04.06.2017 11:44
Gunnvör SI 81. TFKM.
Flotinn
eykst og batnar
Við Siglufjarðarflotann hafa bæzt tvö myndarleg skip, »Rafn«
(áður Víkingur) sem Jón Hjaltalín keypti og lét gera sem nýjan, »Gunnvör«,
keypt frá útlöndum af Ingvari Guðjónssyni og Barða Barðasyni skipstjóra.
Síldin. 5 ágúst 1939.
M.s. Gunnvör
strandar
Frækileg
björgun
S.l. föstudag heyrði loftskeytastöðin hér neyðarkall frá
m.s. Gunnvöru RE 81, Kvað skipstjórinn skipið vera strandað við Kögur, og þurfa
skjóta hjálp. Loftskeytastöðin sendi út aðstoðarbeiðni til skipa bæði á mæltu
máli og morsi og á íslenzku og ensku. Þetta var um kl. 18. Brátt náðist samband
við b.v. Egil Skallagrímsson, sem var staddur út af Ísafjarðardjúpi, og hélt
hann þegar áleiðis til strandstaðarins. Ennfremur náðist samband við brezka
togarann Gregory, sem mun hafa verið staddur 7-10 sjómílur frá staðnum, og
lagði hann einnig af stað til hjálpar hinu nauðstadda skipi. B.v. Hvalfell fór
ennfremur á staðinn og fleiri skip voru á leiðinni þangað, þar á meðal m.b.
Finnbjörn, sem staddur var á Dýrafirði, þegar fréttist um strandið og m.b.
Hafdís, eign h. f. Njarðar, bar þar einnig að. Meðan skipin voru á leið til
strandstaðarins hafði stöðin hér stöðugt samband við þau og við hið strandaða
skip. Dimmt var í veðri og þungur sjór og aðstaða öll til björgunar af sjó
talin mjög erfið.
B.v. Agli Skallagrímssyni tókst að finna m.s. Gunnvöru með
miðunartækjum sínum og reyndist hún hafa strandað á 66° 22' n. l. og 22° 57'
v.br. Á tímabili var talið að ekki mundi þýða fyrir önnur skip en þau, sem
hefðu radar, að fara nálægt hinu strandaða skipi, en eitthvað mun hafa rofað
til, og komu brezki togarinn og b. v. Egill Skallagrímsson fyrstir á
strandstaðinn. Mun það hafa verið um kl. 20. Taldi þá skipstjórinn á Gunnvöru
að óhætt mundi að koma á björgunarbáti upp að Gunnvöru, og kvað sig hafa misst
lífbát skipsins strax eftir strandið. Varð það úr, að lífbátur var sendur frá
b.v. Agli Skallagrímssyni, undir stjórn stýrimanns, útbúinn með línubyssu o.fl.
tækjum.
Báturinn lagði frá Agli laust fyrir kl. 21 og eftir tæpan hálftíma
tilkynnti skipstjórinn á Gunnvör, að báturinn væri kominn að hlið hennar,
skipsmenn væru að að fara í hann, og hann væri að yfirgefa talstöðina. Um kl.
22 var svo björguninni að fullu lokið og áhöfn Gunnvarar, 7 menn, komnir um
borð í Egil heilu og höldnu. Á leið bátsins milli skipanna aðstoðuðu b.v.
Hvalfell og m.b. Hafdís með því að lýsa upp leiðina með ljóskösturum sínum.
M.b. Hafdís var um kyrrt á staðnum fram undir morgun næsta dags, og segja
skipverjar á henni, að skömmu eftir að björgunin hafði tekizt, hafi aðstaða öll
versnað svo að björgun af sjó hefði verið óhugsandi. Þykir skipshöfn b.v. Egils
Skallagrímssonar hafa unnið þarna mikið afrek. Skipstjóri Egils er Kolbeinn
Sigurðsson, en skipstjóri m. s. Gunnvarar í þessari ferð var Ólafur Stefánsson.
Vegna þess, hversu björgun af sjó var talin tvísýn um tíma, hafði karladeild
Slysavarnafélagsins hér, viðbúnað til að reyna björgun úr landi. Var m.b.
Gunnbjörn fengin til þess að fara héðan með sveit sjálfboðaliða og
björgunartæki. Átti sveit þessi að ganga á land í Fljótavík og freista að komast
með björgunartækin á strandstaðinn. Strandstaðurinn var fyrst talinn vera
austan til við Kögur en reyndist vera vestan til við hann, eða inni á sjálfri
Fljótavík. M.s. Gunnvör hafði ætlað að stunda vetrarsíldveiðar syðra, en var nú
á leið til Siglufjarðar. Hún hafði innanborðs 2 nýjar vetrarsíldarnætur, að
verðmæti um 130 þús. kr., og krossvið fyrir um 10 þús. kr. Þessum verðmætum
hefur verið reynt að bjarga úr skipinu, en ekki tekizt vegna óhagstæðrar
veðráttu. Ólíklegt er að skipinu verði bjargað.
Skutull. 28 janúar 1949.