28.05.2017 09:53
B. v. Hannes ráðherra RE 268. LBCM / TFHC.
B.v. Hannes ráðherra RE 268 að veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Hannes
ráðherra verður fyrir áfalli
Kolin köstuðust úr stjómborðsboxi yfir í bakborða og einnig frammá fýrpláss og skipið fékk mikla slagsíðu til bakborða. Vaktin sem var komin frammi, kom strax upp og afturí og við unnum allir við að færa kolin yfir til stjórnborða. Skipinu var haldið upp í sjó og vind meðan á þessu stóð, því það tók nokkurn tíma að rétta það við. Vegna þess að loftnetið slitnaði frá, vorum við sambandslausir.
B.v. Hannes ráðherra RE 268. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Óveðrið
þegar vitaskipið Elbe 1 fórst
Við hásetarnir vorum látnir hjálpa til við að koma fiskikössum á markaðnum uppá flutningatæki, því þeir bókstaflega flutu upp, slíkur var þrýstingurinn á sjónum upp fljótið. Veðurhæðin var ofsalega mikil og varla stætt í verstu hryðjunum. Hávaðinn í þrumunum var ærandi, engu líkara en björg væru að rifna og bjart sem að degi til, þegar eldingarnar gengu yfir. Loftið var hrikalegt, með æðandi skýjabólstrum og ýmsum litbrigðum. Þessi djöfulgangur lofts og lagar stóð mikinn hluta nætur. Það sorglegasta og um leið eftirminnilegasta er gerðist þessa nótt, var varðandi vitaskipið Elbe 1 sem legið hafði fyrir sínum múrningum og flætt fyrir hinum æðisgengnu brotsjóum er æddu upp fljótið á móti straumi. Að sögn manna á skipum er lónuðu í nánd við Elbe 1, höfðu verið mjög djúpir öldudalir og æðandi brotsjóirnir hvolft sér yfir skipið og sökkt því og Ijós þess þar með horfið sjónum þeirra. Eigi var hægt að koma við neinum björgunaraðgerðum vegna veðurofsa og náttmyrkurs.
Vitaskipið svaraði ekki kalli og þótti þá sýnt hvað orðið var. Daginn eftir var mikill sorgardagur um allt Þýskaland og hjá öllum sjófarendum er notið höfðu þess öryggis er skipið veitti, þar sem Ijós þess sást er skip komu af hafi. Þarna hafði það legið við múrningar og skipverjar unnið sín skyldustörf, svo árum skipti, en nú var það horfið af yfirborði sjávar. Er við fórum niður fljótið daginn eftir, var það sannarlega þögul skipshöfn er horfði á auðan sjóinn þar sem Elbe 1 hafði verið. Slíkar stundir gleymast eigi.
B.v. Hannes ráðherra RE 268 á leið til síldveiða. Mynd úr safni mínu.
Áhöfnin á Hannesi ráðherra RE 268. (C) Arnbjörn Jóhannesson.
B.v. Hannes ráðherra RE 268. Málverk eftir Jón Guðmundsson.
Hannes
ráðherra" strandar við Kjalarnes
Togarinn "Hannes ráðherra" strandaði nokkru eftir
miðnætti í nótt á Músarsundi við Kjalarnes. Var togarinn að koma frá Englandi á
innsiglingu til Reykjavíkur. Togarinn fjekk strax talsamband við
loftskeytastöðina hjer. Skipverjar vissu í upphafi ekki glögglega hvar þeir
voru, hjeldu jafnvel að skipið hefði strandað nálægt Gróttu. Veður var mjög
dimmt. Báðu þeir um að send yrðu skip til þeirra hið fyrsta.
Brátt kom á daginn, að togarinn var við Kjalarnes. Skipstjórinn Guðmundur
Markússon hafði ekki farið með togaranum í þessari Englandsferð. Fjekk hann
talsamband við skipið. Lagði hann svo fyrir, að kynt yrði bál á þilfari
skipsins. Nokkru síðar sást bálið hjerna frá hafnarskrifstofunni. Talsamband
hjelst milli togarans og Loftskeytastöðvarinnar einn hálftíma eftir að togarinn
strandaði. En þá var kominn sjór í vjelarrúm skipsins, svo slökkt var undir
vjelinni, svo ljós sloknuðu og loftskeytasamband þvarr. En nokkru seinna tókst
loftskeytamanni að koma á talsambandi að nýju með batteríum. Meðan þessu fór fram
lagði Sæbjörg af stað á strandstaðinn, og hafnarbáturinn Magni litlu síðar.
Þetta var kl. að ganga tvö. Logn var á strandstaðnum, er skipin komu, en
talsverð alda. Eigi var talið að skipverjar á Hannesi ráðherra væru í neinni
lífshættu. Frá Brautarholti á Kjalarnesi var símað í nótt, nokkru eftir að
togarinn strandaði. Var sagt þaðan, að hann væri um 500 metra frá landi um
háflóð. Flóð var kl. 2. Jón Bergsveinsson og Guðmundur Markússon skipstjóri
fóru landveg á strandstaðinn með björgunartæki á vörubíl, línubyssu og annað,
til þess að vera þar viðbúnir, ef þess þyrfti með, að taka mennina í land í
björgunarstól.
Kl. 3.30 átti blaðið tal við Ólaf Bjarnason í Brautarholti. Logn var þar þá, en
þung alda. Sagði hann, að togarinn myndi vera 500 metra frá landi. En þegar
væri hálffallið út, um kl. 6 f. h., yrði hægt að komast út á klett, sem ekki
væri nema 2-300 metra frá skipinu. Fyrir þann tíma verður björgunarsveitin með
línubyssuna komin uppeftir. Magni sneri við aftur vegna þoku, en Sæbjörg er
nálægt togaranum og hefir talsamband við hann. Fullvissa skipverjar á Hannesi
ráðherra skipverja á Sæbjörgu um það, að engin lífshætta sje á ferðum.
Klukkan 4.45 voru allir skipverjar af Hannesi ráðherra komnir um borð í
Sæbjörgu. Þótti ekki ráðlegt að vera lengur í togaranum. Því fóru þeir í
björgunarbát frá Hannesi ráðherra út í Sæbjörgu. Voru farnar tvær ferðir. Í
fyrra skifti komu þeir til Sæbjargar kl. 4. Skiluðu þá af sjer 8 togaramönnum.
4 reru til baka í togarann. 14 fóru síðan í björgunarbátnum. Allir sluppu
heilir á húfi í björgunarskútuna, að því er blaðið frjetti síðast. Ægir fór
hjeðan kl. 4 í nótt á strandstaðinn, til þess að athuga um björgun á togaranum.
Um horfur á því er blaðinu ekki kunnugt
Morgunblaðið. 14 febrúar 1939.