29.05.2017 06:15
1055. Árni Friðriksson RE 100. TFJA.
Síldarrannsóknarskipið Árni Friðriksson RE 100 var smíðaður
hjá Brook Marine Ltd í Lowestoft á Englandi árið 1967 fyrir
Hafrannsóknarstofnun í Reykjavík. 474 brl. 2 x 498 ha. MAN díesel vélar. Skipið
var selt til Færeyja 4 september árið 2001. Árið 2005 hét skipið Mars Chaser og
var þá skráð í Kingston á Jamaika sem gæsluskip. Ekki er mér kunnugt um hvar
skipið er niður komið í dag eða hvort það sé komið í hinn illræmda pott.
Árni Friðriksson RE 100 í Reykjavíkurhöfn. (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
Síldarrannsóknaskipið
"Árni Friðriksson"
Undanfarin ár hefur veiðisvæði íslenzkra síldveiðiskipa
aukizt hröðum skrefum. Jafnframt þessu hefur veiðitímabilið einkum norðanlands
og austan tvöfaldast. Af þessum sökum hefur þörfin á vel skipulagðri síldarleit
vaxið ár frá ári. Öflugri síldarleit verður þó ekki haldið uppi nema á góðum og
hentugum skipum, sem eingöngu eru til þessarar starfsemi ætluð. Fram til ársins
1965 var síldarleit eingöngu rekin með varðskipinu Ægi og á leiguskipum, sem
voru misjafnlega vel útbúin og sum þeirra því óhentug til starfsins, svo að
ekki sé meira sagt. Í ársbyrjun 1965 var svo 250 lesta skip, v.s. Hafþór,
afhentur síldarleitinni til fullra umráða. Hann hefur síðan verið búinn nýjum
siglinga- og leitartækjum og hefur reynzt hið bezta í leitinni, enda var góð
reynsla fengin áður af sams konar skipi, v.s. Pétri
Thorsteinssyni, sem leigður
var til síldarleitar á árunum 1962-1965.
Árni Friðriksson RE í smíðum í Lowestoft. (C) Hjálmar R Bárðarson.
Þeim, sem til þekkja, var þó Ijóst, að auk Hafþórs var mikil nauðsyn á að fá
nýtt skip sérstaklega smíðað til síldarleitar, enda myndi slíkt skip gegna
forystuhlutverki í síldarleitinni og koma í stað Ægis. Hafði máli þessu oft
verið hreyft á fundum sjómannasamtakanna. 1 september 1965 ritaði Jakob
Jakobsson ríkisstjórninni ítarlegt bréf um málið og óskaði þess, að hafin yrði
smíði nýs síldarleitarskips Þegar á árinu 1966. Á aðalfundi Landssambands
íslenzkra útvegsmanna, sem haldinn var í desember 1965, var samþykkt tillaga
frá fulltrúum Eyfirðinga um smíði síldarleitarskips og fjáröflun til smíði
þess. Skömmu síðar samþykkti þing Farmanna- og fiskimannasambands íslands sams
konar tillögu. Einnig bárust samþykktir frá öðrum sjómannasamtökum varðandi
málíð. Í þessum tillögum var gert ráð fyrir, að útvegsmenn, sjómenn og
síldarkaupendur stæðu straum af byggingarkostnaði skipsins, sem síðar yrði afhent
hinu opinbera til reksturs.
Árni Friðriksson RE og Skógey SF í Leirvík á Hjaltlandseyjum. (C) J. A. Hugson.
Þá þegar hafði ráðuneytið falið Jakobi Jakobssyni
að gera athuganir á smíði slíks skips og leita tilboða. Hinn 25. marz 1966
skipaði sjávarútvegsmálaráðherra fimm menn í nefnd, þá Guðmund Oddsson, Jón L.
Arnalds, Kristján Ragnarsson, Svein Benediktsson og Jakob Jakobsson, formann.
Hlutverk nefndarinnar var að taka ákvarðanir um smíði og kaup á
síldarleitarskipi, og semja uppkast að frumvarpi til laga um innheimtu gjalds
af síldarafurðum. Nefndin tók við þeim upplýsingum, sem Jakob Jakobsson hafði
aflað og hélt áfram starfi hans. Nefndin samdi frumvarp til laga um smíði
síldarleitarskips og um síldargjald. Frumvarp þetta var síðan samþykkt sem lög
frá Alþingi í maímánuði 1966. Lögin gera ráð fyrir, að skipið verði eign ríkissjóðs
og ábyrgist hann allar greiðslur og skuldbindingar vegna smíði þess.
Síldargjald það sem lögin gera ráð fyrir rennur hins vegar í ríkissjóð, unz
stofnkostnaður skipsins er að fullu greiddur. Ríkissjóður sér um innheimtu
gjaldsins. Gert er ráð fyrir í lögunum, að það nemi 0,3% af útflutningsverði
síldarmjöls og síldarlýsis, en 0,2% af útflutningsverði annarra síldar- og
síldarafurða.
Árni Friðriksson RE 100. Ljósmyndari óþekktur.
Eftir rækilega athugun komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að hagstætt tilboð í
fullkomið síldarleitarskip væri fáanlegt frá skipasmíðastöðinni Brooke Marine
Ltd. í Lowestoft í Englandi. Lagði hún til, að tilboði þessu yrði tekið. Skip
það, sem hér um ræðir, er í öllum aðalatriðum eins og rannsókna- og leitarskip,
sem skipasmíðastöðin hefur þegar lokið smíði á fyrir brezku hafrannsóknirnar,
en undirbúningur að smíði þess skips tók sérfræðinga langan tíma og var í alla
staði mjög til hans vandað. Var nefndin þess fullviss, að hér væri um mjög
hagstætt tilboð að ræða, ekki sízt vegna þess, að hér nytum við allrar þeirrar
miklu undirbúningsvinnu, sem lögð var í brezka skipið og þess öryggis og
hagræðis, sem í því felst, að skipasmíðastöðin hefur þegar smíðað sams konar
skip. Ítarlegar athuganir höfðu verið gerðar á teikningum og smíðalýsingu
skipsins og voru kallaðir til aðstoðar við það starf margir íslenzkir
sérfræðingar. Ríkissjóður átti kost á allt að 80% af andvirði skipsins að láni
og eru ársvextir 5%. Með hliðsjón af þessu tók ríkisstjórnin ákvörðun um smíði
sildarleitarskipsins í samræmi við tillögur nefndarinnar. Samningar um smíði
skipsins voru síðan undirritaðir hinn 17. maí 1966. Árni Friðriksson RE 100 er
450 rúmlestir, hann er um 41,4 m. langur, 9,7 m. breiður og um 4,6 m. djúpur.
Aðalvélar skipsins eru tvær 498 ha M.A.N. dieselvélar, sem tengdar eru á einn
öxul. Ljósavélar verða einnig tvær. Knýr önnur 125 kw riðstraumsrafal, en hin
28 kw rafal. Auk þess verður 125 kw rafall knúinn af aðalvélum. Skiptiskrúfa er
sænsk af Ka Me Va gerð.
Árni Friðriksson RE 100 eftir breytingarnar árið 1990. Þar var m.a. byggt yfir afturþilfar skipsins, innréttuð ný rannsóknarstofa og skipt um togbúnað. (C) Hafrannsóknarstofnun.
Í vélarúmi er
hljóðeinangraður stjórn-og vinnuklefi, en auk þess er unnt að stjórna vélbúnaði
frá lyftingu. Þar er einnig viðvörunarkerfi. Vélarúmið er allt hljóðeinangrað
og allar vélar, gírkassi, dælur og rafalar eru á gúmmístoðum til að hindra
titring í skipinu. Að utan hefur byrðingur skipsins verið gerður eins sléttur
og kostur er. Hvorki verður ytri kjölur né veltibretti á skipinu. Í þess stað
er svokallaður veltitankur eða geymir, sem nær þvert yfir skipið. Hann er
hálffylltur af sjó og er ætlast til að sjórinn streymi jafnan á móti veltu
skipsins og dragi allt að 50- 60% úr veltunni. Framangreindar ráðstafanir hafa
verið gerðar til að leitarhæfni fiskileitartækjanna komi að sem beztum notum og
góð starfsskilyrði verði fyrir hvers konar nákvæmnisvinnu um borð. Leitartækin
verða af Simrad gerð. Í fyrstu verður aðalfiskritinn venjulegur S. B. Simrad
Sonar (Stóri Simrad), en í ársbyrjun 1968 verður mun stærra leitartæki, sem nú
er hafin smíði á, sett í skipið.
Mars Chaser í Tromsö í Noregi árið 2005. (C) Hildur Pétursdóttir.
Þetta nýja tæki er sérstaklega gert eftir
okkar kröfum og óskum. Auk þeirra tæknilegu ráðstafana, sem þannig hafa verið
gerðar til þess, að skipið geti sem bezt gegnt hlutverki sínu, er það einróma
álit þeirra sem til þekkja að hér sé um mjög gott og traust sjóskip að ræða. Þá
ber að geta þess, að skipið verður útbúið til skuttogs- og hringnótaveiða.
Vindur verða frá Brattvág í Noregi. Tvær rannsóknastofur eru í skipinu, þar sem
aðstaða verður til úrvinnslu nauðsynlegra gagna við síldarleitina o.fl.
Smíðaverð skipsins er um 40 millj. kr. Smíði þess hófst síðla sumars 1966, og
hinn 1. marz s.l. var það sjósett og gefið nafnið Árni Friðriksson, en hann var
fyrsti forstöðumaður Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans og síðar
framkvæmdastjóri Alþjóðahafrannsóknaráðsins í mörg ár. Mesta afrek dr. Árna á
sviði síldarrannsókna má tvímælalaust telja kenningar hans um hinar miklu
síldargöngur milli Íslands og Noregs. Dr. Árni Friðriksson lézt á s.l. hausti.
Skipið var afhent hinn 5. þ.m. og gekk 12,9 sjómílur í reynsluferð.
Ægir. 16 tbl. 15 september 1967.