hana undir hendurnar á einum skipverja, sem var dreginn á línunni yfir í m.b. Fylki, en við drógum línuna aftur til baka á snæri, sem fest var í hana. Var bilið á milli bátanna þá 10-15 faðmar. Var okkur fimm, sem vorum á Birni II., bjargað þannig yfir í Fylki og "höfðum við björgunarbeltin spent um okkur og munum hafa verið um mínútu í sjónum hver okkar. Mun kl. hafa verið um 2,40, þegar björgunin hófst, og eftir hálftíma vorum við allir komnir um borð í m.b. Fylki. Stöðvaðist vjelin í m.b. Birni II til fulls í þessum svifum og eftir ca. 10 mínútur maraði hann í kafi fyrir flötu og braut á honum. Ef við á m.b. Birni II. hefðum ekki fengið svo skjóta og góða hjálp frá Njáli Þórðarsyni skipstjóra og skipshöfn hans á m.b. Fylki, væri jeg ekki hjer í símanum til frásagnar, því hjer mátti engu muna. Bið jeg Morgunblaðið að færa Njáli og skipverjum hans fyrir mína hönd og skipverja minna, innilegustu þakkir fyrir björgunina.

Morgunblaðið. 13 febrúar 1944.

Flettingar í dag: 965
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1155
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 1194740
Samtals gestir: 83790
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 08:53:57